24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 999 í B-deild Alþingistíðinda. (799)

329. mál, heilbrigðisþjónusta

Fyrirspyrjandi (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég vil aðeins ítreka það hér, að mér er ekki ókunnugt um þá endurskoðun sem í gangi er, og hún fer væntanlega að sjá dagsins ljós. En ég vil að gefnu tilefni aðeins minna á það hér, að þessi löggjöf, sem var sett 1973 og endurskipulögð eða endurnýjuð frá Alþingi 1978, gerir ráð fyrir því í öllum atriðum, að um þessa starfsemi verði sett reglugerð sem ráðh. setur. Og það verður að segjast eins og er að ekki hefur verið staðið við eftirfarandi ákvæði í 19. gr. þessara laga: „Ráðherra setur með reglugerð ákvæði um stærð heilsugæslustöðvar og fyrirkomutag, læknafjölda og annað sérmenntað starfslið, tækjabúnað og starfsháttu og fyrirkomulag heilsuverndarstarfs á hverjum stað, þar á meðal um móttöku sjúklinga utan stöðva. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að fjölga stöðvum í umdæmi að höfðu samráði við landlækni og hlutaðeigandi heilbrigðismálaráð.“

Um þetta hefur verið deila allar götur síðan lögin voru sett, skort á þessari reglugerð. Og það er mjög miður farið, að margt, sem við teljum að hafi farið úrskeiðis í sambandi við rekstur heilsugæslustöðva og samskipti ríkis og sveitarfélaga, sjúkrasamlaga og Tryggingastofnunar ríkisins, hefur stafað einvörðungu af þessum skipulagsskorti sem reglugerðinni við lögin var ætlað að bæta úr.