24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1005 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

337. mál, nýjar kjarnorkueldflaugar í Evrópu

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir þau svör sem hann veitti hér, sem voru allskýr í sumum atriðum en í öðrum e. t. v. aðeins óljósari.

Það kom fram í þeirri fréttatilkynningu sem hæstv. utanrrh. las hér frá utanrrn. í des. 1979, að fulltrúar Íslands hefðu engan þátt tekið í undirbúningi ákvörðunarinnar um að staðsetja nýjar kjarnorkueldflaugar í Evrópu. Engu að síður skildist mér á hæstv. utanrrh. að Ísland ætti að bera fulla ábyrgð á þessari ákvörðun og væri orðið aðili að henni um leið og þeir, sem í undirbúningnum tóku þátt, höfðu tekið ákvörðunina. Mér finnst þetta mjög merkileg yfirlýsing vegna þess að hún lýsir því, að það séu aðrir innan Atlantshafsbandalagsins en við, sem undirbúi höfuðstefnumál af þessu tagi. Við tökum engan þátt í þeim undirbúningi eins og hér kom fram, en síðan erum við gerðir samábyrgir á eftir, þótt við höfum á engan hátt verið málsaðilar að öllum efnisundirbúningi ákvörðunarinnar. Ég spyr: Getur sjálfstætt ríki tekið þátt í ákvarðanatöku af þessu tagi? Er hægt að telja sig samábyrgan og fullgildan þátttakanda eftir á, ef það eru eingöngu fulltrúar annarra ríkja sem eiga allan hlut að undirbúningi málsins? Ég fagna því að fulltrúar Íslands hafa ekki átt neinn þátt í þessum undirbúningi. Ég vil hins vegar biðja menn að íhuga hvort það sé ekki rétt að við höfum eðlilegan fyrirvara um þessa ákvörðun, sem mér finnst þessi málatilbúnaður gefa til kynna. Þetta vekur upp spurningar. Eru það fleiri ákvarðanir á vegum Atlantshafsbandalagsins sem við eigum engan þátt í að undirbúa en binda okkur síðan eftir á? Er það orðið þannig að það séu fulltrúar annarra ríkja, sem í reynd taki ákvarðanir fyrir Ísland, við séum bara uppáskriftaraðilar þegar ákvörðunin liggur fyrir? Þótt ég sé ekki stuðningsmaður Atlantshafsbandalagsins, eins og öllum hér er kunnugt, tel ég mjög hættulegt og mjög alvarlegt, ef sú lýsing, sem hér var gefin á þessari mikilvægustu ákvörðun sem Atlantshafsbandalagið hefur tekið, á við í fleiri efnum.

Ég fagna því einnig að utanrrh. skyldi lýsa því yfir hér og endurtaka, að Íslendingar myndu ekki standa að því að staðsetja kjarnorkuvopn hér á landi. Mér fannst það vera viss fyrirvari, viss grundvöllur til þess að skapa fjarlægð okkar frá þeirri ákvarðanatöku sem þarna hefur farið fram. A. m. k. felur það í sér að Íslendingar ætli sér ekki að takavið neinum kjarnorkuvopnum af þessu tagi. Ég spyr þess vegna: Væri ekki eðlilegra að Íslendingar stæðu þá utan við þessa ákvarðanatöku að öllu leyti, fyrst málatilbúnaðurinn hefur verið með þessum hætti?

Ég harma það hins vegar, að hæstv. utanrrh. virtist ekki reiðubúinn til þess áðan að hafa frumkvæði að því á vettvangi Atlantshafsbandalagsins, að framkvæmd þessarar ákvörðunar yrði frestað og hætt yrði við, a. m. k. í bili, að undirbúa framleiðslu þessara vopna þangað til séð yrði hver niðurstaða gæti orðið í viðræðunum sem nú eru á leiðinni að hefjast. Hins vegar fagna ég því, að hæstv. ráðh. lýsti yfir, eins og ég skildi hann, að ef frá fulltrúum annarra ríkja innan Atlantshafsbandalagsins kæmu fram slíkar tillögur væri hann reiðubúinn að taka undir þær. Það er ljóst, að bæði í Hollandi og Belgíu eru uppi raddir um að óska eftir því á næsta utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins, að þessi ákvörðun verði endurskoðuð a. m. k. í bili. Og þótt ég hefði kosið að utanrrh. Íslands væri reiðubúinn til að hafa frumkvæði í þessum efnum, — en það er kannske óeðlilegt ef við höfum engan þátt átt að undirbúningi málsins, — þá er það fagnaðarefni, að hann skuli vera reiðubúinn til þess að taka þátt í hvatningum annarra til þess að svo verði.

Að lokum, herra forseti, hefði ég kosið að fá skýrari svör um afstöðu hæstv. utanrrh. til þeirra stefnuatriða sem friðarhreyfingin í Evrópu hefur sett fram. Það er að vísu rétt hjá hæstv. ráðh., að innan þeirrar hreyfingar eru margvíslegir aðilar, sem hafa ýmsar skoðanir. En það eru nokkrar meginkröfur sem sameina þessa aðila. Ég vil að lokum geta þess, að þótt hæstv. utanrrh. og kannske aðrir hér séu ekki reiðubúnir að taka undir þessa gagnrýni og þessa stefnu, þá voru birtarum síðustu helgi í Frakklandi niðurstöður af skoðanakönnunum sem sýndu að yfir 50% bresku þjóðarinnar, yfir 50% frönsku þjóðarinnar og yfir 50% þýsku þjóðarinnar studdu kröfur og gagnrýni og málstað friðarhreyfingarinnar og yfir 80% hollensku þjóðarinnar léðu málstað friðarhreyfingarinnar stuðning.