24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1018 í B-deild Alþingistíðinda. (819)

338. mál, aðild Íslands að kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Það er sjálfsagt til mikil fáfræði víða og ég veit ekki hvers konar fólk Ólafur Ragnar Grímsson umgengst á Norðurlöndum. Hann hefur vafalaust getað fundið einhverja sem voru svo fávísir að telja að Íslendingar gætu ekki ákveðið það sjálfir, hvort þeir væru liður í svæði sem þessu, ef þeir vildu. Ég hef ávallt talið það sjálfsagt. Auðvitað ákveðum við þetta sjálfir og auðvitað þurfum við ekki að spyrja neina aðra að því. Þess vegna hefði þm., getað leiðrétt þetta hjá því fólki sem hann hefur hitt. Ég verð að segja fyrir mig, að á þeim mörgu fundum sem ég hef setið á Norðurlöndunum hefur hvergi borið á góma af hálfu ábyrgra stjórnmálamanna að Ísland ætti ekki að vera með í þessum hugmyndum. Það hefur hvergi verið á pappír sett neitt í þá áttina né nokkrum manni dottið það í hug. En eins og ég sagði, herra forseti, þá er fáfræði auðvitað mikil og víða.

Annars eru þetta einkennilegar umr., vegna þess að þegar á Norðurlöndunum hófst mikil umræða um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, um yfirlýsingu um það, þá rak á fjörurnar sovéskan kafbát hlaðinn kjarnorkuvopnum hjá hlutlausu ríki, Svíþjóð. Þegar maður var tekinn í Danmörku fyrir njósnir í þágu Sovétríkjanna, þá hóf Ólafur Ragnar Grímsson að tala um upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna á Íslandi. Og núna, þegar við ætluðum að ræða hugmyndir um hvernig afstaða okkar kynni að vera til yfirlýsingar um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum, þá spyr hann ekki hvað við viljum, heldur vill hann fá að vita hvað einhverjir aðrir halda um þetta einhvers staðar á Norðurlöndum, þegar þetta er greinilega atriði sem við ákveðum sjálfir.