24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

338. mál, aðild Íslands að kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér mjög í deilur þeirra Alþb.-manna og Alþfl.manna um það efni, hvernig Norðurlandaþjóðirnar líti á kjarnorkuvopnalaust svæði á Íslandi. Hins vegar vil ég þó fullyrða að það er rangt, sem síðasti ræðumaður sagði, að Alþfl.-menn á Íslandi hafi komið þeim hugmyndum, sem um er rætt, inn hjá frændum okkar og vinaþjóðum. Það veit ég — þekki þá það vel — að þeir hafa ekki gert. Þær hugmyndir eru annars staðar frá komnar, þ. á m. frá hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, sem hefur verið að reyna að læða því inn og fjöldi annarra kommúnista eða Alþb.-manna, að kjarnorkuvopn væru kannske falin á Íslandi og kannske ekki í litlum stíl.

En ég stóð aðallega upp til að fagna því, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson tekur undir svo til öll orð utanrrh. sem túlkar málstað Íslands í öryggis- og varnarmálum mjög vel og málstað NATO-ríkjanna. Það er ánægjulegt.

Þessi hv. þm. ætlaði að gera sér lítið fyrir og breyta öllum alþjóðalögum í hafréttarmálum í lítilli löggjöf á Íslandi. Mér finnst það vera nokkuð gott ef hann getur það. Það á sem sagt að hafa kjarnorkuvopnalaust 200 mílur undan Íslandsströndum með einni löggjöf hjá okkur. Þetta mál er ekki svona einfalt. Jafnvel þó að það væri svona einfalt, að við gætum sett þessi lög, held ég að þau hefðu litla þýðingu. Gæti ekki strandað hérna kafbátur með rússneskum kjarnorkuvopnum alveg nákvæmlega jafnt fyrir því? (Gripið fram í.) Já, jafnvel á Seltjarnarnesi, úr því að hann strandar inni á bannsvæði sænska hersins?

Þessi yfirdrepsskapur er yfirþyrmandi. Flokksþing kommúnista er að samþykkja að nú eigi flokkarnir á Íslandi að setja lítil lög, þá sé allt saman klappað og klárt, enginn Rússi muni koma hér nálægt. Við gætum kannske einhvern hemil haft á bandalagsþjóðum okkar, við gætum haft einhver samskipti við þær og fengið einhverjar upplýsingar, en ekki frá Rússum.

Þessi hv. þm. fer svo eins og köttur í kringum heitan graut þegar rætt er um tilboð Reagans Bandaríkjaforseta. Auðvitað trúir ekki nokkur maður því, að það sé fyrst og fremst friðarstefna sem hann er að reyna að túlka. Þetta er hreinn og klár áróður. Hann er góður áróðursmaður, þótt að vísu fari stundum fyrir mér eins og flokksbræðrum hans, að ég geti varla setið undir ræðum hans.