24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1021 í B-deild Alþingistíðinda. (824)

338. mál, aðild Íslands að kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég held að búið sé að ræða nóg um efni þessarar fyrirspurnar, og ætla ég ekki að bæta neinu þar við.

Ég vil leyfa mér að átelja þann hátt sem hv. þm. Stefán Jónsson hefur iðulega á í ræðum sínum þegar hann er að búa til sögur um hvað þessi og hinn hafi sagt sér, að þessi og hinn íslenskur þm. sé að reyna að mistúlka stöðu lands síns og þjóðar út á við eða sitji jafnvel á svikráðum við land sitt og þjóð. Við fengum að heyra margar slíkar yfirlýsingar frá hv. þm. og blaði hans á sínum tíma þegar við stóðum í samningum við Noreg um Jan Mayen-málið. Þá voru margir menn sem höfðu sagt honum að Alþfl.-menn og þá sérstaklega utanrrh., sem þá var Benedikt Gröndal, formaður Alþfl., væru að svíkja þjóðina eða selja sjálfstæðið. Ég vil mjög skora á hv. þm. að viðhafa ekki slíkt orðbragð sem hann veit að er rangt og sæmir honum ekki sem þm. Ég skora á hann, hæstv. forseti, að láta slíkt niður falla, því að verið gæti, þó að hv. þm. hafi iðkað að þvo stóryrði úr ræðum sínum hér á Alþingi eftir að hann hefur flutt þær og sé sennilega eini þm. sem það hefur gert, að þeir væru fleiri sem hlustuðu á hv. þm. en læsu ræður hans í gögnum Alþingis.