24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (825)

338. mál, aðild Íslands að kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum

Fyrirspyrjandi (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Ég vil að gefnu tilefni vekja athygli hv. Alþingis á því, að Olof Palme, fremsti forustumaður jafnaðarmanna á Norðurlöndum og jafnframt formaður í mikilvægustu nefnd í afvopnunarmálum sem sett hefur verið upp á síðustu misserum, hefur lýst þeirri skoðun sinni eftir strand kafbátsins í Svíþjóð, að baráttan fyrir kjarnorkuvopnalausum Norðurlöndum sé enn brýnni en hún var áður. Það er hans túlkun á þessum atburðum, að þeir sýni fyrst og fremst að stefna hans og annarra um nauðsyn þess að ganga lögformlega frá því, að Norðurlönd verði kjarnorkuvopnalaust svæði, sé rétt. (Gripið fram í.) Þess vegna eru Alþb. og Olof Palme alveg sammála í þessum málum. En það vill svo einkennilega til að a. m. k. sumir hv. þm. Alþfl. hér virðast vera á annarri linu en þessi fremsti forustumaður jafnaðarmanna á Norðurlöndum. (ÁG: Hver segir að hann sé það?) Það er mín skoðun að hann sé það. Það er alveg ljóst að á alþjóðavettvangi er hann það. Kjartan Jóhannsson á langt í land með að ná sama gæðaflokki.

Það er hins vegar ömurlegt að jafnötull baráttumaður í landhelgismálum og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson skuli ætla sér hlutverk Emils Jónssonar í þessu nýja landhelgismáli Íslendinga. Þegar till. um 50 mílurnar kom fram sagði þáv. utanrrh. Emil Jónsson að þetta væri ævintýrapólitík. En niðurstaðan hefur samt sem áður orðið sú, að við höfum fengið 50 mílur og við höfum fengið 200 mílur. Ég held að sú hugsun, sem hefur verið orðuð af okkur og mörgum öðrum um nauðsyn þess að við förum að stíga ný skref í þessum efnum, sé mikilvæg. Ég tek eindregið undir þá skoðun sem hv. þm. Árni Gunnarsson lýsti hér áðan.

Ég ætla, herra forseti, að geyma mér að ræða þá þáltill. sem Friðrik Sophusson notaði þennan ræðutíma til að kynna. En það finnst mér fagnaðarefni, að eftir rúmlega 30 ára aðild að NATO og margvíslegar ákvarðanir sem hafa verið teknar í íslenskum öryggismálum, skuli forustumenn NATO-þingmanna hér á Alþingi flytja till. sem viðurkennir að það sé enginn einasti maður í utanrrn. Íslendinga sem hafi vit á þessum málum.