24.11.1981
Sameinað þing: 24. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (826)

338. mál, aðild Íslands að kjarnorkuvopnalausu svæði á Norðurlöndum

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að vera stuttorður. Það, sem ég sagði hér áðan, var að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson ætlaði að gera sér lítið fyrir og breyta þjóðarétti með einni löggjöf hér á Alþingi, að við ákvæðum að við réðum öllum siglingum innan fiskveiðitakmarkanna, þ. e. innan 200 mílna efnahagslögsögunnar. Þetta getur hvorki Ólafur Ragnar Grímsson né neinn maður annar. Ég sagði ekkert um að ég vildi ekki eiga þessi réttindi. Ég held að allir viti að ég er talsvert mikill ákafamaður um að við tryggjum okkur öll þau réttindi sem við getum. En þetta verður aldrei samþykkt á þeirri hafréttarráðstefnu sem nú er. Það er búið að komast það langt að ríkin eiga 12 mílna landhelgi, meira er það ekki í dag, og 200 mílna efnahagslögsögu. Því breytum við ekki með einni löggjöf og síst með samþykki kommúnistaflokksins á Íslandi.

Þetta er ósköp einfalt mál og þarf ekkert um það að ræða frekar. Auðvitað vil ég okkar réttindi sem mest. Ég held að það hafi ég sýnt og raunar hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson mjög vel og dyggilega líka í Jan Mayen-málinu. Nú vill einmitt svo til, að fram undan er og stendur yfir barátta sem er kannske ekki síður mikilvæg, þ. e. á Rockall-svæðinu, sem einmitt þarf að taka upp núna hið allra bráðasta. En að því er varðar að friða allt Norður-Atlantshafið er ég fyrsti maðurinn sem mundi samþykkja það, ef það væri í okkar valdi og við gætum fylgst með því að Rússar brytu ekki í bága við það.