24.11.1981
Sameinað þing: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (832)

38. mál, fangelsismál

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég fagna þeirri þáltill., sem hér er til umr., og þakka flm. hennar fyrir að færa þessi mál inn á hv. Alþingi. Eins og fram hefur komið hafa þessi mál verið mikið í sviðsljósinu undanfarna mánuði og fram komið mikil gagnrýni á fangelsismálin og aðbúnað fanga í fangelsum. Þær umræður gefa vissulega tilefni til að gerð verði úttekt á þessum málum, enda erfitt að meta fyllilega réttmæti þeirrar gagnrýni, sem fram hefur komið, fyrr en sú úttekt liggur fyrir, þó margt bendi til að hún eigi við töluverð rök að styðjast. Ég tel því skynsamlega á málum tekið í þessari þáltill., að úttekt fari fram og áliti verði skilað um úrbætur,auk áætlunar um framtíðarskipan þessara mála.

Ég skal ekki fara út í einstaka gagnrýni, sem fram hefur komið á fangelsismálum í fjölmiðlum, en við þó benda á eitt atriði. Ég álít að það eitt gefi vissulega tilefni til úttektar á þessum málum. Í Dagblaðinu 17. ágúst s. l. segir Jón Bjarman fangaprestur eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ég hef fylgst með um 300 refsiföngum. Flestir koma út skaddaðir, sumir óbreyttir, einn, kannske tveir, höfðu batnað.“

Þessi orð fangaprestsins, sem hefur starfað að þessum málum um langan tíma, manns sem hefur tækifæri til að komast mjög náið í snertingu við þessi mál og greina hvað aflaga fer í aðbúnaði fanga og fangelsismálum almennt, gefa vissulega tilefni til að huga betur að þessum málum. Þau gefa sannarlega tilefni til að staldra við og athuga hvort við séum yfirleitt á réttri braut þegar það er mat fangaprestsins að flestir komi skaddaðir út eftir fangavist, hvort ekki þurfi að huga að ýmsum öðrum atriðum betur sem lausn vegna afbrota en eingöngu innilokun bak við lás og slá, einhverju sem stuðlað gæti að því að gera fangann betri þjóðfélagsþegn, en ekki verri, þegar hann hefur lokið sinni afplánun.

Ég vil benda á hér í lokin, að reglugerð um fangavist er orðin mjög úrelt og brýna nauðsyn ber til að endurskoða hana, en hún er frá 1957 og því 24 ára gömul.

Í sjálfu sér verður því ekki móti mælt, að nokkuð strangur agi verður að vera í fangelsum. En það er hægt að ganga of langt með allt of ströngum reglum, þannig að reglurnar skaði, en bæti ekki. Það hlýtur að vera hægt að finna mannúðlegri leið í meðferð fanga en að fangaverðir lesi hvern stafkrók í bréfum sem fangar fá, hleri öll símtöl þeirra, auk þess sem þau eru mjög takmörkuð, standi síðan yfir þeim meðan þeir fá heimsóknir af sínum nánustu. Gengur ekki snuðrið um einkahagi fanganna of langt með þessu? Benda má einnig á að í þessari reglugerð er fangelsisstjóra veitt heimild til að loka fanga inni í einangrunarklefa í allt að 90 daga, þó ekki lengur en 30 daga nema með samþykki ráðuneytisins. Er fangelsisstjóranum ekki gefið þarna of mikið vald að geta einn úrskurðað fanga í 30 daga einangrun? Væri ekki réttara að fleiri væru um að meta brot fangans, hvort það væri svo stórt að tilefni gæfi til margra vikna einangrunar?

Ég hafði ætlað mér að flytja till. um að þessi reglugerð frá 1957 yrði endurskoðuð, en ég sé ekki ástæðu til þess, því eins og þessi till. er sett fram hlýtur einnig að felast í henni að nefnd sú, sem fær málið til meðferðar, endurskoði þessa reglugerð. Vænti ég þess fastlega, að svo verði gert.

Ég vil, herra forseti, að lokum ítreka þakklæti mitt til flm. og lýsa yfir fyllsta stuðningi við þessa till. og vona að hún fái greiða leið hér á hv. Alþingi og stuðning sem flestra þm.