24.11.1981
Sameinað þing: 25. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (833)

38. mál, fangelsismál

Guðm J. Guðmundsson:

Herra forseti. Í þáltill. þeirri, sem hér er til umr., er lagt til að kosin verði 7 manna nefnd sem geri úttekt á fangelsismálum á Íslandi. Jafnframt er í grg. vakin athygli á þeirri spurningu, hvort ekki skuli.beitt öðrum viðurlögum en fangelsunum í ríkari mæli en verið hefur til þessa. Hv. 2. þm. Austurl. hefur gert grein fyrir þáltill. og efnisatriðum hennar og því óþarft að skýra hana nánar. Jafnframt er vert að þakka þær góðu undirtektir sem komu frá hv. 10. þm. Reykv.

Ég vil hins vegar lýsa gagnrýni minni á þeirri oftrú sem virðist ríkja í lögum og dómum hér á landi á gildi fangelsisvistunar. Ég hef í nokkra áratugi haft talsverð kynni af ýmsum þeim og þá sér í lagi ungmennum sem betrunarhúsið á Litla-Hrauni hafa gist. Öll þau kynni hafa sífellt betur staðfest þá skoðun mína, að við séum á rangri leið í þessum efnum. Ég hef haft kynni af ungum mönnum sem glatað hafa heilsu sinni á Litla-Hrauni og tortímst í orðsins fyllstu merkingu. Það væri ljót saga ef það væri þulið.

Áður en ég hef reiðilestur minn, ákæruna gegn þessari fangelsistrú, vil ég taka skýrt fram og leggja áherslu á að það er auðveldara að gagnrýna þetta fyrirkomulag en koma með jákvæðar og frjóar tillögur til úrbóta. En þær litlu vonir, sem ég batt við núv. hæstv. dómsmrh. í þessum efnum, eru löngu kulnaðar. Hafa hv. alþm. gert sér grein fyrir því, að um 80% fanga á Litla-Hrauni eru alkóhólistar eða eiga við alvarleg áfengisvandamál að stríða? Hafa hv. alþm. gert sér grein fyrir því, að verulegur hluti þessara manna kemur aftur og aftur á Litla-Hraun? Hvar er betrunarhúsið sem átti að bæta þessa ungu menn og gera þá að nýtari þjóðfélagsþegnum? Mér er sagt að það séu milli 10–15 fangar á Litla-Hrauni samkvæmt læknisúrskurði geðveikir, að vísu á mismunandi háu stigi, sumir dæmdir ósakhæfir, aðrir taldir þurfa á læknismeðferð að halda sökum geðveiki og eiga alls ekki í fangelsum að dveljast. Þessir menn þurfa læknismeðferð. Eins og ég sagði áðan hafa margir verið úrskurðaðir ósakhæfir sökum geðveiki, en engu að síður vistaðir á Litla-Hrauni vegna þess að geðsjúkrahús neita að veita þeim viðtöku. Slíkir menn geta ekki talist heppilegir uppalendur ungra manna og óharðnaðra, sem dómsvaldið hefur úrskurðað til betrunar. Hér er raunar á ferðinni einstakt hneykslismál, sem þyrfti að ræða sérstaklega. Landlæknir hefur raunar oftar en einu sinni ítrekað að hér sé um fáheyrt hneykslismál að ræða. Þarna eru einnig kynferðislega afbrigðilegir menn, sem framið hafa kynferðisleg afbrot eða orðið afbrigðilegir á þessu sviði vegna fangelsisvistar, eins og gjarnan vill verða. Slíkir menn geta ekki heldur talist heppilegir uppalendur ungra manna og óharðnaðra sem dómsvaldið hefur sent til betrunar. Menn, sem dæmdir eru fyrir sérstaklega óhugnanleg kynferðisafbrot, eru 3–4. Ef 50 menn eru vistaðir á Litla-Hrauni hefur um þriðjungur þessara manna ýmist verið úrskurðaður geðveikur af læknum og ætti að dveljast á geðveikrahælum eða vera undir læknishendi eða háskalega kynferðislega afbrigðilegir menn. Slíkt er betrunarhúsið sem við sendum í unga menn um tvítugt í tugatali ár eftir ár og erum forundrandi á að skuli ekki koma göfugir til baka. Ótrúlega margir þeirra, sem hafa verið dæmdir á Litla-Hraun, eru ungir menn. Þeir eiga ótrúlega margt sameiginlegt. Þeir koma flestir frá heimilum sem hafa átt við erfiðleika að stríða, víða verið mikil áfengisneysla og önnur óregla, hjónaskilnaðir foreldra mjög tíðir. Þeir hafa átt erfiða bernsku og æsku og ekki fengið rétta aðstoð á réttum tíma, sjálfir síðan lent í óreglu, gengið refilstigu, en þó fæstir unnið nokkur níðingsverk, smáþjófnaðir, áfengislagabrot, bilþjófnaðir, minni háttar ávísanafals og þannig mætti lengi telja. Kornungir eru þeir komnir í hendur lögreglunnar. Vinnubrögð lögreglunnar gagnvart þessum ungu mönnum eru kapítuli út af fyrir sig sem fróðlegt væri að ræða nokkuð ítarlega. Þarna er um erfiða aðstöðu lögreglumanna að ræða og hægara um að tala en í að komast, en fádæma eru þessi vinnubrögð oft óheppileg og skaðleg.

Síðan eru þessir ungu menn gjarnan orðnir fangar á Litla-Hrauni fyrir tvítugt. Hafi þeir ekki verið lyfjasjúklingar fyrir verða þeir það flestir á skömmum tíma þar eystra. Sama gildir raunar um hegningarhúsin við Skólavörðustíg og Síðumúla. Svo þegar fangelsið er yfirgefið, dómurinn afplánaður, standa þeir vegalausir í borginni, í ótrúlega mörgum tilfellum útilokaðir frá atvinnumöguleikum því umhverfið snýst öndvert við. Oft eru einu vinirnir samfangar sem eiga við sömu vandamál að stríða. Þetta vandamál eykur áfengisþörfina, eykur pilluátið sem lærðist í fangelsunum og síðan liggur leiðin oftast aftur til betrunar á Litla-Hrauni. Hringrásin er hafin. Í ótrúlega mörgum tilfellum er þessi hringganga svo tíð að fyrr en varir eru bestu árin að baki.

Þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið, hafa verið gerðar af Félagasamtökunum Vernd, sem hafa komið upp tveimur bækistöðvum fyrir fanga sem dvalið hafa á Litla-Hrauni. Aðstoð ríkisins þar hefur verið eitthvað innan við eða um 1% af kostnaði. Þrátt fyrir þessa dimmu reynslu, sem sanna má með tölulegu úrtaki hvenær sem er, virðast yfirvöldin hér á landi enn þá telja Litla-Hraun einu sáluhjálp þessara manna. Sannleikurinn er hins vegar sá, að þessi hópur er langstærstur þeirra sem gista Litla-Hraun.

Hvernig skyldi svo aðstaðan vera hjá þeim sem eru að reyna að brjótast út úr þessum vítahring? Ég gæti nefnt fjölda dæma, 10–20 eða fleiri ef óskað er, þar sem dómsmálayfirvöld virðast leggja sig fram um að koma þessum mönnum niður í svaðið aftur. Þar er um að ræða svo furðulegan skort á mannlegu innsæi og skilningi á mannlegum aðstæðum að maður stendur steini lostinn frammi fyrir þessum ósköpum. En ég skal láta mér nægja eitt dæmi, þar sem nýlokið er einum þætti þess harmleiks, en það er langt frá því að vera ljótasta dæmið. Ef ég nefndi ljótari dæmi býst ég við að virðulegur forseti mundi hringja bjöllu og áminna fyrir ljótt orðbragð.

Til mín leituðu fyrir röskum þremur árum ung hjón með ungt barn. Þau höfðu sótt um íbúð í verkamannabústöðum og áttu við magnaða húsnæðiserfiðleika að stríða. Þeim var úthlutað lítilli tveggja herbergja íbúð. Mér var kunnugt um að eiginmaðurinn, sem að vísu var kornungur, hafði oftar en einu sinni dvalist á Litla-Hrauni, m. a. misst þar fingur vegna lélegrar læknisþjónustu. En eftir að hann kynntist konu sinni hætti hann allri áfengisneyslu, en stundaði vinnu af kappi bæði til sjós og lands. En sumarið 1980 dundi ógæfan yfir. Árið áður hafði hann verið dæmdur í sex mánaða fangelsisvist á Litla-Hrauni fyrir afbrot, sem framið hafði verið u. þ. b. þrem árum eða svo áður en dómur féll, og nú krafðist dómsvaldið þess, að dómurinn skyldi afplánaður, sex mánaða vist á Litla-Hrauni plús 21/2 mánuður sem átti eftir að afplána frá því á fyrri dögum.

Fjárhagur ungu hjónanna var á þann veg, að skuldir voru á milli 8 og 10 millj. gkr. í vaxtaaukalánum og tvísýnt að íbúðin færi ekki á nauðungaruppboð, eiginkonan var barnshafandi að öðru barni þeirra og heimilislæknirinn úrskurðaði að fyrri fæðing hefði gengið það erfiðlega að ekki kæmi til mála að konan héldi áfram störfum meðan hún væri barnshafandi í annað sinn því að bæði heilsu hennar og lífi væri með því stefnt í beina hættu.

Eiginmaðurinn vann til klukkan ellefu á hverju kvöldi og alla laugardaga og keyrði þannig niður skuldir sem safnast höfðu saman frá fyrri árum. Og ekki nóg með það. Þessi fyrrverandi afbrotafangi annaðist verkstjórn í veikindaforföllum atvinnurekenda. Öll þessi störf fórust honum frábærlega úr hendi. Stjórn húsfélagsins í þeim stigagangi, sem þessi ungu hjón bjuggu í, gaf þeim meðmæli fyrir frábærlega góða umgengni og kynni á öllum sviðum.

Ég leitaði til dómsmrh. ásamt öðrum þm., bað um frest á afplánun og skýrði málavexti. Hæstv. dómsmrh. veitti tregur mánaðarfrest til að byrja með. Mánaðarfrest! Þegar þessi mánuður var útrunninn spurði ég hæstv. ráðh. að því, hvort hann gæti ekki veitt þriggja mánaða frest til viðbótar því þá mundi atvinnurekandinn verða aftur kominn til starfa og geta tekið við verkstjórn. Hæstv. dómsmrh. treysti sér ekki til þess vegna þess að einhver Þorsteinn, sem væri starfsmaður hjá honum, væri því andvígur, og mér skildist að allt dómskerfið færi úr skorðum ef orðið væri við þessari bón. Næsta dag var þessi ungi maður færður í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg. Hann kvaddi samstarfsmenn sína, sem hann hafði stjórnað af miklum myndarskap undanfarnar vikur, annast útborganir með sóma og fleira, því nú þyrfti hann að fara í tukthús. Í a. m. k. hálfan mánuð var hann geymdur í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg vegna þess að það var ekki pláss á Litla-Hrauni. En hann fékk pillur í Hegningarhúsinu til að bæta upp vinnutapið og sefa ótta um heilsu konu sinnar.

Eftir rösklega þriggja mánaða dvöl á Litla-Hrauni varð að leysa hann úr haldi eftir kröfu læknis vegna þess að hann var yfirkominn á taugum og heilsu. Yfir veturinn stundaði hann sjómennsku og um sumarið var hann í sæmilega tekjugóðri vinnu utanbæjar. En þessi Þorsteinn í ráðuneytinu vildi strax að vori taka hann og koma honum til „betrunar“. Það er reyndar dálítið erfitt að gera sér fulla grein fyrir því, hvor sé ráðherra hæstv. Friðjón Þórðarson eða þessi Þorsteinn. Dómsmrh. féllst á að bíða fram eftir sumri, enda fjárhagur fjölskyldunnar í algeru kaldakoli. Þrátt fyrir það lét þessi margumtalaði Þorsteinn í rn. handtaka unga manninn nokkrum sinnum yfir sumarið, jafnfram því sem hann lét hengja upp myndskreytta tilkynningu á veggi lögreglustöðvarinnar í Reykjavík þar sem þess var krafist, að maðurinn yrði handtekinn hvar sem í hann næðist.

Ég legði til svona utan dagskrár, að eitthvert hreppsfélag, sem ætti við slæmar fjárheimtur af fjalli að stríða, réði þennan mann til sín sem fjallkóng. Hann virðist ekki líta glaðan dag nema hann komi fanga á Litla-Hraun. Fangi á dag kemur skapinu í lag!

Það væri áreiðanlega þjóðhagslegu hagkvæmara, að þessi ágæti starfsmaður dómsmrn. væri fjallkóngur í einhverjum hreppi úti á landsbyggðinni.

Þegar leið á sumarið átti þessi ungi maður kost á plássi á einu aflasælasta loðnuskipi íslenska flotans. Tveir alþm. buðust til að koma með þennan mann á Skólavörðustíg 9 tveimur dögum eftir að loðnuvertíðinni lyki. 50 manns voru um þetta skipspláss, enda mjög eftirsótt. En hæstv. dómsmrh. kaus „betrun“ á Litla-Hrauni. Við þessir tveir alþm. héldum í fávisku okkar að ungi maðurinn væri betur geymdur við loðnuveiðar norður í Íshafi við verðmætasköpun, jafnframt því sem hann bjargaði fjölskyldu sinni frá endanlegu fjárhagslegu gjaldþroti.

En hvernig standa svo málin hjá þessum unga manni sem áður gekk refilstigu og villur vegar, hætti svo áfengisneyslu og afbrotum, stofnaði heimili og hafði fyrir tveim börnum að sjá ? Form dóma varð honum hindrun á framhaldi eðlilegs lífs. Fyrir röskri viku dvaldist hann á Litla-Hrauni í einangrun yfirbugaður maður. Framtíð hans og heilsa virtust í tvísýnu, eiginkonan undir læknishendi vegna taugaálags, íbúðin þeirra á uppboði og skuldadrottnar kröfðust gjaldþrots. Réttlætinu hafði verið fullnægt.

En þegar þessi till., sem hér er til umfjöllunar, hafði verið lögð fram skoraði aðalfundur Verndar á Alþingi að samþykkja hana og ástand þessara mála fór að koma til umræðu í þáttum í Ríkisútvarpinu. Ég hafði ítrekað bréf mín til fullnustumatsnefndar um að manni þessu yrði sleppt úr haldi vegna fjölskylduaðstæðna. Þá skyndilega var honum sleppt úr haldi s. l. föstudag, þótt þá væri nýbúið að tilkynna honum að hann yrði í haldi út janúarmánuð a. m. k. Ég gæti utan enda þulið upp slíkar sögur, af nægu er að taka, og því miður er það yfirleitt harmsögur.

Ég held að þótt píslargöngur í dómsmrn. séu margar, og ekki efa ég að beðið sé um náðun fyrir hvern þann sem dæmdur er, þá sé óhjákvæmilegt að breyta þeim vélrænu vinnubrögðum sem nú tíðkast þar. Hér verður að taka upp mannleg vinnubrögð gagnvart mönnum sem beðið hafa árum saman eftir dómi og búa við gerbreyttar og betri aðstæður með framkomu og hegðun. Fjallkóngssjónarmiðið verður að víkja. Þótt ráðuneytisstjóri dómsmrn. sé einn mesti heiðursmaðurinn í íslenskri embættismannastétt, og ég vil ekki orðinu á hann halla, verð ég að segja að þegar rætt er um ýmsa starfsmenn dómsmrn. og marga þá, sem við fangamál fást, dettur mér í hug hending úr vísu Bólu-Hjálmars: Af frjálsum manngæðum lítið eiga.

Satt að segja á ég ekki til orð þegar ég heyri tilsvör manna sem jafnvel gegna deildarstjórastörfum í þessu virðulega rn: Ég verð svo gersamlega forundrandi á þeim tilsvörum sem ættingjar fá, grátandi konur með börn á handlegg, að ég bókstaflega stirðna upp. En réttlætistilfinningin birtist í ýmsum myndum.

Það er ekki vanþörf á að Alþingi kjósi þá nefnd; sem till. gerir ráð fyrir, til að kynna sér þessi erfiðu og vandasömu mál og framkvæmd þeirra, gera tillögur til úrbóta. Hin dauða hönd núv. hæstv. dómsmrh. hef ég ekki trú á að muni mikið gera. Það þarf að endurskoða reglugerðir og alla starfshætti í fangelsum. Engin reglugerð er til um Hegningarhúsið í Reykjavík, aðeins einhverjar húsreglur frá því um aldamót. Reglugerð um Litla-Hraun er löngu orðin úrelt. Stjórn Litla-Hrauns tekur lítið þátt í rekstri þessa betrunarhúss og hefur í gegnum árin oft og tíðum vitað sáralítið um það sem þar fer fram. Hins vil ég þó geta, að núverandi forstöðumaður virðist mér af umsögnum leggja sig fram í sínu starfi að reynast þessum ógæfumönnum vel.

Það er óhjákvæmilegt að hleypa þarna inn fersku lofti. Fyrrum dómsmrh. hafa flestir eitthvað gert til bóta, og sumir allverulega, en afrekaskrá núv. hæstv. dómsmrh. er fljótlesið plagg. Það væri mjög til bóta ef þeim refsiföngum, sem hafa orðið áfengissýkinni að bráð, væri gefinn kostur á meðferð fyrir áfengis- og lyfjasjúklinga á viðurkenndum meðferðarstofnunum á borð við SÁÁ. Staðreyndin er sú, að þeir áfengissjúklingar, sem gera sér grein fyrir og ná tökum á sjúkdómi sínum, geta lifað fullkomlega eðlilegu lifi án áfengis, en til þess þurfa þeir að fá tækifæri. Slíkt tækifæri má gefa þeim með því að yfirvöld bjóði þeim meðferð af því tagi sem áður er getið fyrir áfengis- og eiturlyfjasjúklinga, bjóði hjálp til að halda sjúkdómnum í skefjum og síðan verði gefinn kostur á eins til tveggja ára reynslutíma sem leiði til niðurfellingar allrar afplánunar ef vel tekst.

Ég vil geta þess í þessu sambandi, að það er mjög til athugunar að leggja hér fram á hæstv. Alþingi — það verður þá skoðað nánar hvort sú nefnd, sem væntanlega verður kosin, muni ekki fjalla um það — sérstakt frv. um breytingar á hegningarlögum og ýmsum lagaþáttum þessara mála. Það er nauðsynlegt að gera öflugar ráðstafanir til að gefa þeim ungu mönnum, sem í fangelsum lenda, betri aðstöðu til menntunar og reyna á einhvern hátt að halda þannig á málum að fangelsi verði til betrunar, en ekki það mannskemmandi spillingardíki sem nú er, sem brýtur niður unga menn sem þangað koma, þannig að það verður að halda þeim gangandi á vanabindandi lyfjum. Er engar ráðstafanir hægt að gera til að auka menntun þessara ungu manna? Af könnunum er ljóst að verulegur fjöldi þeirra hefur ekki lokið skyldunámi. Öll reynsla úr nágrannalöndum sýnir að fangavist og nám falla illa saman. Þó má vel vera að í einhverju tilfelli geti það verið. Öllu, sem gert hefur verið í þessum málum, hafa Félagasamtökin Vernd beitt sér fyrir, bæði komið á stofn heimilum fyrir fanga, sem lokið hafa afplánun, og reynt að gera eitthvað í menntunarmálum þeirra. Það er hart að vita til þess, að skólastjórar skuli þurfa að beita hörku til að fangar fái að taka í skólum hjá þeim próf sem þeir hafa reynt að búa sig undir. Ég fullyrði að margir þessara fanga eru fúsir og hæfir til menntunar ef tækifæri og aðstaða gæfust.

Við skulum muna að það er fátt dýrara þjóðfélaginu en að ala upp unga menn í fangelsum. Það þarf að athuga með fangaverðina. Þar eru fjöldamargir góðir og gegnir menn, sem ekki mega vamm sitt vita og starfa við erfiðar aðstæður, eins og kom fram í grg. 2. þm. Austurl. Að þessu þarf að hyggja. Ég fullyrði að í þessum störfum eru því miður líka menn sem aldrei ættu að koma nærri föngum. Ég vil minna á reynsluna af fangelsisrefsingunni, og ég vil minna á þau ummæli forstöðumannsins á Litla-Hrauni, að hann veit ekki um nokkurn mann sem orðið hafi betri maður í fangelsisvist.

Ég skal fyrstur manna viðurkenna að þessi mál eru ákaflega vandmeðfarin og vandasöm og vonbrigði eru oft fylginautur þeirra. Eitt brýnt atriði, sem reyndar er tengt dómskerfinu öllu, er að menn þurfi ekki að bíða mörg ár eftir að dómur sé kveðinn upp í málum þeirra. Ég minntist á í upphafi að þar gæti ég talið upp dæmi sem erfitt væri að þylja hér á virðulegu Alþingi. Ég skal líka viðurkenna að ýmsum óhæfuverkum og jafnvel níðingsverkum verður erfitt að láta órefsað. En ég vil leggja áherslu á að ég held að það sé hægt að fækka í fangelsum. Ég held að það eigi ekki að dæma þessa ungu menn, sem lent hafa á refilstigum, eins títt í fangelsi og gert hefur verið. Það er skoðun mín að breyta þurfi lögum þannig að þegar ungt fólk á í hlut verði dómurum gert skylt að afla sér staðgóðra upplýsinga um persónulegar og uppeldislegar aðstæður þeirra, sem í hlut eiga, og auka skilorðsbundna dóma frá því sem nú tíðkast. Einnig þyrfti að efla skilorðseftirlit ríkisins og gera því fært að auka eftirlit og aðstoð við þetta ólánssama fólk. Það væri líka athugandi að fela viðurkenndum mönnum umsjónaraðild með viðkomandi ungmenni í ákveðinn tíma, og fleiri leiðir mætti athuga. Færibandadómar, sem senda ungt fólk til Litla-Hraunsdvalar, eru ekki til velfarnaðar. Að snúa lykli í skrá og gefa manni pillu er oft það auðveldasta, en sjaldan það farsælasta. Skilorðseftirlit ríkisins vinnur að mínu mati gott starf, en um fullnustumatsnefnd dómsmrn. vil ég nota það líkingamál, að öxin og jörðin mundu geyma hana best.

Herra forseti. Ég skal fara að ljúka máli mínu, en á þó margt ósagt. Ég skal viðurkenna að fíkniefnaflóðið, sem hrjáir nágrannalönd okkar og er að steypast yfir okkur, skapar gífurlegan vanda. En ég er sannfærður um að nefnd, þar sem allir stjórnmálaflokkar ættu fulltrúa, þar sem Félagasamtökin Vernd ættu einnig fulltrúa og dómsmrn. formanninn, mundi án efa skila mörgum athyglisverðum tillögum. Fangelsismál hjá okkur eru í svo slæmu ástandi að Alþingi getur ekki lengur horft þar aðgerðalaust á. Ég hef þá trú, að vegna margs konar sérstöðu þjóðfélags okkar höfum við Íslendingar möguleika á að leggja að mestu niður fangelsi, en til þess þarf mikið átak, frjóa hugsun og ný jákvæð úrræði þar sem hagnýtt er það besta frá öðrum löndum, en forðast það sem versta raun hefur gefið erlendis. Þrátt fyrir allt skapar fámennið okkur þennan möguleika. Ég skal viðurkenna að þetta ástand á sér dýpri rætur en að það sé hægt að saka um núv. hæstv. dómsmrh., en ég hef enga trú á að núv. hæstv. dómsmrh. veiti þar nokkra leiðsögn. Ég saka hann um úrræðaleysi og ég saka hann um sljóa og dauða embættismennsku sem gengur vanans veg og er þræll bókstafsins og kerfisins. En ég hef þá trú, að meiri hluti hv. alþm. vilji leggja hönd á plóginn til nýrra úrræða, nýrra vinnubragða sem hefjist á nefndarstarfi sem alþm. kjósa sjálfir í.

Herra forseti. Ég hef lokið máli mínu.