19.10.1981
Neðri deild: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 96 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

15. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er ofurlítið óvenjulegt að lagt sé til að frv., sem snertir skattalög, skuli vísað til nefndar sem hefur ekki um slík mál fjallað. Skattalög eru mjög flókin mál og þeir menn, sem sæti eiga í fjh.- og viðskn., hafa mikla reynslu á því sviði eftir margvíslega löggjöf á undanförnum árum. Ég vil því eindregið leggja til að þeir fái þetta mál til meðferðar. Þetta frv. snertir ýmis grundvallaratriði varðandi upplýsingaöflun og annað í skattamálum. Ég held að þm. verði að reyna að miða sína tillögugerð við það að málin fái sem besta skoðun í þinginu.