26.11.1981
Sameinað þing: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1091 í B-deild Alþingistíðinda. (863)

50. mál, tjón á Vesturlínu

Iðnrh. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Vegna þeirrar fsp., sem hv. 4. þm. Vestf. ber hér fram, hef ég leitað álits þess fyrirtækis sem staðið hefur fyrir framkvæmdum fyrir ríkisins hönd á byggðalínum, þ. e. til Rafmagnsveitna ríkisins. Það svar, sem ég veiti hér, er byggt að upplýsingum og mati þeirra. Rafmagnsveiturnar hafa einnig staðið fyrir rekstri byggðalínanna og þar með Vesturlinu, eftir að hún var tekin í notkun.

1. liður fsp. er svohljóðandi: Hvaða skemmdir urðu á Vesturtínu í óveðri sem gekk yfir í septembermánuði s. l.?

Svar: Skemmdir, sem orðið hafa á Vesturlínu, eru þær, að staurastæður hafa skekkst. Þetta gerðist í óveðri í septembermánuði. Orsakanna er eingöngu að leita í grundun staurastæðanna — og ég skil þetta orð: grundun, sem undirstöður staurastæðanna. Mismunandi mikill halli reyndist vera á um 100 staurum af samtals 1228. Þar af var talið nauðsynlegt að rétta um 40 stæður fyrir veturinn.

2. liður fsp. er svohljóðandi: Hverjar eru orsakir tjónsins? Var um að ræða galla á hönnun línunnar, léleg vinnubrögð við línulagninguna, að línan væri ekki byggð til að standast slík veður sem hér bar að?

Svar: Hönnun línunnar má skipta í tvo hluta: 1. Bein styrkleikahönnun á staurastæðum með öllum búnaði og leiðara. Styrkleikahönnun er tölvuunnin og hefur ekkert komið fram sem bendir til mistaka þar, enda beint framhald af vali hönnunarálags. Er þá miðað við hönnunarforsendur raflínunefndar. 2. Útfærsluatriði ýmiss konar, svo sem gerð festinga á þverslám, festingar einangrunarkeðja, festing vírs, gerð titringsdeyfara o. s. frv. Útfærslan við Vesturlínu er eins og áður hefur tíðkast á byggðalínum og öðrum stærri línum sem byggðar hafa verið af Rafmagnsveitunum.

Varðandi b-lið: Það er ekki óþekkt fyrirbæri, þegar um tréstauralínur er að ræða, að einstakir staurar eða staurastæður, eins og í þessu tilviki, hallist þar sem jarðvegur er slæmur. Gerist þetta einkum á fyrsta ári eftir byggingu og er hvað mest á staurum eða staurastæðum sem reistar eru þegar jörð er frosin. Óvenjumikið hefur borið á þessu í Vesturlínu, einnig á stöðum þar sem ofangreindum atriðum er ekki til að dreifa. Hjá Rafmagnsveitunum fer nú fram könnun á því, hvort og þá að hve miklu leyti megi rekja gallana til lélegra vinnubragða, og þá einnig hvernig koma eigi í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

3. liður fsp. hljóðaði svo: Hvenær má búast við að endanlegri viðgerð línunnar ljúki?

Svar: Lokið var við viðgerð á línunni 25. oki. s. l., þ. e. á þeim hluta sem talið var nauðsynlegt að gera við í haust. Næsta sumar er áætlað að ljúka þessum viðgerðum og verður það verk unnið jafnhliða annarri viðhaldsvinnu á línunni.

4. liður fsp. var: Hverjum er ætlað að greiða óumflýjanlegan kostnað af raforkuframleiðslu á Vestfjörðum með dísilvélum á þeim tíma sem viðgerð línunnar fer fram?

Svar Rafmagnsveitnanna er á þá leið, að raforkuseljandi, þ. e. í þessum tilfelli Rafmagnsveitur ríkisins, greiði ekki þennan kostnað. En þess má geta, að í reglugerð fyrir Rafmagnsveitur ríkisins frá 6. apríl 1968, 20. gr., segir: „Notendur, sem greiða raforku við föstu árgjaldi, eiga rétt á að fá 1/300 hluta árgjaldsins endurgreiddan fyrir hvern heilan sólarhring er þeir missa raforkuna vegna stöðvunar eða truflana á rekstri, þó eigi fyrir skemmri tíma en tvo samfellda sólahringa.“

Við þetta svar Rafmagnsveitnanna er svo því að bæta, að þær lögðu fram með svari sínu skrá yfir það hönnunarálag sem línan er byggð fyrir. Er það mismunandi eftir svæðum. Tillögur um hönnunarforsendur þessar eru samdar af svonefndri háspennulínunefnd sem einnig hefur gert tillögur um hönnunarálag á öðrum hlutum stofnlínukerfisins, allt frá Brennimel í Hvalfirði norður til Akureyrar, austur á Hryggstekk, suður að Höfn í Hornafirði og nú síðast varðandi Suðurlínu milli Hafnar í Hornafirði og Sigöldu. Eru allar þessar línur byggðar eftir tillögum nefndarinnar, en í henni eiga sæti fulltrúar Orkustofnunar, Rafmagnsveitnanna, Landsvirkjunar og Veðurstofu Íslands. Ekkert hefur komið fram sem bendir til að hönnunarálag sé of lágt, en eins og áður segir fer nú fram könnun hjá Rafmagnsveitunum á því, hvort og þá að hve miklu leyti megi rekja gallana til lélegra vinnubragða, og þá einnig hvernig koma eigi í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.

Ég vil svo að lokum bæta því við, að áætlað tjón Orkubús Vestfjarða vegna þessa liggur ekki fyrir í neinum endanlegum útreikningum til rn., þó ég hafi heyrt ágiskunartölur þar að lútandi, og engar ákvarðanir hafa verið teknar í sambandi við bætur vegna þess meinta tjóns sem Orkubúið hefur orðið fyrir — og raunar ljóslega orðið fyrir vegna olíukeyrslu sem grípa þurfti til meðan á þessari bilun stóð. Ýmis atriði, sem varða fjárhagsstöðu Orkubús Vestfjarða, hafa verið til athugunar á vegum iðnrn. og við munum að sjálfsögðu líta á þetta mál, eftir því sem erindi berast, og meta það eftir aðstæðum.