26.11.1981
Sameinað þing: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1095 í B-deild Alþingistíðinda. (868)

50. mál, tjón á Vesturlínu

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Aðeins örfá orð út af þessu máli. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Þorvaldur Garðar var hér að ljúka máli sínu á, að það er auðvitað númer eitt að upplýsa málið. Hér hafa greinilega átt sér stað einhver mistök og það verður að upplýsa hvers vegna þessi mistök hafa átt sér stað og hver er ábyrgur fyrir þeim. Og þá er spurning, hvort það er eðlilegt að sá aðili sem sá um framkvæmdina, sé líka látinn kanna orsakir þess sem gerst hefur.

Ég fyrir mitt leyti er afskaplega óánægður með þær upplýsingar sem hæstv. ráðh. gaf, ekki vegna þess að ég sé að ásaka hann beint, hann fer sjálfsagt hér með upplýsingar sem þeir aðilar, sem um málið hafa fjallað, hafa látið honum í hendur.

Mér sýnist að þetta mál sé þríþætt. Það er í fyrsta lagi að fá upplýst, hvers vegna skemmdirnar áttu sér stað eða tjónið. Mér skildist á svari hæstv. ráðh. að ekki væri talið að nein mistök hefðu átt sér stað í hönnun, það væri a. m. k. ekki ljóst enn sem komið væri. Og þá er spurningin þessi: Eru það mistök hjá þeim aðila sem annaðist uppsetningu þessara staura? Það er við það sem sumir hafa staðnæmst, að það sé e. t. v. orsökin fyrir því sem gerst hefur. Það er nauðsynlegt að fá úr því skorið. Það þarf sem sagt að fá úr því skorið, hver ber ábyrgðina á að þetta átti sér stað, hver á að greiða kostnað við að lagfæra þetta, reisa við staura og annað slíkt, og hver á að borga þann kostnað sem óneitanlega hefur komið á Orkubú Vestfjarða vegna þessara skemmda. Ég held að það sé augljóst. En mér þætti vænt um ef ég gæti fengið fram sjónarmið hæstv. ráðh. um það. Er ekki augljóst að Orkubú Vestfjarðar á ekki að bera þann kostnað sem það hefur orðið fyrir vegna þessa tjóns? Ég kem a. m. k. ekki auga á að það sé með neinum eðlilegum hætti hægt að klína á Orkubúið þeim aukakostnaði sem hér verður um að ræða. Lítill hluti af því er kominn fram enn. Kannske á miklu stærri hluti af því eftir að koma fram síðár. Ég held að það sé augljóst, að það verður að fría Orkubúið frá því að bera slíkan kostnað sem allflestum sýnist að sé vegna mistaka, annaðhvort í hönnun eða framkvæmd á uppsetningu línunnar.