26.11.1981
Sameinað þing: 26. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1100 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

105. mál, virkjun Blöndu

Fyrirspyrjandi (Finnur Torfi Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. þessi svör þótt þau séu öll mun óljósari en ég hefði helst kosið. Ég átti satt að segja von á að ráðh. mundi nú taka af skarið og skýra þingheimi og þjóðinni frá því, hver stefnan yrði, en í staðinn fengum við það svar, að við yrðum enn að bíða. Við það verða menn að sjálfsögðu að sætta sig um hríð. En mér þótti það enn verra, að mér fannst hæstv. ráðh. ekki einu sinni geta tjáð sig um hagkvæmni Blöndu sem virkjunar. Mér fannst hann yfirleitt ekki treysta sér til að lýsa neinum skoðunum á því, hvað vænlegast væri að gera í þessum málum. Og allra verst þótti mér þó að heyra það, að hæstv. ráðh. talaði eins og menn gætu gert sér vonir um einhverja atburði í samningamálum án þess að ríkisstjórnarákvörðun kæmi fyrst. Það held ég nefnilega að sé hinn stóri misskilningur. Það gerist ekkert frekar í samningamálum þar nyrðra án þess að ríkisstj. ákveði sig. Það getur enginn með sanngirni ætlast til að landeigendur fyrir norðan geti fyrir fram farið að gefa samþykki við virkjun án þess að þeir hafi hugmynd um hvort ríkisstj. ætlar að virkja eða hvenær hún kann að virkja. Slíkt mun ekki ganga og getur enginn ætlast til þess með sanngirni. Mér fannst því þessi svör heldur óljósari og loðnari en ég hafði vonast til. En mér þætti ákaflega vænt um ef hæstv. iðnrh. gæti skýrt það nánar fyrir Alþingi, hvort hann eigi von á að eitthvað geti gerst varðandi samninga við heimamenn án þess að ríkisstj. ákveði sig?