26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1101 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

11. mál, stóriðnaður á Norðurlandi

Flm. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. þm. Halldóri Blöndal að flytja á þskj., 11 till. til þál. um staðarval stóriðnaðar á Norðurlandi. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna sérstaklega nauðsyn eflingar atvinnulífs á Norðurlandi eystra og kosti þess að velja þar stóriðnaði stað, t. d. í grennd Akureyrar eða Húsavíkur.“

Á síðasta þingi var sams konar till. lögð fram en varð ekki útrædd.

Eins og hv. þm. er kunnugt er hér um að ræða mál sem á sér nokkuð langan aðdraganda og hefur hlotið verulega umræðu í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Á Alþingi, 94. löggjafarþingi, sem sat 1973–74, fluttum við hv. þm. Halldór Blöndal tillögu svipaðs efnis og þessa. Þeirri till. var vísað til ríkisstj. með svofelldri umsögn í nál. við það atriði till. að kanna hagkvæmni þess vegna jákvæðrar þróunar byggðar og aukins öryggis í orkuöflun allra landsmanna að velja stóriðjufyrirtæki stað á Norðurlandi. Orðrétt segir í nál., með leyfi hæstv. forseta:

„Um hið fyrra atriði er það að segja, að viðræðunefndin um orkufrekan iðnað hefur haft það til könnunar og mun halda henni áfram. Þegar til aukins rafmagns kemur þar nyrðra verður þetta mál vafalaust í brennipunkti.“

Þetta hafði allshn. Sþ. um hliðstætt mál að segja á árinu 1974. Eins og kunnugt er hafa forráðmenn Norðlendinga flestir lagt á það ríka áherslu, að næsta stórvirkjun landsins verði í Blöndu. Allar athuganir, sem fram hafa farið á virkjunarkostum utan eldvirkra svæða hér á landi — og raunar á eldvirkum svæðum einnig, benda til þess, að Blönduvirkjun sé langhagkvæmasta stórvirkjun sem við eigum völ á. Ályktanir sem gerðar hafa verið um Blönduvirkjun, eru mýmargar, en ég leyfi mér að lesa ályktun sem gerð var á s. l. hausti á fjölmennu fjórðungsþingi Norðlendinga á Húsavík um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjórðungsþing Norðlendinga, haldið á Húsavík 3.–5. sept. 1981, leggur á það ríka áherslu, að ákveðið verði á þessu ári að næsta virkjun verði Blönduvirkjun samkv. virkjunarleið I, þar sem þegar er ljóst af samanburði virkjunarkosta að sú virkjun er þjóðhagslega hagkvæmust. Fjórðungsþingið leggur áherslu á, að farsæl lausn náist í samningum við landeigendur, og felur fjórðungsstjórn að fylgja þessu máli eftir við ríkisstj. og Alþingi.“

Ég vil vekja sérstaka athygli á þessari samþykkt Fjórðungssambands Norðlendinga og skora á alla aðila, sem hlut eiga að máli, að stuðla að því að Blönduvirkjun verði svo fljótt sem verða má valin næsta stórvirkjun landsins. Eins og kunnugt er komu hér fram nokkuð loðin svör frá hæstv. ráðh. í fsp.-tíma áðan um þetta mál. Ég skora á hann og hæstv. ríkisstj. að taka sem fyrst afstöðu til þessa máls. Enda þótt svo verði ekki — þótt ég sé ekki að gera því skóna að Blönduvirkjun verði ekki valin næsti virkjunarkostur og önnur virkjunarröð verði valin, t. d. Austurlandsvirkjun fyrst, eftir lagfæringar og umbætur á Þjórsársvæðinu til aukinnar orkuvinnslu — er samt sem áður ljóst að stórfyrirtæki í iðnaði, sem nota mikla orku, bæði við Eyjafjörð og við Húsavík, munu geta fengið næga raforku á hagkvæmu verði, þar sem augljóst er að raforkukerfi landsins yrði tengt saman á þann hátt að Eyjafjarðarsvæðið og Húsavík fengju raforku úr landskerfinu sem nægði og væri á hagkvæmu verði fyrir orkufreka notendur. Það er því alveg ljóst, að hvernig sem heimildir um að reisa nýjar stórvirkjanir í landinu verða notaðar yrði hagkvæmt vegna orkunýtingar og byggðaþróunar að velja stórfyrirtækjum, sem nota mikla orku, stað á fyrrgreindu svæði við Eyjafjörð og í grennd við Húsavík.

Afar þýðingarmikil rök fyrir því að velja stórfyrirtækjum stað nálægt öflugu þéttbýli felast í þeirri augljósu staðreynd, að einmitt þar hefur ný atvinnustarfsemi mest áhrif til að efla aðrar iðn- og þjónustugreinar. Slíkt staðarval hefur því víðtækustu áhrif á byggðaþróun í landinu sem völ er á með einni slíkri ákvörðun. Akureyri er sem kunnugt er stærsti þéttbýlisstaður utan höfuðborgarsvæðisins og þar er fyrir öflugastur iðnaður og þjónustugreinar á landsbyggðinni. Ætla má að fyrirtæki, sem veitti 400 manns atvinnu, muni örva aðra atvinnustarfsemi í Eyjafirði svo að um 600 ný atvinnutækifæri hlytust af staðarvali slíks stóriðjufyrirtækis til viðbótar. Þannig yrði fjöldi nýrra atvinnutækifæra 1000 og íbúafjölgun a. m. k. 3000 vegna staðarvalsins. Á hinn bóginn yrði íbúafjölgun minni og færri ný atvinnutækifæri sem hlytust af staðarvali slíks fyrirtækis í þúsund manna héraði, svo að dæmi sé tekið, en félagslegar aðstæður allar gerbreytast þar sem hefðbundnar atvinnugreinar væru væntanlega einar fyrir í slíku byggðarlagi.

Um framangreindar niðurstöður um þau áhrif, sem staðarval stórfyrirtækja hefur á atvinnu- og byggðaþróun, liggja fyrir reynsluathuganir, m. a. í Noregi. Það verður ekki nógsamlega undirstrikað og á það legg ég mjög ríka áherslu, að ef ná á verulegum árangri í að hafa áhrif á byggðaþróun í landinu með staðarvali stórfyrirtækja er grundvallaratriði að þess sé gætt að velja stórfyrirtæki stað í hagkvæmum héruðum þannig að sem mest áhrif verði af staðarvalinu og byggðaþróun í heild verði sem hagstæðust.

Á undanförnum árum hefur nokkurs samdráttar gætt í atvinnulífi á Norðurlandi eystra. Á s. l. vetri var ástandið greinilega verst á Norðausturlandi ef marka má opinberar tölur um atvinnuleysisskráningu. Ef frá eru taldir þeir sjávarútvegsstaðir sem skorti hráefni varð atvinnuleysi mest í stærstu kaupstöðunum. T. d. voru 120 manns á atvinnuleysisskrá á Akureyri í jan. s. l. Þessi samdráttur á vafalítið rætur að rekja til öfugsnúinnar efnahagsstefnu ríkisstj., t. d. í vaxtamálum, gengis- og verðlagsmálum auk húsnæðismála. Sú stefna hefur komið þungt niður á undirstöðuatvinnuvegunum, sérstaklega iðnaði, og þar með á þeim stöðum þar sem iðnaður er snar þáttur í atvinnulífinu, en fáir staðir á Íslandi munu þar komast í hálfkvisti við Akureyri. En þessi vandi er vonandi tímabundinn og bregður vonandi til betri tíðar að því er varðar stefnu stjórnvalda í atvinnumálum. Hitt er alvarlegra, að ástæða er til að ætla að til viðbótar sé við verulegan frambúðarvanda að fást í eflingu atvinnulífsins á Norðurlandi, einkum á Akureyri og Húsavík, þar sem vaxtarbroddurinn er í iðnaði og þjónustugreinum.

Á Akureyri unnu um 60% vinnuaflsins hjá 11 stærstu fyrirtækjum bæjarins árið 1970, en nú vinna um 70% vinnuaflsins hjá einvörðungu sjö fyrirtækjum, þ. á m. sjúkrahúsinu og Akureyrarbæ. Þessi stóru fyrirtæki, Útgerðarfélag Akureyringa, verksmiðjur SÍS, Slippstöðin, niðursuðuverksmiðja K. Jónssonar & Co., svo að nokkur séu nefnd, eiga öll í erfiðleikum vegna atvinnustefnu ríkisstj. Á hitt er að líta, sem alvarlegra er þegar til framtíðar er horft, að öll fyrrnefnd fyrirtæki virðast ekki líkleg til að vaxa verulega umfram núverandi stærð og umsvif, jafnvel þótt úr rætist með atvinnustefnu stjórnvalda. Þess er m. ö. o. ekki að vænta, að h já þeim verði til nauðsynleg ný atvinnutækifæri á næstu árum, ef ungt fólk, sem kemur á vinnumarkaðinn á Norðurlandi, á að geta fest rætur og heimili á Akureyri eða Húsavík.

Svipuðu máli og ég hef farið hér orðum um á Akureyri gegnir um Húsavík. Þar virðist fiskiðnaðurinn bæta við sig óverulegu vinnuafli á næstunni og aðrar iðngreinar flestar bundnar þjónustu við heimamarkað. Nýr vaxtarbroddur er því nauðsynlegur þar til eflingar atvinnulífsins ekki síður en á Akureyri. Hafa bæjaryfirvöld þar sýnt á þessu sérstakan skilning með athugunum á að koma á fót nýjum iðngreinum á Húsavík, m. a. pappírsverksmiðju svo sem kunnugt er og stjórnvöld hafa stutt með fjárveitingum og sérfræðiþjónustu við frumathugun og undirbúningsvinnu.

Ég sagði áðan, að hugmyndin um staðarval stóriðjufyrirtækja á Norðurlandi, við Eyjafjörð og í grennd við Húsavík, væri ekki ný af nálinni, og nefndi í því sambandi tillöguflutning okkar Halldórs Blöndals á Alþingi. Raunar má segja að mörgum árum fyrr hafi verið hugað að þessu máli. Í ráðherratíð Jóhanns Hafsteins sem iðnrh. skipaði hann nefnd til þess að kanna aðstæður við Eyjafjörð til að koma á fót álverksmiðju. Þá þegar hófust umræður um staðarval stóriðnaðar á Norðurlandi og hafa þær með litlum hléum staðið óslitið síðan. Þar hafa mörg orð og misjöfn fallið, m. a. um umhverfismál og áhrif slíkra fyrirtækja á umhverfið. Í því sambandi vil ég taka fram að við flm. þessarar till. teljum umhverfismálin einn þann þáttinn sem kanna þarf rækilega þegar hugað er að staðarvali stóriðnaðar t. d. við Eyjafjörð. En það merkir ekki að við teljum að sá þáttur eigi að útiloka slíka athugun frá upphafi.

Á síðustu árum hafa æ fleiri gert sér grein fyrir þeim höfuðatriðum sem ég hef bent á hér varðandi framtíðarþróun atvinnulífs á Eyjafjarðarsvæðinu og í Suður-Þingeyjarsýslu, við Húsavík, þar sem vaxtarbroddarnir felast fyrst og fremst í iðnaði og þjónustugreinum, eins og ég sagði áðan. Því miður er ekki unnt að treysta því, að þau fyrirtæki, sem fyrir eru, verði áfram burðarás atvinnulífsins og að í þessum byggðarlögum verði nægilegt atvinnuöryggi og vaxandi atvinnulíf, jafnvel þótt hlúð verði að smærri iðnaði eftir því sem kostur er í þessum byggðarlögum. Forráðamenn Norðlendinga hafa undanfarið rætt mjög ítarlega þann vanda sem við blasir. Hann hefur verið ræddur í verkalýðsfélögum, sveitarfélögum, sýslunefndum og á fjórðungsþingi Norðlendinga. Vil ég, með leyfi hæstv. forseta, vitna í nokkrar ályktanir þessara aðila.

Fundur í Trésmiðafélagi Akureyrar 24. sept. s. l. lýsti áhyggjum sínum yfir miklum samdrætti sem orðið hefur í byggingu húsnæðis á Akureyri undanfarna mánuði og ár. Þar er t. d. áformað að byggja einungis 58 íbúðir á þessu ári í samanburði við 190 íbúðir á ári síðustu 10 ár að meðaltali. En orðrétt segir í lokaorðum ályktunar Trésmiðafélags Akureyrar, með leyfi hæstv. forseta:

„Einnig hvetur fundurinn alla Norðlendinga til samstöðu um Blönduvirkjun og beinir þeirri áskorun til bæjarstjórnar Akureyrar, að hún beiti áhrifum sínum til að kný ja á um Blönduvirkjun. Það er skoðun trésmiða á Akureyri, að slík virkjun stuðli mjög að fjölgun atvinnutækifæra í byggingariðnaði og iðnaði á Norðurlandi, einnig í hinum ýmsu þjónustugreinum. Fundurinn bendir á að orkufrekur iðanaður er nauðsyn til fjölgunar atvinnutækifæra og uppbyggingar fjölbreytts iðnaðar sem víðast.“

Í sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu var í apríl s. l. gerð ályktun um atvinnumál. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Sýslufundur Eyjafjarðarsýslu, haldinn 28.–29. apríl, lýsir áhyggjum yfir versnandi horfum í atvinnumálum héraðsins og bendir á að ein af meginstoðum blómlegs búskapar í Eyjafirði sé öflugt atvinnulíf í þéttbýli við fjörðinn. Sýslunefnd telur, að ekki megi dragast að gera átak í atvinnumálum héraðsins, og felur oddvita sínum að vera vel á verði um öll þau mál. Auk þess sem efla þarf þær atvinnugreinar sem fyrir eru, þá telur sýslunefnd nauðsynlegt, að komið verði upp nýjum atvinnutækifærum hið fyrsta, og bendir m. a. á orkufrekan iðnað í því sambandi.“

Fjórðungsþing Norðlendinga fjallaði ítarlega um atvinnumál á Norðurlandi í sept. s. l. Í ályktun þingsins um staðarval stærri iðnaðar segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjórðungsþing Norðlendinga, haldið á Húsavík 3.–5. sept. 1981, leggur á það áherslu, að mjög sé vandað til athugana á staðarvali iðnrekstrar. Að gefnu tilefni telur þingið tímabært að iðnrn. og staðarvalsnefnd geri sveitarstjórnum kleift að fylgjast með ákvörðunum um staðarval iðnfyrirtækja með það í huga, að á Norðurlandi rísi orkufrekur iðnaður sem hæfi staðarkostum og félagslegum aðstæðum. Í þessu sambandi bendir þingið á pappírsverksmiðju á Húsavík og álverksmiðju við Eyjafjörð ásamt álsteypu á seinna stigi. Þingið felur iðnþróunar- og orkumálanefnd ásamt fjórðungsráði að fylgjast með þessum málum sérstaklega.“

Þær ályktanir, sem ég hef tilfært, eru dæmi um þá umræðu, sem fram fer um atvinnumál á Norðurlandi, og sýna svo að ekki verður um villst að það er vilji, yfirgnæfandi vilji, vil ég segja, forustumanna Norðlendinga að sú tillaga, sem hér er flutt, nái fram að ganga og bráður bugur verði undinn að því að koma henni í framkvæmd og allar hliðar þessara mála verði kannaðar.

Herra forseti. Það er höfuðnauðsyn fyrir Íslendinga sem þjóð að hefja nýja sókn í alhliða uppbyggingu íslensks atvinnulífs á næstu árum til þess að Íslendingar geti búið þegnum sínum þau kjör, sem þeim bjóðast annars staðar, og þjóðarframleiðsla fari vaxandi og lífskjör batni í landinu. Í ályktun, sem Verkamannasamband Íslands samþykkti á síðasta þingi sínu fyrir nokkrum vikum, er talað um slíka sókn. Þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Verkamannasamband Íslands telur að slík sókn verði að hafa það að fyrsta markmiði, að atvinnuvegirnir verði samkeppnisfærir við atvinnuvegi grannþjóðanna um vinnuafl Íslendinga. Helsta forsenda nýrrar lífskjarasóknar er að markvisst verði stefnt að nýsköpun atvinnulífs sem í ríkum mæli hlýtur að byggjast á virkjun óbeislaðrar orku fallvatna og jarðvarma til eflingar orkufreks iðnaðar.“

Herra forseti. Það er nauðsynlegur þáttur í því, að Norðlendingar geti verið með í slíkri sókn í atvinnumálum og að þar eflist byggð, að sú till., sem hér er til umr., verði samþykkt og henni verði komið í framkvæmd sem fyrst.

Ég legg svo til, herra forseti, að umr. um þetta mál verði frestað að þeim loknum, sem hér fara fram nú og till. vísað til atvmn.