26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1108 í B-deild Alþingistíðinda. (884)

11. mál, stóriðnaður á Norðurlandi

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Af eðlilegum ástæðum hef ég áhuga á að ræða þessa till. nokkuð.

Ég vil þá fyrst segja það, að ég vil að verulegu leyti lýsa stuðningi mínum við hana og þó um leið gera nokkurn fyrirvara.

Ég er þeirrar skoðunar, að það þurfi að fara nokkuð varlega þegar kemur að hugmynd um stóriðju. Ég hef smátt og smátt verið að komast á þá skoðun, að stóriðja sem slík sé ekki hið eiginlega lausnarorð þegar við erum að tala um að nýta raforku þjóðarinnar til atvinnubætandi starfa og fyrirtækja.

Ég vil fyrst geta þess, að þessi till. er mjög tímabær einfaldlega af þeirri ástæðu, að atvinnulíf á Norðurlandi er afskaplega einhæft og ástandið í atvinnulífi — sérstaklega í Norðurlandskjördæmi eystra — er nú með þeim hætti, að þar steðjar að vandi í nær öllum byggðarlögum. Ástæðurnar fyrir því eru fyrst og fremst einhæfni atvinnulífsins, og þá á ég einkum við sjávarplássin sem byggja alla sína afkomu á sjávarafla. Það þarf ekki fyrir þm. þess kjördæmis að rekja hvernig ástandið er, allt frá Þórshöfn og til Ólafsfjarðar, þar sem ýmist er um að ræða atvinnuleysi á nokkrum stöðum, sums staðar tímabundið, annars staðar illar horfur vegna mikils fjármagnskostnaðar fyrirtækja og verkefnaskorts.

Það fer heldur ekki hjá því, að þessi till. til þál., sem þeir hv. þm. Lárus Jónsson og Halldór Blöndal hafa flutt um staðarval stóriðnaðar á Norðurlandi, tengist mjög öllum ákvörðunum um Blönduvirkjun. Ég hef litið svo á að Blönduvirkjun væri raunverulega forsenda þess, að hægt yrði að fara út í umtalsverða aukningu iðnaðar og atvinnurekstrar í þeim landsfjórðungi sem hér um ræðir. Samkv. niðurstöðum athugana, sem m. a. Framkvæmdastofnun hefur látið gera, munu engar atvinnugreinar geta tekið við vinnuafli á næstu árum í þessum landsfjórðung aðrar en iðnaðurinn. Fyrirsjáanlegt er að ekki verður mannaflaaukning í landbúnaði, það verður ekki mannaflaaukning í sjávarútvegi og það verður sáralítil mannaflaaukning, ef nokkur, í fiskvinnslu. Eina aukningin fyrir utan iðnað er aukning í byggingariðnaði ef við skiljum hann frá öðrum almennum iðnaði. Þess vegna hefur m. a. verið bent á það, að á næstu 10–15 árum þurfi að bæta við geysilega mörgum nýjum atvinnutækifærum í Norðurlandi til þess að mæta þeirri atvinnuþörf sem þar skapast vegna fjölgunar fólks sem á atvinnumarkað kemur.

Ég vil geta þess jafnframt, sem ég hóf þessa tölu með að segja að stóriðja sé kannske ekki beinlínis það sem nú er mest að mínu skapi, einfaldlega vegna þess að þegar við nýtum þá dýrmætu orku, sem í raforkunni felst, verðum við að reyna að gæta þess að nýta hana á þann veg að sem flest atvinnutækifæri fáist úr þessari orku, að við reynum að víkja frá þeirri stefnu, sem mjög algild hefur verið hér á Íslandi, að við framleiddum fyrst og fremst hráefni en ekki fullunna vöru. Þess vegna hef ég í og með talsverðan áhuga á því, að kannað verði í tengslum við þessa till. hvort ekki megi finna einhverjar iðngreinar sem gætu tekið við meira vinnuafli en stóriðjan sem slík og þannig komið meir til móts við þær kröfur sem nú eru gerðar um ný og betri atvinnutækifæri á Norðurlandi.

Í þessum efnum langar mig að reifa aðeins þá staðreynd sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir, að við leggjum óhemjufjármagn í menntun þegna okkar, — fjármagn sem að margra dómi hefur ekki nýst okkur nægilega vel, einfaldlega vegna þess að þessari menntun og því starfi, sem felst í skólakerfinu almennt, er ekki fylgt eftir með almennri vísindaiðkun og rannsóknarstarfsemi í landinu. M. a. af þessum sökum er nú svo komið að við höfum sáralítið gert til þess að þróa nýjar iðngreinar, eins og t. d. nágrannar okkar í Danmörku hafa gert á síðustu árum og áratugum og náð gífurlegum árangri í ýmsum smáiðnaði sem hefur fært danska ríkinu mjög umtalsverðar tekjur. Í þessum efnum erum við nánast á steinaldarstiginu. Ástæðan er sú, eins og ég gat um áðan, að hér hefur ekki verið mótuð nein vísinda- eða rannsóknarstefna í þágu atvinnuveganna, eingöngu verið eytt mjög verulegu fjármagni í menntun þegnanna, en eins og ég sagði áðan: þeirri menntun ekki verið fylgt eftir með almennri vísinda- og rannsóknarstarfsemi sem gæti komið atvinnuvegunum til góða. Einhver ágætur vísindamaður orðaði það svo, að það mætti líkja menntunarstarfsemi íslensku þjóðarinnar við fljót sem streymdi fram og endaði svo í fossi við sjávarströnd og kæmi að sáralitlum notum.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég styð eindregið þessa till. með þeim fyrirvara sem ég hafði á, að ég tel að við skyldum aðgæta betur hvort við gætum ekki látið einhvern annan orkufrekan iðnað koma í stað stóriðjunnar. Ég tel að stóriðjan hafi tvær mjög neikvæðar hliðar: Í fyrsta lagi að nýting vinnuafls verður hvergi nærri eins góð í stóriðju og í öðrum iðngreinum, það þarf færri starfsmenn til að nota miklu meiri orku en annars staðar er notuð, og í öðru lagi eru samfélagsleg áhrif stóriðju á umhverfi sitt. Það er auðvitað hárrétt, sem hæstv. iðnrh. sagði áðan, að Norðmen'n hafa orðið að horfast í augu við mjög alvarlegar afleiðingar af stóriðnaði sem hefur verið settúr niður í tiltölulega litlum samfélögum og valdið þar umtalsverðri röskun á öllum högum manna.

Ég þarf ugglaust ekki að segja a: m. k. þm. Norðurl. e. þá sögu úr einu byggðarlagi í kjördæmi okkar, að þar hafði fólk atvinnu um langan tíma, nokkuð örugga og trygga atvinnu af öðrum greinum en undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar. Þetta var trygg atvinna; þetta var notaleg atvinna og hún gaf talsvert í aðra hönd. En á sama tíma og menn höfðu fulla og góða vinnu við þau störf sem þarna um ræðir, þá grotnuðu undirstöðuatvinnuvegirnir niður. Þegar þessi vinna féll svo niður eða hvarf á nánast einum degi, þá var byggðarlagið í atvinnulegu tilliti í rúst. Og ég vil segja það, að með t. d. stóriðjuframkvæmdum sem mistækjust er þessari hættu boðið heim: Ég vil því endilega að í sambandi við þessa till., svo og aðrar umræður um stóriðju hugleiddu menn það, hvort við gætum fundið einhverja meðalleið, einhverja miðjuleið til þess að nýta þá raforku sem við eigum möguleika á að framleiða í mjög miklum mæli.

Ég skal ekki lengja þessa umr., herra forseti. Ég lýsi stuðningi mínum við þessa till. og vil að hún nái fram að ganga, henni verði ríkur gaumur gefinn og að í sambandi við hana kannt menn hvort ekki sé til einhver önnur fær leið en sú ein að stinga niður stóriðjufyrirtæki.