26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (887)

11. mál, stóriðnaður á Norðurlandi

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Það er e. t. v. að bera í bakkafullan lækinn að einn þm. enn úr Norðurlandskjördæmi eystra skuli taka hér til máls, en það er nú svo, þegar rætt er um atvinnumál á Norðurlandi, og þá hefur einkum verið rætt um Norðurl. e., þá er það auðvitað svo mikið mál fyrir okkur þm. þessa svæðis að við getum vart látið þá umr. algerlega fram hjá okkur fara.

Ég var því miður ekki viðstaddur þegar hv. 1. flm. þessarar þáltill. hélt sína framsöguræðu, þannig að ég missti af henni og heyrði ekki nema lítinn hluta af ræðu hæstv. iðnrh. En ég get lýst því yfir hér, að meginefni þessarar þáltill. er þannig orðað og þannig háttað með það, að mér finnst vera hægt að taka að verulegu leyti undir það sem þar kemur fram. Einnig get ég vel tekið undir margt sem fram hefur komið í ræðum þeirra hv. þriggja þm. úr Norðurl. e. sem hér hafa talað á undan mér o.g hafa rætt um.atvinnumálin og atvinnuástandið á þessu svæði nokkuð víðtækt og bent á það sem helst þarf að varast í sambandi við framgang þeirra mála sem bent er á í þessari þáltill.

Hér er talað um að efla þurfi atvinnulíf á Norðurlandi eystra. Að sjálfsögðu getum við allir tekið undir það. Það hefur gætt vissra vandamála að undanförnu og er þar sjálfsagt ýmsu um að kenna. Hér í grg. er ríkisstj. náttúrlega að mestu kennt um. Ég vil ekki taka undir það, þó að sjálfsagt megi segja að stjórnarfar eigi alltaf einhvern þátt í því, hvernig atvinnulíf gengur. Vissir erfiðleikar hafa verið í iðnaði þeim sem rekinn er á þessu svæði og þá einkum á Akureyri, og þar hafa auðvitað ýmis önnur mál spilað inn í en stjórnarfar. Þar hefur spilað inn í gengisþróun. Ég ætla ekki að rekja það sérstaklega. Það þekkja menn. Ég vonast til að það mál sé nú þar statt að vænta megi alveg á næstunni tillagna um úrræði frá stjórnvöldum og frá hæstv. iðnrh. í þessu sambandi.

Ég vil líka taka undir það sem fram hefur komið hjá mönnum, að við þurfum að huga vel að því atvinnulífi sem fyrir er og fleiri þáttum þess en iðnaðarstarfseminni á Akureyri. Við verðum að huga að þeirri útgerð og þeim fiskiðnaði sem er í okkar fjórðungi og vissulega er ein meginundirstaða í atvinnulífi þar. Sem betur fer er það svo, að á sumum stöðum í kjördæminu er ástandið mjög gott. Vil ég sérstaklega nefna staði eins og Ólafsfjörð og Dalvík þar sem í sumar hefur verið mikil eftirspurn eftir vinnuafli. Þannig hefur ástandið einnig verið á Húsavík. Í grg. með þessari þáltill. er sagt að fiskiðnaðurinn á Húsavík t. d. geti vart bætt við sig verulegu vinnuafli á næstunni. Þá má þó benda á að einmitt á þessu ári fengu þeir nýjan togara. Ég hygg að hann eigi eftir að styrkja mjög og renna stoðum undir atvinnulíf á Húsavík. Þar hafa aðrir útgerðarþættir líka hingað til staðið sig vel og ég vona að svo verði áfram.

Ég vil láta það koma fram hér, að við samþykktum á kjördæmisþingi framsóknarmanna í Norðurl. e. fyrir tæpum hálfum mánuði einmitt tillögur um atvinnumál þar sem bent er á að efla þurfi atvinnulíf í okkar kjördæmi,— hnígur það mjög í svipaða átt og hér er gerð till. um, — og einnig að athuga skuli í því sambandi stóriðjukosti og eru m. a. nefndar hugmyndir um trjákvoðuiðnað eða pappírsiðnað sem Húsvíkingar hafa mikið beitt sér fyrir athugunum á að undanförnu. Allt, sem enn hefur komið fram í því sambandi, er jákvætt. Ég vona að framgangur verði á því máli, en vil minna á í því sambandi að til að sú verksmiðja geti orðið að raunveruleika og við getum framleitt pappír, sem þar er rætt um, ekki bara trjákvoðu, heldur fullunnið varning og framleitt pappírinn, þurfum við að hefja rannsóknir á háhitasvæðinu við Þeistareyki. Við verðum að leggja í það fjármagn að svo megi verða til þess að sá þáttur þeirrar starfsemi sé í takt við aðrar rannsóknir varðandi hugsanlega trjákvoðuverksmiðju eða pappírsverksmiðju á Húsavík.

Hér kemur fram í lok grg. að staðarval stórra fyrirtækja í grennd við Akureyri og Húsavík sé lítt háð stórvirkjunarstöðum. Ég vil vekja athygli á þessu. Við höfum að sjálfsögðu lagt því lið að Blanda yrði virkjuð fyrst vegna þess að hún er hagkvæmastur virkjunarkostur, þó með þeim skilyrðum að samkomulag náist við landeigendur og heimamenn um þá virkjun. Staðarval stóriðnaðar fyrirtækja á þessu svæði er þó ekki beint háð þessum stórvirkjunarstöðum eða þeirri röðun. Þar sem hér er verið að fjalla um atvinnulíf á Norðurlandi almennt finnst mér þó sjálfsagt að leggja á það áherslu, að Blanda eigi að vera þar næst í röð. Þó að virkjunarframkvæmdirnar sjálfar séu auðvitað tímabundinn atvinnuveitandi hlýtur það að verka svo í framtíðinni að það muni verða til eflingar atvinnulífi víðar í fjórðungnum ef stórvirkjun er þar reist.

Ég vil, eins og ég sagði áður, aðeins ítreka það, að mér finnst að við getum mjög vel tekið undir þann tón sem kemur fram í þessari þáltill. Ég vil að lokum leggja á það áherslu í sambandi við allar stóriðjuhugmyndir og taka þar undir með hv. þm. Árna Gunnarssyni, að fara ber:að öllu með gát. Ber að sjálfsögðu að hafa í huga og gæta vel að því, sem miður fer eða því, sem getur miður farið þegar efnt er til stóriðjuframkvæmda. Við erum að tala um stóriðju í Eyjafirði sem er mjög blómleg byggð, þar sem nánast hver lófastór blettur er ræktaður eða nýttur. Þess vegna hljóta umhverfissjónarmið að ráða þar mjög miklu um og verða að vera ofarlega í hugum manna þegar endanlega kemur að ákvörðunum um slík mál, ef til kemur. Þetta svæði er það viðkvæmt í náttúrlegu tilliti að við verðum að huga mjög vel að öllum mengunarvandamálum. Hins ber auðvitað að gæta, að Eyjafjörður er það þéttbýll, þar er svo mikill fólksfjöldi og þar er þjónusta fyrir hendi, að það er auðvitað sá staður utan höfuðborgarsvæðisins og þessa svæðis hér á suðvesturhorninu sem helst getur tekið við stóriðju af félagslegum ástæðum. Þetta verðum við einnig að athuga, en gæta mjög að öllum mengunarvandamálum og hafa þau ofarlega í huga þegar við fjöllum um þetta nánar.