19.10.1981
Neðri deild: 4. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í B-deild Alþingistíðinda. (89)

18. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Hv. þm., sem var að ljúka máli sínu, Sighvatur Björgvinsson, var nokkuð undrandi yfir því, að ekki skyldu hlaupa hér í ræðustól strax að loknu máli flm. þess frv., sem hér er til umr., þeir menn sem eru stundum kallaðir verkalýðsrekendur eða eiga sæti í stjórnum verkalýðsfélaga. Ég býst við að við, sem flokkumst undir það samheiti, höfum hins vegar allir verið mjög forvitnir um það, hver flokksbræðra hv. flm. mundi fyrstur standa hér upp og tæta í sundur þetta frv. hans, í framhaldi af því sem verið hefur gert bæði gagnvart því og öðrum málum sem hann hefur haft með að gera á undanförnum mánuðum. Ég skal ekki fara frekar út í það. Hins vegar vil ég aðeins ræða þetta efnislega.

Ég hef oft haft grun um það, að þegar hv. flm. talar um Verslunarmannafélag Reykjavíkur á þann veg sem hann gerir — og ég harma að hann skuli gera í sambandi við þetta mál, þá noti hann Verslunarmannafélagið á sama hátt og stórveldin notuðu Albaníu á sínum tíma, að í raun sé hann ekki að skamma stjórnendur Verslunarmannafélags Reykjavíkur, heldur sé hann að skamma eigin flokksbræður sem sæti eiga í stjórn og ráða ákveðnum verkalýðsfélögum og hafa nokkuð oft verið kenndir við palisanderklæddar skrifstofur sínar og annan umbúnað sem þeir hafa búið um sig með þar. Að sjálfsögðu ber að gagnrýna það sem miður fer hjá þessum stjórnendum eins og öðrum stjórnendum. Undir það skal ég fúslega taka. En að láta þau orð falla, að fólkið á skrifstofunni hjá Verslunarmannafélagi Reykjavíkur eigi ekkert orðið skylt með fólkinu sem í félaginu er, því mótmæli ég harðlega og bendi á það, að þar eins og í flestum verkalýðsfélögum — þangað til nú upp á siðkastið í Dagsbrún að þeir eru farnir að ráða sér háskólaborgara til starfa — þá koma þessir sömu starfsmenn beint úr þeim atvinnugreinum sem viðkomandi félag semur um. Ég held að allflestir þeirra, sem starfa hjá og eru nú orðið nokkuð mikill fjöldi í jafnstóru félagi og Verslunarmannafélag Reykjavíkur er, — ég held að allt það starfsfólk sé komið beint úr röðum þeirra, sem aðild eiga að félaginu, og nauðaþekki til allra starfa, sem þetta fólk vinnur, og til þeirra kjara, sem þetta fólk býr við.

Ég vildi láta þetta koma fram í byrjun. En ég vil fyrst og fremst þakka hv. flm. fyrir að flytja þetta frv. og um leið að opna umr. um þessi mál hér á Alþingi. Það er auðvitað hárrétt sem hann segir, að hér er um yfir 40 ára gamla löggjöf að ræða sem var sett hér á Alþingi á sinni tíð og átti langan aðdraganda. Það má lesa nokkuð um þann aðdraganda í ítarlegri grg. flm., þótt mér þyki kannske nokkuð vanta á þegar hann ræðir um tildrög þess, að sú nefnd var skipuð sem samdi þessa löggjöf. Nefndin var skipuð Alþfl.-mönnum og framsóknarmönnum. Það voru komnar fram margar kröfur um setningu slíkrar löggjafar hér á landi þá. Þeir, sem hvað þyngstir voru þar á metum, voru vinnuveitendur annars vegar. Hins vegar voru sjálfstæðismenn sem sæti áttu á þingi og sá hópur sem stóð á bak við suma þeirra og var orðinn hávær. En það voru þeir launþegar, sem töldust hvorki til krata né kommúnista, sem gerðu kröfu um að þeir fengju að njóta sama lýðræðislega réttar og Alþfl. hafði þá tekið sér í verkalýðshreyfingunni. En þá var Alþfl. og Alþýðusamband Íslands eitt, eins og hér og víðar kemur réttilega fram.

Það, sem gert var hér á Alþingi af yngri sjálfstæðismönnum sem þá komu á þing, var að koma með tillögur, m. a. um hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í fyrirtækjum. Bjarni Snæbjörnsson læknir háði baráttu á Alþingi vegna þeirra launþega sem töldust sjálfstæðismenn, o. fl., o. fl. Allt er þetta saga sem á vissulega að liggja frammi fyrir okkur þm. í dag. Það er gert hér mjög ítarlega og eins og flm. er einum lagið að gera. En þetta hefur líka legið hér frammi, kannske séð með öðrum gleraugum en afagleraugum hv. flm. sem eru og hafa löngum þótt góð. Alla vega hafa þau verið svo góð að sést hefur út fyrir umgjörð þeirra, sem ekki verður sagt um suma sem gleraugu nota.

Það mál, sem hér er til umr., er auðvitað eitt af þýðingarmestu málum verkalýðshreyfingarinnar. Það, sem hér hefur verið sagt um aðdragandann, bæði á Alþýðusambandsþingum og reyndar það sem á eftir fór, er ekki nema hálfsögð saga. Þótt þá væri eins og endranær um pólitísk átök að ræða innan þeirra ágætu samtaka, þá var vissulega horft líka á hin félagslegu sjónarmið og vandamál sem hlytu að koma upp í sambandi við skipulagsbreytinguna sem samþykkt var að stefnt skyldi að á þinginu 1958 og endurtekið 1960 og að mig minnir 1962 líka, og reyndar var það líka gert við lagabreytingarnar seint á sjöunda áratugnum, en þá hafði lengi starfað mþn., sem ég einmitt átti sæti í innan Alþýðusambandsins, sem m. a. mótaði þau lög sem nú eru í gildi fyrir Alþýðusambandið.

Í sambandi við vinnustaðafélögin kom upp m. a. þetta mikla vandamál, að það er í raun úti um land aðeins eitt staðarfélag starfandi á staðnum sem hefur allar greinar innan sinna vébanda. Þótt þar séu eitt, tvö eða þrjú sæmilega stór fyrirtæki, kannske tvö stór fyrirtæki, þá þótti ekki rétt að skipta upp þessu eina verkalýðsfélagi sem var ekki aðeins baráttuaðili fyrir kaupi og kjörum viðkomandi aðila á staðnum. Þetta var líka fyrsti og sterkasti aðili sem fékkst við öll félagsmál á staðnum, sem starfaði að menningarmálum á staðnum og var beinlínis „primus motor“ í félagslífi í viðkomandi byggðarlagi. Ég minnist þess, að í þessari umr. verkaði þetta mjög sterkt. Var rétt að kljúfa þetta í sundur og hvernig átti að tengja það saman aftur, — ef farið hefði verið inn á vinnustaðafélagafyrirkomulagið? Ég tek það fram, þótt ég segi þetta, að ég hef verið þeirrar skoðunar lengi, að þetta fyrirkomulag ætti að taka upp á hinum stærri vinnustöðum, ekki síst í sérgreindum stórverksmiðjum, í ákveðnum iðnaði. Og þetta er í raun komið nokkuð á veg þótt það sé ekki bundið í lögum enn þá. En til þess að þetta sé hægt að gera formlega þarf að sjálfsögðu að breyta þessum lögum. Það er meginmálið. Það þarf að breyta lögunum eða opna þau á þann veg, að verkalýðshreyfingin eða hluti hennar geti farið þá leið, sem hér er verið að ræða um, eða aðra sem hún telur skynsamlega.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að vinnulöggjöfin verkar sem hemill á félagafrelsið í landinu. En skoðum aðeins nánar: Af hverju var þessi hemill settur á? Hann var settur á til þess að vernda verkalýðinn fyrir klofningi innan sinna raða, að ekki væru búin til sprengifélög eins og dæmi hafa þekkst um, sem kannske — annaðhvort vegna pólitískra skoðana, sem langoftast var, eða af einhverjum öðrum ástæðum — undirbyðu þá sem færu með réttinn líka eða teldu sig eiga að hafa hann. Þetta var til verndar þeim. Það var ekki bara til þess að draga úr rétti þeirra. Við skulum hafa þetta líka í huga — alla vega þarf að skoða það mjög nákvæmlega — ef heimilað verður að stofna fjölda verkalýðsfélaga t. d. á svæði eins og Reykjavíkursvæðinu sem taka öll þau störf að berjast fyrir hagsmunum sinna félaga. Um leið og það yrði leyft heldur auðvitað samanburðarpólitíkin áfram sem ég tel vera eitt það versta sem íslensk verkalýðshreyfing býr við í dag. Ég fæ ekki séð, þegar við horfum á hvernig okkar þjóðfélag er, hvernig við eigum að geta samræmt kröfur þessara aðila frekar en við getum í dag á milli einstakra verkalýðsfélaga. Ef við eigum — eins og skynsamar þjóðir reyna að stefna að að gera og okkur ber að gera og við í orðum viðurkennum að við eigum að gera, — ef við eigum að miða við þá framleiðni sem verður til í fyrsta lagi innan viðkomandi atvinnugreinar, fyrirtækja og svo þjóðfélagsins, þá verður auðvitað enn þá verra að samræma þá sjálfsögðu reglu sem ég vildi að fylgt yrði, að þær atvinnugreinar, sem betur mega sín í ár og betur gengur, geti miðlað til annarra um leið, en sitja ekki aðeins að sínu og láta ekkert fara frá sér.

Ég held að þetta sé eitt þeirra atriða sem við verðum að hafa í huga þegar við förum að hreyfa við þessu. Auðvitað er hægt að ná því, sem stefnt er að hjá hv. flm., á annan hátt, með nútímalegri aðferðum. Það væri hægt að ná þessu hugsanlega — og skal ég þó ekki fullyrða að það séu ekki vankantar á því líka og get ég nefnt dæmi um það, — en það mætti gera þetta með fullkomnu kerfisbundnu starfsmati á milli aðila. Ef t. d. heildarsamtök, sem hér eru starfandi í landinu, Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Alþýðusambandið og Farmanna- og fiskimannasambandið, færu með kerfisbundið starfsmat lóðrétt hjá sér, upp úr og niður úr, og síðan fyndist lárétt viðmiðun milli allra sambandanna, það er bara einn aðili, þá er auðvitað komin samræming á milli allra þessara aðila sem við þyrftum ekki að leita frekar eftir. En hvenær þessir aðilar færu að tala saman á þennan veg, það er aftur önnur saga.

Ég minnist þess, að meðan ég enn þá tók þátt í samningum fyrir hönd míns stéttarfélags, sem ég á enn sæti í eftir 35 ára veru þar og 20 ár í stjórn, þá komum við einu sinni þeirri kröfu okkar fram, að tekið skyldi upp kerfisbundið starfsmat milli yfir- og undirmanna á farskipum, sem eiga aðild að tveimur samböndum. Annars vegar voru undirmennirnir þá eins og nú í Sjómannafélagi Reykjavíkur, hins vegar voru yfirmennirnir í nokkuð mörgum félögum innan Farmanna- og fiskimannasambandsins. Þegar búið var að leggja gífurlega mikla vinnu og fjármuni í að vinna þetta kerfisbundna starfsmat og meta störfin frá léttadreng og upp í skipstjóra, hvert hlutfallið ætti að vera á milli, án þess að krónur væru nefndar, þá fór eitt ónefnt stéttarfélag að setja þetta upp í krónum og sá að það mundi ekki verða í jafngóðri aðstöðu og áður gagnvart sínum meðbræðrum og félögum á skipinu. Og þá var auðvitað ekki hægt að standa í þessu lengur. Réttlætiskenndin náði ekki lengra en þetta.

Mér virðist oft og tíðum, þegar talað er um þýðingu þessa máls í sambandi við kjör og laun hér í landinu, fara fram hjá mönnum það sem er kannske meginmálið, og það er að verkalýðshreyfingin er hápólitísk hreyfing. M. a. eru hér heilir stjórnmálaflokkar, sem eiga fjölda fulltrúa á Alþingi, sem telja sig vera verkalýðsflokka. Þeir byggja tilveru sína á því, að verkalýðshreyfingin sé pólitísk. Lögin frá 1938 voru auðvitað fyrst og fremst ekkert annað en tilraun til að tryggja og auka lýðræði meðal allra launþega á landinu, að færa út þann rétt, sem pólitískur flokkur hafði þá. Ég er ekki að gagnrýna að svo skyldi vera fram eftir árum, vegna þess að ef forustumenn Alþfl. í þá tíð, sem verkalýðshreyfingin varð til, hefðu ekki verið til staðar þá værum við örugglega ekki jafnlangt komnir og við erum í dag á þeirri braut sem við erum í launþegamálum hér á landi. En það breytir því ekki, að við getum ekki stöðvast við það og sagt: Þú átt að vera í þessum flokki og engum öðrum. Þetta er stóra vandamálið með skipulagið í dag og með kosningu í stjórnir félaganna. Það er þess vegna sem ég hef ekki getað fallist á þau rök, sem ég held að hafi í sambandi við umr. þessa máls komið m. a. frá hv. flm. þessa frv., Vilmundi Gylfasyni, þess efnis, að það ætti að vera sjálfsagt að kjósa einn og einn inn í stjórnirnar eða þá að þar gæti bara komið saman níu manna stjórn, níu einstaklingar sem allt í einu tækju við stóru verkalýðsfélagi sem hefði mikla starfsemi undir höndum, gilda sjóði og mikið starf, og þeir ættu svo að fara að reyna að slípa sig saman og ná samstöðu um að reka þetta verkalýðsfélag það ár sem þeir væru í stjórninni.

Ég hef hins vegar talið sjálfsagt að það ætti að höggva upp listakosninguna eins og hún er í dag, en gera það á þann hátt, að sæti minni hlutans, gagnrýnandans, væri tryggt í þessum stjórnum. Það væri ekki einhliða stjórnun, einhliða pólitísk stjórnun innan verkalýðshreyfingarinnar, heldur hefðu pólitískir andstæðingar eða félagslegir gagnrýnendur — við skulum sleppa því að tala um pólitík og fara að tala um félagslega gagnrýnendur á stefnu og störf viðkomandi stjórnar — þá hefðu þeir rétt til þess að fá inn, í hlutfalli við þann fjölda sem þeirra lista kysi, menn í stjórnina og til áhrifa þar. Ég held að þó það væri ekki annað en þetta, þá væri það af hinu góða. ef slíkt spor væri stigið. En það þarf líka að breyta þessum umræddu lögum til þess, og á það hefur flm. bent. Ég tel því að hvernig sem á málið sjálft er litið sé umr. um þessi mál tímabær hér á hv. Alþingi, og þess vegna m. a. stóð ég upp til þess að segja örfá orð strax við 1. umr. málsins.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín öllu lengri nú við þessa umr. Það var vissulega eftirtektarvert sem kom fram í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar þegar hann minntist á þann kaupmátt sem verkalýðshreyfingin eða þjóðin býr við í dag og hún bjó við í lok stjórnartíðar Sjálfstfl. og Framsfl. 1978, þó ég sé hins vegar ekki sammála honum um að skipulag verkalýðshreyfingarinnar eigi þarna sök á. Ég held að það séu aðrir þættir sem þar komi inn í. En það breytir því ekki, að þetta er mjög nálægt sanni að kaupmátturinn hafi rýrnað á þennan veg. Ég held þó að kaupmáttarrýrnunin sé miklu, miklu meiri, enda hafa sjaldan verið gerðar ítarlegri eða frekari aðgerðir til þess að falsa þær tölur, sem lagðar eru til grundvallar kaupmáttarútreikningi, heldur en nú í seinni tíð, í tíð núv. hæstv. ríkisstj., að ég tali nú ekki um nýkrónuvitleysuna alla sem hefur orðið til þess, að endanlega mun íslensk þjóð hafa misst trú sína á íslensku krónunni. Hún hefur þegar rýrnað í gildi úr krónu niður í 70 aura á aðeins tæpu ári og mun eftir tvö ár til viðbótar verða komin niður í 50 aura. Það er mikið stökk sem hæstv. ríkisstj. hefur tekist að stökkva á ekki lengri tíma, og er þó ekki öll sagan sögð af þeim langstökkvurum öllum.