26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (892)

71. mál, kornrækt

Flm. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 74 flyt ég ásamt Þórarni Sigurjónssyni, Steinþóri Gestssyni og Jóni Þorgilssyni svohljóðandi till. til þál. um kornrækt:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna nú þegar hvað hægt er að gera til að stuðla að því, að kornrækt verði arðbær og fastur þáttur í búskap íslenskra bænda þar sem skilyrði eru fyrir hendi.

Að fengnum niðurstöðum þeirrar könnunar geri ríkisstj. þær ráðstafanir sem vænlegastar eru taldar í þessu skyni.“

Eins og fram kemur í grg. till. flutti ég ásamt Þórarni Sigurjónssyni og Friðrik Sophussyni till. til þál. um kornrækt til brauðgerðar á þinginu 1979. Þá hafði Hermann Bridde bakarameistari hafið framleiðslu á brauðum sem að nokkrum hluta voru bökuð úr íslensku byggi. Við flm. þeirrar till. töldum að möguleikar á slíkri framleiðslu úr byggi kynnu að geta aukið áhuga á byggrækt, ef ríkisvaldið veitti einhvern stuðning til að hrinda slíku af stað. Því miður náði þessi till. ekki fram að ganga á þingi þá. Nú er till. um kornrækt flutt á ný og þá nokkru víðtækari, m. a. með tilliti til þeirrar reynslu sem bæst hefur við á þeim árum er liðið hafa síðan.

Þótt till. yrði ekki samþykkt fyrir þremur árum hygg ég að þær umr., sem áttu sér stað að nokkru leyti kringum þá till., hafi stuðlað að því, að meira hefur verið gert á þessu sviði á síðustu árum.

Eins og fram kemur í grg. hefur bygg verið ræktað á Sámsstöðum í Fljótshlíð allt síðan Klemens Kristjánsson hóf þá ræktun þar árið 1927 og enn fremur á Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum síðustu 20 árin. Á þessum stöðum hefur verið nokkuð árviss árangur, sérstaklega hin síðari ár, vegna betri afbrigða, og gefur það nokkra vísbendingu um hversu árviss þessi ræktun getur orðið.

Það fylgdu nokkrir bændur í fótspor Klemensar Kristjánssonar með ræktun á byggi í smáum stíl kringum 1940, en þeir gáfust fljótlega upp. Ástæðuna hygg ég vera fyrst og fremst þá, að þeir höfðu aðeins frumstæð verkfæri við uppskeruna svo vinnan við hana var mjög mikil, en fullkomin uppskerutæki voru allt of dýr fyrir slíka smáræktun.

Vegna reynslu þessara brautryðjenda hefur, eins og ég sagði, verið síðustu árin vaxandi áhugi á þessari ræktun. Bygg hefur verið ræktað með góðum árangri í Norðurhjáleigu í Álftaveri síðustu tvö árin og í vor byrjuðu sjö bændur í Austur-Landeyjum á kornrækt. Árangur þeirra var nokkuð misjafn, eins og við er að búast þegar byrjað er á nýrri grein, en hann var ágætur þar sem best var.

Sama kornafbrigði, sem nefnist Mari, hefur verið notað til sáningar á öllum þessum stöðum síðastliðin ár. Er það vegna þess að það hefur reynst jafnbest í ræktun hér, sérstaklega vegna þess hve veðurþolið afbrigðið er og stendur vel af sér storma. Uppskeran á Sámsstöðum telst allgóð og hefur verið að jafnaði um 2.5 tonn af hektara. Til samanburðar má geta þess, að danskir bændur munu fá 30–60 tunnur eða 3–6 tonn af hektara og telja að ræktunin borgi sig orðið fjárhagslega þegar uppskeran nær 30 tunnum. Fyrir þá skiptir það vitanlega nokkru meira máli en okkur að uppskera sé sem mest af hverjum hektara vegna þess að þar er landrými takmarkað, en h já okkur er, í sumum sveitum a. m. k., má segja ótakmarkað land sem hægt er að nota í þessu skyni.

En hvernig er þá fjárhagsgrundvöllur þessarar byggræktunar hér á Íslandi? Samkvæmt upplýsingum, sem Kristinn Jónsson tilraunastjóri á Sámsstöðum hefur gefið, telur hann að með 2600 kg uppskeru af hektara hafi kostnaður nú á þessu ári við sáningu, ræktun, uppskeru og þurrkun verið 6290 kr. á hektara, en það eru um 2.40 kr. á kg. Af þessum kostnaði eru 38% eða um 90 aurar á kg við þurrkun kornsins eftir að uppskera hefur farið fram. Samkvæmt upplýsingum Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins er talið öruggt að geyma megi korn með súrsun án þurrkunar og gefa skepnum það þannig ómalað. Er það í samræmi við niðurstöður sem fengist hafa erlendis. Ef hægt er að nota með góðum árangri þá geymsluaðferð lækkar framleiðslukostnaðurinn verulega. Þessu til viðbótar er hér ekki reiknað til frádráttar það verð sem fæst fyrir hálminn. Sá hálmur, sem fengist hefur hér síðustu árin, hefur verið seldur garðyrkjubónda í Borgarfirði til svepparæktar, en hann hefur stundað svepparækt í smáum stíl síðustu áratugina. Sú ræktun hefur ekki getað vaxið vegna þess, hversu. framboð á hálmi er lítið, þannig að þessi íslenska svepparæktun nægir aðeins að litlum hluta fyrir hina innlendu neyslu, þrátt fyrir að innlendir sveppir séu bæði lægri í verði og betri að gæðum en innfluttir að því er talið er. Ef ræktun á byggi ykist þannig að meira framboð yrði á hálmi yrði það grundvöllur fyrir stóraukna svepparækt, sem yrði þá viðbótaratvinnugrein við þá gróðurhúsaræktun sem fyrir er í landinu. Ef verð hálmsins er dregið frá kornverðinu mundi verð á ómöluðu byggi með þessari uppskeru, 2600 kg á hektara vera í kringum 1 kr. á kg. Bygg er sambærilegt að fóðurgildi við maís. Nú er hann seldur hér til bænda á um kr. 3.90 kg, þ. e. á fjórföldu verði. Það er því augljóst hversu mikill ávinningur það er fyrir bændur, ef hægt væri að fá þetta fóður heimaræktað á þessu verði, miðað við að flytja það inn í landið og greiða það margföldu verði. Hér á því sannarlega við máltækið, að hollur er heimafenginn baggi.

Korn frá Tilraunastöðinni á Sámsstöðum og einnig það, sem bændur hafa ræktað í Landeyjum, hefur verið flutt til graskögglaverksmiðjunnar á Stórólfsvelli þar sem það hefur verið þurrkað og malað og því blandað saman við grænfóður og köggla. Þannig hefur það orðið mjög aðgengilegur og góður fóðurbætir sem kýr eru mjög sólgnar í. En þessari vinnslu fylgir vitanlega viðbótarkostnaður, sem eins og ég sagði áður er talið að megi losna við með því að súrsa kornið.

Sú spurning hlýtur að vakna, af hverju bændur hafi ekki þegar farið af stað með kornrækt miklu almennara en raun hefur á orðið. Ýmsar ástæður er sjálfsagt hægt að benda á sem valda því. Fyrir um það bil tveimur áratugum var reynt að fara af stað með kornrækt í stórum stíl bæði á Rangárvöllum og austur á Egilsstöðum. Sú ræktun varð fyrir mjög miklum áföllum rétt í byrjun og það olli því, að þar var ekki haldið áfram. Ég hygg að það hafi einnig haft þær afleiðingar, að menn misstu trú á þessu og það dró kjarkinn úr mönnum. En einnig veldur það atriði, sem ég benti á að hefði valdið því að bændur hættu í kringum 1940, þ. e. að ekki var kostur á hentugum uppskeruvélum. Uppskeruvélar þær, sem nú eru algengastar erlendis a. m. k., eru mjög dýrar, kosta mörg hundruð þús. kr. Það eru vitaskuld allt of dýr tæki til þess að hver einstakur bóndi, sem vill fara af stað í smáum stíl meðan hann er að ná tökum á þessu, hafi efni á að kaupa slík tæki. Þetta er því sá þröskuldur sem þarf að komast yfir á sem auðveldastan hátt. Þar sýnist mér að sé tvennt sem þarf að gera:

Það þarf að vinna að því, að bændur myndi félagsskap um kaup á slíkum tækjum, og síðan þarf að styðja þá til þessara kaupa með hagkvæmum lánum og styrkjum meðan þetta er að komast af stað. Þetta er eitt atriði sem við flm. höfum í huga að skoðað verði og reynt að vinna að þegar við óskum eftir að ríkisstj. vinni að framgangi þessa máls.

Annað mikilvægt atriði er leit að nýjum kornafbrigð­ um. Eins og ég sagði áður er nú einkum notað Mari-afbrigðið, en það er vegna þess að reynslan hefur sýnt að það er miklu betra en þau afbrigði, sem áður voru notuð, og hefur gert uppskeruna árvissari. En þarna er hægt að gera miklu meira. Á síðustu 30 árum hefur tekist að tvöfalda uppskeru korns í Vestur-Evrópu með kynbótum, og það gefur okkur vísbendingu um hve langt er hægt að ná á þessu sviði.

Nokkur undanfarin ár hefur verið í smáum stíl unnið að slíkum kynbótum hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins á Keldnaholti. Sú vinna hefur náð það langt að á s. l. sumri var sáð mjög mörgum afbrigðum í tilraunareiti austur á Rangárvöllum og í haust sást greinilega hversu mikill mismunur var á þessum afbrigðum. Eitt virtist skera sig þar nokkuð úr með það, hvað það var mikið þroskað í byrjun sept. Það var greinilegt að það var komið lengra á veg en Mari-byggið sem almennt er sáð. Virðist því vera augljóst að til eru afbrigði sem sem taka Mari-byggi fram. Það er því vitanlega mikilvægt, að sem fyrst verði hafin ræktun á þeim þannig að sáðkorn fáist svo að hægt sé að hagnýta kosti þessara afbrigða. Og það þarf að sem ja við erlenda aðila um ræktun á þeim til þess að við fáum þau sem fyrst. Jafnframt er brýn þörf á að starfi okkar ágætu sérfræðinga hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins verði haldið áfram með eins miklum krafti og unnt er. Þetta kostar mikla vinnu, en árangurinn getur orðið mikill og kostnaðurinn fengist margfaldlega borgaður.

Tilraunastöðvar á Norðurlöndum sem ja t. d. við slíkar stöðvar á Nýja-Sjálandi um að þeim sé sent sáðkorn að hausti: Er það ræktað þar meðan vetur er hjá okkur. Kornið kemur síðan aftur til baka að vori tilbúið til sáningar. Þannig tekst að flýta því um helming að not verði af þeim tilraunum sem árangur bera: Við munum einnig hafa möguleika á að komast í slíkt samstarf, en það kostar vitanlega einhverja fjármuni, þó að getá megi þess, að e. t. v. getur þessi tilraunastarfsemi orðið beinlínis atvinnugrein, því ef okkur tekst hér á landi að fá fram afbrigði sem reynast vel við svipuð skilyrði í öðrum löndum kemur markaður fyrir þetta korn þar einnig. Er reglan sú; að þeir; sem tekst að framleiða slíkt sáðkorn, fá vissar prósentur fyrir það sem selt er af því næstu ári n:

Það hefur mikið verið rætt um erfiðleika landbúnaðar á Íslandi síðustu árin vegna þeirra takmörkuðu markaðsskilyrða sem hann hefur átt við að búa. Ég tel að við því sé aðeins eitt svar: Við þurfum að snúast við þessum vanda á jákvæðan hátt, þ. e. að leita nýrra leiða og hagnýta alla þá möguleika sem aðstæður hér bjóða íslenskum landbúnaði. Þarna tel ég möguleikana einmitt vera mikla. Á síðustu árum hefur verið flutt inn erlent kjarnfóður í mjög miklum mæli, 60–80 þús. tónn á ári: Það er því auðséð að mikill markaður er á Íslandi fyrir þessa vöru og ef okkur tekst að framleiða kjarnfóður hér innanlands er um mikinn atvinnurekstur að ræða. Ef okkur tekst einnig að framleiða vöruna á lægra verði en okkur gefst kostur á að fá hana frá öðrum löndum er þar vitanlega um margfaldan ávinning að ræða.

Við megum einskis láta ófreistað til að reyna að yfirstíga þær hindranir sem eru á því að kornrækt verði arðbær og hagkvæm búgrein íslenskra bænda. Það er sannfæring okkar flm., að möguleikar séu þarna fyrir hendi og við getum náð þar árangri ef rétt er að málum staðið. Við væntum þess, að þessi þáltill. fái góðar undirtektir hér á Alþingi og verði afgreidd á jákvæðan hátt og þá jafnframt að það takist að halda þannig á málum eftir að tillagan hefur verið samþykkt, að jákvæðar leiðir finnist sem stuðli að því að þessu markmiði verði náð.

Ég vil svo leggja til að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til síðari umr. og atvmn.