26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

71. mál, kornrækt

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ekki skal ég lengja þessar umr. að neinu ráði, en vildi lýsa stuðningi við þessa till, vegna þess að hér er hreyft ákaflega þörfu og nauðsynlegu máli.

Satt best að segja hef ég á undanförnum árum oft undrast hvers vegna ekki hafa fleiri bændur snúið sér að kornrækt. Raunar koma fram á því ýmsar skýringar í grg. svo og í ræðu frsm. fyrir þessari till.

Ég ítreka það, að hér er hreyft mjög nauðsynlegu máli. Eins og réttilega var hér fram tekið hafa, að því er vísindarannsóknir á þessu sviði varðar, orðið gífurlegar framfarir, ótrúlegar framfarir að því er varðar kynbætur á korni. Þótt ástandið í matvælamálum veraldarinnar sé nægilega slæmt í dag, þá væri það miklu verra ef ekki hefðu á síðustu árum komið til þessarar rannsóknir, en árangri sumra hverra má nánast líkja við kraftaverk.

Ég tek undir það, sem hér hefur verið sagt, að ég vona að þessi tillaga fái greiðan gang í gegnum hið háa Alþingi og jákvæða afgreiðslu.