26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (895)

71. mál, kornrækt

Flm:

(Jón Helgason): Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessar undirtektir og þá um leið, af því að hv. 2. þm. Austurl. minntist á kornræktina á Austurlandi sem gekk mjög vel þegar vel áraði, láta í ljós þá skoðun mína, að ég held að þetta geti gengið víðar en á Suðurlandi vegna þeirra framfara í kynbótum sem orðið hafa síðan kornrækt var reynd á Austurlandi. T. d. skiptir miklu máli hver dagur sem þroskunartíminn styttist. Vísindamenn okkar telja að það sé auðvelt að ná a. m. k. þeim árangri í kynbótum að stytta hann um einn dag á hverju ári næstu árin. Ég held sem sagt að ekki sé fyrir fram a. m. k. hægt að útiloka að þessi ræktun geti gengið í öllum landshlutum. Það hefur gengið mjög vel t. d. í Mosfellssveitinni þar sem tilraunareitir eru.

Það er vitanlega við ýmsa erfiðleika að glíma. Mér datt það í hug vegna þess, sem hv. 2. þm. Austurl. sagði um kornræktina í Austur-Skaftafellssýslu, að þar urðu áföll líka, þ. e. í Flatey á Mýrum. Þar mun hafa verið sáð í 10 hektara, en svo þegar átti að fara að uppskera var allt kornið horfið því að gæsin hafði hirt það. Það er aðeins eitt dæmi um þann mikla skaða sem gæsin veldur bændum og getur orðið nokkurt vandamál ef akrar stækka og verða í nokkurri fjarlægð frá bæjum. En þá er það þroskunartíminn, sem þar hefur mikið að segja, því að gæsin leitar meira á eftir því sem líður fram á haustið.

Ég þakka þær góðu undirtektir sem tillagan hefur fengið og vænti þess, að svo verði almennt h já hv. alþm.