26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1125 í B-deild Alþingistíðinda. (896)

71. mál, kornrækt

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að lýsa yfir stuðningi við þessa till., því að ég hygg að það, sem kemur fram í grg. með þessari till. verði til þess að mönnum aukist bjartsýni um að þarna geti verið einhver meiri möguleiki en talið hefur verið til að gera landbúnaðinn fjölbreyttari. Það er auðvitað ýmis vandamál sem þarf þarna að yfirstíga eins og í öðrum greinum. Það má náttúrlega benda á að þegar kornrækt var reynd t. d. norðanlands fyrr á árum voru annað veifið ár sem ræktunin mistókst. En fyrst og fremst var ástæðan, eins og hv. flm. gat um, að það var allt mjög frumstætf. Það sem ég óttast í þessu sambandi, er að fjármagnskostnaður hér verði nokkuð mikill og þar af leiðandi þurfi margir að sameinast um slíkt. En þá þarf fyrst og fremst að gera tilraunir með þetta. Ég er tiltölulega bjartsýnn á að kornrækt eigi eftir að verða lyftistöng í landbúnaði. Kartöflurækt og önnur ræktun hefur orðið misfellasöm líka út af tíðarfari, þannig að það kann að vera að kornrækt á Íslandi verði eins árviss eða árvissari en t. d. kartöfluræktin.