26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (898)

103. mál, sjónvarp einkaaðila

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Á þskj. 106 mæli ég fyrir till. til þál. um sjónvarp á vegum einkaaðilar, sem nefnt hefur verið vídeó, en flm. ásamt mér eru hv. þm. Finnur Torfi Stefánsson, Magnús H. Magnússon, Sighvatur Björgvinsson og Jóhanna Sigurðardóttir. Till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að skipa nefnd fulltrúa þingflokkanna um sjónvarp á vegum einkaaðila — vídeó — sem hafi að markmiði að breyta útvarpslögum þannig að a) ótvírætt sé heimilt að senda sjónvarpsefni eftir lokuðum rásum gegn greiðslu og b) tryggt sé að sanngjarnar greiðslur komi til eigenda höfundaréttar.“

Nú er það svo, eins og fram hefur komið í umr. að undanförnu, að ég hygg að á vegum hæstv. menntmrh. séu tvær nefndir að starfi vegna þeirrar nýju þróunar sem átt hefur sér stað í þessuni efnum. En það er svo með þessar nefndir tvær, að þær eru á vegum framkvæmdavaldsins, og auðvitað er alveg undir hælinn lagt á þessu stigi málsins, að hvaða niðurstöðum þeim er ætlað að komast, og í annan stað, að hvaða niðurstöðu þa'r kunna að komast. M. ö. o.: þær hafa ekkert pólitískt markmið, ekkert stefnumótandi markmið að því er þessa nýju þróun í fjölmiðlun varðar. Hér er verið að leggja annað til, að nefndinni, sem lagt er til að Alþingi skipi að tilnefningu þingflokkanna og kemur auðvitað til með að starfa þannig að leita sér ráðunauta og ráðgjáfa utan þingsins, er beinlínis fyrir lagt að vinna að ákveðinni stefnumótun, að það sé heimilt að senda sjónvarpsefni eftir þessum lokuðu rásum gegn greiðslu. M. ö. o.: hvað varðar þessi litlu fyrirtæki, sem hafa verið að rísa vítt og breitt um landið í þessu skyni og deilt hefur verið um hvort lögmæt séu eða ekki, séu tekin af öll tvímæli með að þessi starfsemi sé lögleg, en í annan stað sé einnig tryggt að sanngjarnar eða réttar greiðslur komi til eigenda höfundarréttar. Það er auðvitað skiljanlegt, enda komu ábendingar fram í fsp.-tíma hér fyrir nokkru um þessi efni, að menn taki því ekki ef svo er háttað nú um stundir að hér geti verið um hreinan og kláran þjófnað að ræða. Það verður að tryggja réttindi þeirra sem búið hafa þetta efni til og eiga það þar með í hreinum og beinum skilningi eignarréttar.

Sú þróun, sem átt hefur sér stað að undanförnu í sambandi við það sem nefnt hefur verið vídeóvæðing og á öðru þskj. nefnt myndvarp, hcfur gerst með ótrúlega miklum hraða. Það er ljóst að komin eru upp lítil fyrirtæki sem þó ná til heilla byggðarlaga. Ég hygg að svo sé t. d. um Vestmannaeyjar og fleiri staði. Svo er um stóran hluta af Breiðholtinu í Reykjavík. Löggjafarvaldið hefur að minni hyggju verið allt of seint að taka við sér í þessum efnum. Ég tel raunar alveg fráleitt að ætla sér á þessu stigi málsins að snúa við, því að hvað sem öðru líður hefur þessi þróun verið að eiga sér stað um árs skeið eða á annað ár. Ég hygg að þó að ekki væri nema af þeirri ástæðu einni verði þessari þróun ekki snúið við. Þessi þróun verður ekki dæmd ólögleg úr því sem komið er. Af hverju má segja svo? Af þeirri einföldu ástæðu, að við búum við lýðræðisfyrirkomulag og lög eru auðvitað ekki sett gegn fólki, hagsmunum þess og vilja. Hinn eiginlegi tilgangur lagasetningar á auðvitað að vera sá, að þau séu sett fyrir fólk, fyrir hagsmuni þess og með vilja þess. Það má enn fremur segja í þessum efnum, að verði lögum breytt í þá veru, sem hér er verið að leggja til að nefnd geri, verði það ekki lagabreytingar sem skerði hagsmuni eins eða neins, það feli þvert á móti í sér að heimila og auka frjálsræði án þess að hagsmunir eins eða neins verði skertir.

Það væri út af fyrir sig fróðlegt að velta því fyrir sér hver kemur til með að verða framtíðin í þessum efnum. Spá mín er sú, að hvort sem mönnum líkar betur eða verr verði sú þróun í þessum efnum að þessi minni háttar fyrirtæki sendi út slíkt efni á lokuðum rásum. Það hafa risið upp fjölmörg slík fyrirtæki að undanförnu og á áreiðanlega eftir að gerast í framtíðinni einnig. Það er hins vegar ljóst, að greiðslur fyrir þetta hafa verið litlar. Ein ástæðan er efalítið sú, að það koma ekki til réttar greiðslur fyrir efnið. Verð neytenda á því, sem er ofureðlilegt, á því eftir að hækka á næstunni. En spá mín er sú, að þessi þróun eigi eftir að halda áfram og það sé með engum hætti hvorki æskilegt né gerlegt að löggjafinn sé að setja hindranir í þessu efni, miklu skynsamlegra væri að setja slík heimildarákvæði í lög sem hér er lagt fyrir þessa nefnd, en jafnframt efalítið að þyrfti að setja ýmis önnur ákvæði í slík lög. Það eru ákvæði sem t. a. m. reistu skorður við misnotkun hvers konar, kannske pólitískri misnotkun, ákvæði um með hverjum hætti eða hvort megi nota auglýsingar og margháttuð önnur ákvæði jafnframt.

Almennt talað tel ég mjög óskynsamlegt ef löggjafinn ætlaði að reyna að snúast gegn þessari þróun, að ég ekki tali um ef hugmyndir kynnu að vera uppi um að dæma þetta ólögmætt og stíga ofan á þá þróun sem átt hefur sér stað. Af hverju væri það óskynsamlegt? Auðvitað er ekki hægt að segja annað en fólkið vilji þetta. Sá hluti fólksins, sem notar sér þessa þjónustu nú þegar, vill þetta því að annars hefðu menn ekki tekið vídeó inn á heimili sín. Það má rökleiða sem svo, að það fólk, sem vill nota þessa þjónustu, líti á það sem betri lífskjör. Hvað sem mönnum finnst um slíkt er auðvitað enginn dómari í eigin málum nema sá sem hlut á að máli.

Í umr. hér um daginn var þessi þróun kölluð ýmsum ónöfnum, kölluð „vídeóbarbarismi“, eins og hæstv. menntmrh. komst að orði. Ég segi fyrir mig, að mér þykir orðanotkun af því tagi beinlínis vera óleyfileg. Hér er um að ræða lokaðar rásir sem sumir taka við af því að þeim líkar það, aðrir þá ekki, og í slíkum efnum er enginn dómari nema sá sem nýtur. Þetta er hans mál. Þetta á að vera hans mál.

Það er staðreynd, að það hefur orðið mjög veigamikil tæknibylting í þessum efnum í þeim skilningi að þetta fyrirkomulag er að verða stöðugt ódýrara. Ég held að ég fari rétt með það, að fyrir aldarfjórðungi eða svo varð önnur tæknibylting sem sumpart er þessu lík og skyld. Hún var með tilkomu segulbanda. Þá urðu menn hræddir af ýmsum ástæðum og það skiljanlegum ástæðum og töldu að það yrði auðveldara að taka efni traustataki sem ekki tilheyrði mönnum. Mér sýnist að sá ótti, sem þá var uppi, sé að ýmsu leyti svipaður þeim ótta sem er látinn í ljós út af þessari nýju þróun. En ég held að fullyrða megi að sá ótti, sem menn létu í ljós í sambandi við segulböndin fyrir svo og svo mörgum árum eða áratugum, hafi reynst vera gersamlega ástæðulaus. Þau voru tækninýjung á þeim tíma, sem sumir notuðu og hafa notað og aðrir ekki, urðu hluti af hinu daglega lífi og skipta suma málí og aðra ekki. Sá mikli ótti, sem einhverjir létu í ljós á þeim tíma, reyndist vera ástæðulaus með öllu.

Það er eðlilegt að menn velti því fyrir sér, hvað verður um sjónvarpið, hið ríkisrekna sjónvarp, ef lög af því tagi sem hér er lagt til að þingkjörin nefnd semji ná fram að ganga. Hvað verður þá um hið ríkisrekna sjónvarp? Í fyrsta lagi er augljóst að einokunarréttur Sjónvarpsins verður afnuminn. En ég segi fyrir mig, vil hafa það alveg skýrt í framsöguræðu með þáltill. og er sannfærður um að það er einnig vilji annarra flm. að henni, að Ríkisútvarpið — sjónvarp kemur auðvitað til með að hafa mjög veigamiklu hlutverki að gegna. Það kemur til með að vera hinn drottnandi fjölmiðill sem Sjónvarpið á sviði sjónvarps, þó ekki væri nema af þeirri einföldu ástæðu að það nær um landið allt. Það verður hinn eini fjölmiðill af þessu tagi sem væri landsmiðill. Ég hygg að það sé hollt að Sjónvarpið fái samkeppni frá þeim litlu fyrirtækjum sem gert er ráð fyrir. Nú þegar hefur raunar borið á því, að slík samkeppni hafi verið af hinu góða, því að sýndar eru aukakvikmyndir í ríkissjónvarpinu seint á laugardagskvöldum,

Ég vil að það sé alveg ljóst, að Sjónvarpið nýtur auðvitað margháttaðra forréttinda eins og það er nú. Ríkisvaldið getur á hverjum tíma aukið til þess fjárveitingar, gert því auðveldara að starfa. Þó svo að lög verið sett, sem auðveldi þessa þróun, er það ekki hugsað til að draga úr Ríkisútvarpi — Sjónvarpi, ekki til þess að draga úr sjónvarpinu eins og það er nú, heldur þvert á móti til að auka því heilbrigða samkeppni. Ríkisvaldið hefur það í hendi sér á hverjum tíma, hversu miklu fjármagni það ver til þeirrar stofnunar, hvernig það hagar hennar gjaldskrá og öðru slíku.

Ég vil gera það að mínum lokaorðum í framsögu fyrir till., að þessum hugmyndum er vitaskuld ekki stefnt gegn Sjónvarpi. Þessu nýja fyrirkomulagi er ætlað að vinna við hliðina á því. Ég hygg að það sé hugmynd flm. allra, að hið ríkisrekna sjónvarp muni um næstu framtíð a. m. k. bera höfuð og herðar yfir þessi litlu fyrirtæki, en engu að síður sé bæði hollt og heilbrigt að hin nýja fjölmiðlavæðing starfi við hlíð hins ríkisrekna sjónvarps.

Herra forseti. Ég vil svo að lokum leggja til að umr. um þessa till. til þál. verði frestað og hinni í millitíðinni vísað til allshn.