26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1128 í B-deild Alþingistíðinda. (899)

103. mál, sjónvarp einkaaðila

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ekki efast ég um góðan hug þeirra hv. þm. sem eru flm. að þessari till. Hins vegar finnst mér nokkuð á það skorta að þetta mál hafi verið hugsað til hlítar. Í tillgr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skipa nefnd fulltrúa þingflokkanna um sjónvarp á vegum einkaaðila — vídeó — sem hafi að markmiði að breyta útvarpslögum þannig að a) ótvírætt sé heimilt að senda sjónvarpsefni eftir lokuðum rásum gegn greiðslu“ hér hnaut ég um vegna þess að mér sýnist ekki alveg ljóst hver eigi að greiða hverjum hvað og með hvaða hætti —„og b) að tryggt sé að sanngjarnar greiðslur komi til eigenda höfundaréttar.“

Þetta er auðvitað sjálfsagt og eðlilegt. En eigi að skipa nefnd til að vinna að þessu máli held ég að hún þurfi, eins og frsm. vék raunar aðeins að, að fjalla um ótal margt fleira og þá kannske fyrst og fremst um hvaða skilyrðum þeir aðilar þurfi að fullnægja, sem leyfi fá sem einkaaðilar, eins og það er orðað hér, til að reka sjónvarp, og í öðru lagi um hvernig tryggja eigi aðild almennings, þ. e. aðild neytenda, að slíku sjónvarpi. Mér finnst að það hljóti að vera eitt meginatriði þessa máls hvernig hinum raunverulegu notendum verði tryggð aðild að slíku sjónvarpi.

Raunar held ég að till. sem þessi sé ekki ákaflega brýn nú vegna þess að svo vill til að á rökstólum situr nefnd sem þingflokkarnir tilnefndu fulltrúa í á næstliðnu sumri og hefur það markmið að endurskoða útvarpslögin. Þessi nefnd hefur þegar starfað töluvert mikið. Mér er kunnugt um það þó að ég eigi ekki sæti í henni. Ég hef áður vikið að því í umr: í Sþ., að eðlilegasta leiðin væri að þessi nefnd, sem fulltrúar allra þingflokka eiga sæti í, tæki í sinni endurskoðun á útvarpslögunum þetta verkefni sérstaklega út úr og f jallaði um það. Ég held að það verði það sem gerast muni í þessu efni.

Í grg. með þessari till. er látinn í ljós vafi á því, hvort sá svokallaði „sjónvarpsteksur“, sem nú er, sé lögbrot. Ég held að um það þurfi ekki að fletta neinum blöðum eða fara í neinar grafgötur. Auðvitað er það lögbrot. Ég tel mig hafa orðið mjög áþreifanlega varan við að fólk, sem notfærir sé þetta, vill að um það verði settar reglur. Það vill ekki vera lögbr jótar. Það vill ekki vera þ jófsnautar og vill ekki vera lögbrjótar. Þess vegna er auðvitað mjög brýnt að um þetta verði settar reglur. En mér finnst það ekki eiga að leiða af sjálfu að settar verði reglur um að þessi rekstur heldi áfram eins og hann er. Ég tel að það þurfi að setja mörg og margvísleg skilyrði um hvernig að slíkum rekstri skuli staðið, fyrst og fremst til þess að tryggja hagsmuni almennings. Það á auðvitað að vera það sem haft er að leiðarljósi.

Enn má á það benda, að í hv. Nd. hefur verið flutt frv. um héraðsútvarp sem gerir ráð fyrir að einkaréttur Ríkisútvarpsins verði afnuminn. Nú er ég raunar sannfærður um að einkaréttur Ríkisútvarpsins til útvarps er úr sögunni. Hann er úr sögunni af margvíslegum tæknilegur ástæðum og verður aldrei endurheimtur. En vel að merkja: Það frv., sem nokkrir þm. Alþfl. í Nd. hafa flutt um héraðsútvarp, á einnig við um sjónvarp vegna þess að skilgreining laganna á orðinu útvarp er sú, að það tekur bæði til þess, sem kallað er hljóðvarp- og ég hef aldrei getað fellt mig við það satt að segja vegna þess að í mínum huga þýðir hljóðvarp allt annað, og það tekur líka til sjónvarps. Ég held að þar séu ákvæði sem mjög séu athugunarverð varðandi það, hvernig að þessu skuli standa.

Það hefur verið vikið að því, að þar sem þessi þjónusta er á boðstólum sé öllum frjálst hvort þeir vilji taka þátt í eða vera áskrifendur að þessum einkarekstri eða ekki. Því miður held ég að það sé staðreynd, að í Breiðholtinu t. d., þar sem þetta er hvað algengast í fjölbýlishúsum, skapist alls konar óeðlilegur og mjög óæskilegur þrýstingur á þá aðila í fjölbýlishúsunum sem eru ófúsir að gerast áskrifendur að þessu. Ég veit dæmi þess, að fólk hefur orðið fyrir verulegu aðkasti af þeim ástæðum vegna þess hvað þessi starfsemi einmitt er öll löglaus og skipulagslaus. Sú hlið á þessu máli er því vissulega einnig athugunarverð.

Hv. frsm. vék að því áðan, að menn hefðu haft þungar áhyggjur af því þegar segulbönd komu fram á sjónarsviðið. Það er alveg rétt. Þær áhyggjur hafa með vissum hætti reynst mjög rökstuddar og það reyndist mjög rík ástæða til að hafa þær áhyggjur. Það er geysilega erfitt vandamál, sem tæknimönnum nútímans hefur ekki tekist að ráða bót á, hvernig eigi að koma í veg fyrir ólöglega fjölföldun efnis á segulböndum hvort sem það er klassísk tónlist, kennsluefni eða popptónlist. Það hefur ekki tekist að finna neina aðferð til að koma í veg fyrir ólöglega fjölföldun af þessu tagi. Mun vera talið að um það bil helmingur af öllum tónkasettum og hljómplötum, einkum af popptónlist, sem seldar eru í Bretlandi, sé falsaður. Tónverkaþjófar hirða milljónir sterlingspunda á hverju ári með þessari ólöglegu iðju sinni. Alveg það sama á við varðandi ólöglega fjölföldun á myndefni á kasettum. Hér hefur það viðgengist, að heilar dagskrár heil kvöld hafa verið teknar upp úr sjónvarpsstöðvum erlendis og sendar hér um lokuð sjónvarpskerfi. Að vísu viðurkenna þeir, sem reka hið stærsta þessara kerfa núna, að þeir séu hættir þessu. En auðvitað er þetta dæmi um fáheyrða ósvífni og hreinan þjófnað.

Það er auðvitað rétt, að það er tæknibylting sem hefur átt sér stað og er að eiga sér stað. Við sjáum í rauninni minnst af henni enn þá þó að þetta sé orðið svona. Í allmörgum borgum Bandaríkjanna er það orðið þannig, að þeir, sem eru þátttakendur í svona kaplasjónvarpi, hafa möguleika á að senda skilaboð heiman frá sér til baka til stöðvarinnar, m. a. um hvað þeim finnst um það efni sem er á boðstólum. Sjónvarpið er því ekki lengur einstefnufjölmiðill, heldur er þar orðið um tvístefnu að ræða. Þetta er auðvitað feiknalega athyglisvert.

Hér segir í grg., með leyfi forseta: „Framtíðin verður væntanlega sú, að hið nýja sjónvarp verður rekið af einstaklingum í titlum einingum.“Ég held að svo verði ekki. Ég held að það orki mjög tvímælis að fá einstaklingum þennan rétt án þess að þar séu um miklar takmarkanir að ræða, eins og t. d. er í Bandaríkjunum. Í því frelsisins landi, sem margir kalla, gilda afar strangar reglur og skilyrði um hverjir fá að reka slíkt. Ég held að það sé miklu frekar að þarna komi til greina félagasamtök. Af tæknilegum ástæðum verður hér aldrei, held ég, um mikinn fjölda lítilla eininga að ræða. Tæknin segir til um það. Þegar menn þurfa að fara að greiða öll þau gjöld, sem lög segja til um að greiða skuli af efni sem flutt er með þessum hætti, bara svo nefnd séu STEF-gjöld, fyrir utan greiðslu til annarra þeirra sem réttindi kunna að eiga, held ég líka að fjárhagsgrundvöllur slíkra fyrirtækja verði ákaflega erfiður. Sjálfsagt verður það þróunin að margir fara af stað, eins og gjarnan er, að margir verði kallaðir, en ég hygg að það verði líka þróunin að tiltölulega fáir verði útvaldir. Þá held ég að skipti afskaplega miklu málí að ýmis heildarsamtök almennings eigi þarna aðild að. Þá neita ég því ekki, að mér detta fyrst í hug samtök eins og Alþýðusamband Íslands, Verkamannasamband Íslands, Bandalag starfsmanna ríkisins og bæja, Neytendasamtökin og ótal mörg önnur samtök almennings. Ég held að það væri ákaflega illa farið ef samtök. kaupsýslumanna og þeirra, sem fjármagninu ráða fyrst og fremst yrðu allsráðandi á þessu sviði.

Það er sem sagt mín skoðun, að þessa till. hefði þurft að grunda töluvert betur. Það hefði þurft að orða með öðrum hætti sjálfa tillgr., þótt ég efist ekki um þann hug sem liggur að baki hjá flm., en þar að auki held ég að því verkefni, sem þessari till. er ætlað að sjá um að sinnt verði, sé þegar sinnt í þeirri nefnd sem þingflokkarnir eiga fulltrúa í og fjallar um endurskoðun útvarpslaga.