26.11.1981
Sameinað þing: 27. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (900)

103. mál, sjónvarp einkaaðila

Flm. (Vilmundur Gylfason):

Herra forseti. Ég þakka hv. 5. þm. Vesturl. fyrir málefnalega umfjöllun um þessa till. Ég hygg þó að það sé ekki alveg nákvæmt að segja að þessi till. til þál. sé ástæðulaus þar sem þegar sé verið að sinna þessu verkefni. Það, sem skilur þessa till. frá þeirri vinnu sem þegar á sér stað, er sú einfalda staðreynd, að sú nefnd, sem hv. þm. nefndi, hefur engin fyrirmæli um hvað henni er ætlað að gera. Er henni ætlað að banna þetta — eða eru það fyrirmæli að hér sé um að ræða „barbarisma“, eins og svo smekklega var komist hér að orði af hæstv. ráðh. í umr. fyrir nokkrum dögum? Hér er verið að leggja til að Alþingi gefi nefnd — annað hvort nýrri nefnd eða að till. verði breytt og þessum fyrirmælum beint til þeirrar nefndar sem þegar situr, ekki mundi það skipta mig neinu máli — fyrirmæli um að stefnumörkun eigi sér stað í þessum efnum. Það er mismunurinn.

Hér fóru fram fyrir ekki mörgum dögum ítarlegar umr. um þessi efni þar sem hver hv. þm. á fætur öðrum reis upp og talaði um þjófa og þjófsnauta, lögbrjóta og brýndi hæstv. dómsmrh. á því að láta til skarar skríða. Af hverju á Alþingi er vera í óvissu um þessi mál og þar með þjóðfélagið allt? Hér situr undir gersamlega stefnulausum menntmrh. og lítt skörulegum nefnd sem ég hef ekki hugmynd um hvað er að vinna. Er hún að leggja til að þetta verði allt bannað eða allt leyft — eða hvað er hún að gera? Það er þetta sem er málið og það sem í þessari till. felst. Það skiptir ekki máli hvort hér er um að ræða nýja nefnd eða skipanir til nefndar þeirrar sem er þegar skipuð. Það er algert aukaatriði í málinu. Það er verið að leggja til að Alþingi lýsi skoðun sinni á þessum efnum. Þeir fimm þm., sem að þessari till. standa, eru þeirrar skoðunar, að lögunum skuli breyta í þá veru að gert sé ótvírætt heimilt að sjónvarpa með þessum hætti, höfundaréttur, bæði peningalega og í öðru tilliti, sé umfram allt tryggður. Það er grundvallarbreytingin í þessari till. umfram það sem þegar hefur verið gert í þessum efnum. Það er þetta sem mér finnst vera kjarni málsins.

Að því var vikið að óskýrt væri í till. hverjum ætti að greiða hvað. Mér finnst það ekki vera. Það er augljóst að það eru neytendur og notendur sem greiða sendendum. Það er það sem lagt er til að heimilað verði.

Hins vegar komu margar mjög nýtar ábendingar fram hjá hv. 5. þm. Vesturl. Í fyrsta lagi að það ætti að vera verkefni slíkrar nefndar, eins og hann orðaði það, að ég held, að tryggja aðild neytenda. Þetta er auðvitað mjög gott að gera með skynsamlegum hætti. En ég leyfi mér hins vegar að draga í efa að mörg af þeim samtökum, sem nefnd voru, mundu verða miklu lýðræðislegri en markaðurinn býður upp á. En það er annars konar félagslegt vandamál sem þar er við að etja. Segjum svo að Dagsbrún í Reykjavík fengi einkaleyfi til að reka sjónvarp. Nógu víða þvælist hann nú fyrir manni, hv. 7. þm. Reykv., þó að hann yrði ekki einvaldur um sjónvarpsrekstur í Reykjavík líka. Ég leyfi mér að efast um að það færi fram mjög lýðræðislegur gjörningur í sjónvarpsefnum þó svo Dagsbrún í Reykjavík fengi einkaleyfi til að senda út sjónvarpsefni. Það er vegna þess, ekki bara í slíkum félögum, heldur er það almennur félagslegur vandi, hvernig lýðræði og ákvarðanatöku er háttað. En það er svo annað og miklu flóknara mál en hluti af svona breytingum sem orðið hafa á samfélaginu.

Hins vegar er það rétt að mjög ber að athuga með hverjum hætti hægt verði, eins og það er orðað, að tryggja aðild neytenda, hvort það eigi að setja upp einhver sérstök eignarákvæði til að tryggja að vald sé hjá fólki, — þetta „næsta lýðræði“, nærdemokrati, sem í Skandinavíu er svo nefnt.

Annað, sem hv. þm. vék að, er spurningin um litlar og stórar einingar. Nú dreg ég enga dul á það sjálfur að vera hlynntur og hrifinn af — og það ber að skilja sem heimspekilega afstöðu um þjóðfélagsmál — hinum litlu einingum og tel að lög eigi að hníga að því að vernda þær gegn stórum einingum. Vel má hugsa sér að setja einhver stærðarmörk í þessum efnum, hvað þetta megi ná til margra eða eitthvað slíkt. Allt af þessu tagi ætti nefnd vitaskuld að athuga, og allar ábendingar af þessu tagi eru af hinu góða. (Gripið fram í.) Ég skil áhyggjur hv. þm. Ég hef oft líka áhyggjur af vinum mínum. — En kjarni málsins er sá í þessum efnum, að það, sem er verið að leggja til hér og er öðruvísi en lagt hefur verið til áður, er að Alþingi kveði upp úr með það hið fyrsta, hvað séu lög í landinu að því er þetta varðar. Þetta er ekki í fyrsta eða eina skiptið sem breytingar á samfélagsháttum eða breytingar í tækniefnum hlaupa einfaldlega fram úr lögum í landinu. Tæknin breytist og samfélagið breytist. Lög, sem standa, eru gersamlega úrelt af þessum ástæðum. Þá má löggjafinn ekki standa uppi sem nátttröll væri með steinbarn í maganum og neita að horfast í augu við að samfélagið breytist í þessum efnum. Hvað sem okkur finnst um svokallaðan einkarétt Ríkisútvarps, og er bæði átt við hljóðvarp — ég vil taka undir með hv. þm. að það er vont orð — og sjónvarp, þá er tæknin að gera þennan einkarétt að engu. Það er ekki aðeins verið að tala um það í þessum efnum. Það er verið að tala um það vegna sendinga frá útlöndum af ýmsu tagi að tæknin sé að breyta þessu.

Ég er þeirrar skoðunar, að ekkert hafi unnið eins með þeim, sem minna mega sín, bæði á hinu efnalega sviði og því menningarlega sviði, og tæknilegar framfarir. Hér er um að ræða tæknilegar framfarir sem bæta lífskjör neytenda, launafólksins, almennings. Það eru bætt lífskjör að geta valið á milli margra kvikmynda í staðinn fyrir að vera gert að horfa á eina. Það er lífskjarabati sem í því felst. Afstaða Alþingis á ekki að vera sú að snúast gegn þessu, heldur að vinna með þessari þróun og láta þessa þróun vinna með sér til heilla fyrir fólkið í þessu landi.

Ég endurtek að það, sem hér er verið að leggja til og ekki hefur verið lagt til áður, er að Alþingi lýsi hið fyrsta yfir vilja sínum um að það geri lögin í landinu þannig úr garði að það sé ljóst, hvort hér sé um að ræða lögbrot eða ekki, og svo hitt, að það lagi lögin í landinu að þessari nýju þróun, bæði til þess að leyfa það, sem það vill leyfa, og endilega að hafa hemil á hinu sem það telur vera óæskilega þróun. Ef ekkert verður að gert og ef þær nefndir, sem nú hafa verið skipaðar, draga störf sín á langinn — enginn veit hvenær þær koma til með að skila og hverju þær koma til með að skila — getur þetta orðið naglfast í sérhverju byggðarlagi á landinu og jafnvel um alla höfuðborgina. Hvað ætla menn þá að gera? Á að eyðileggja gífurlegt verðmæti með því að rífa þetta upp með rótum? Það getur ekki verið æskileg þróun. Þess vegna skiptir máli að hafa snar handtök í þessum efnum.

Hér var að því vikið, að í grg. segði að um það mætti deila, hvort hér væri um lögbrot að ræða eða ekki. Það, sem ég hef fyrir mér í þeim efnum, eru samtöl við æðimarga, m. a. lögfræðinga, þar um, og ég hef orðið var viðskiptar skoðanir um margt í þeim efnum. M. a. er deilt um skilgreiningu á hvort um sé að ræða mismunun, m. ö. o hvort einkaréttur t. d. sjónvarps eigi einungis við um opna kerfið, en á hinn bóginn sé eðlismunur hér á vegna þess að um lokáðar rásir sé að ræða. Um þetta felli ég engan dóm, hvorki kann ég það né hef neinar aðstæður til þess. En Alþingi verður að kveða upp úr með það, það eitt getur gert það, hvað eigi að vera lög í landinu og hvað ekki.

Herra forseti. Ég vil ekki tefja þessa umr. meira, en legg enn og aftur áherslu á að enn sem komið er hafa engar stefnumarkandi ákvarðanir eða ályktanir af einu eða neinu tagi komið frá valdhöfum í þessu efni, eins og var vikið að áðan. Við getum orðað það svo, að þúsundir og aftur þúsundir manna í landinu búa í óvissu um hvort þær séu þjófar eða þjófsnautar eða ekki. Það getur ekki verið vilji eða ætlun Alþingis að láta það óvissuástand vara lengi. Ef ekkert verður að gert og einasta þessar nefndir halda áfram að starfa undir hæstv. ráðh., þá held ég að ég vísi til nokkurrar reynslu í þeim efnum. Það gæti nú tekið tímann sinn að eitthvað kæmi þaðan. Þess vegna er þessi till. flutt, að Alþingi, sem er annað en framkvæmdavaldið í landinu, lýsi hið fyrsta yfir vilja í þessum efnum og haldi svo áfram og breyti lögunum í þann farveg sem það vill. Ég hygg að skynsamlegast væri að gera það í þann farveg sem lagt er til í þessari till. í tveimur liðum, en að sjálfsögðu er ýmislegt fleira sem taka þarf tillit til, og ég hygg að flestar skynsamlegar ábendingar hafi komið fram um það í þessari umr.