30.11.1981
Neðri deild: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1144 í B-deild Alþingistíðinda. (908)

99. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Menntmrh. (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Það hefur ekki verið venjan fram undir þetta að leggja tekjuskatt og eignarskatt á félagsheimili, en nú er að hefjast, að því er virðist, sá háttur hjá ýmsum skattstjórum, að þessar stofnanir skuli vera skattskyldar. Ég ætla ekki að deila við skattstjóra um það, hvernig skilja beri lög um tekjuskatt og eignarskatt. Það er ekki ástæða til að standa í slíkum deilum hér, þó að ég verði að telja að hér sé kannske seilst helst til langt, miðað við þá venju sem ríki hefur allt frá því að félagsheimilalög voru samþykkt fyrir meira en 30 árum.

Ég skil þetta frv. þannig, að það sé flutt til þess að taka af öll tvímæli um það, hvort félagsheimili séu skattskyld eða ekki, og að því leyti til verð ég að telja að frv. sé tímabært og flutt af eðlilegum ástæðum. Ég hygg að það sé ekki eftir miklu að slægjast fyrir ríkissjóð í þessu sambandi. Hins vegar munar ýmis félagsheimili vafalaust mjög um þann skatt sem á er lagður, eins og fram hefur komið hér í máli hv. 1. flm., þannig að ég held að það sé nú einboðið að rétt sé fyrir Alþingi að taka þarna af öll tvímæli og samþykkja frv. af þessari gerð, frv. sem gerir ráð fyrir, svo að ljóst sé að félagsheimili séu ekki skattskyld.

Þetta mál gengur að sjálfsögðu sína leið gegnum þingið. Ég vænti þess, að því verði vel tekið og jákvætt eins og það er fram borið hér og eins og það hefur verið túlkað af hv. 1. flm.