30.11.1981
Sameinað þing: 29. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (921)

21. mál, votheysverkun

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég flyt þessa þáltill. ásamt þm. Agli Jónssyni, Eyjólfi Konráð Jónssyni, Pétri Sigurðssyni, Steinþóri Gestssyni, Eggert Haukdal, Jósef H. Þorgeirssyni, Vigfúsi Jónssyni og Matthíasi Á. Mathiesen. Hér er lagt til að Alþingi feli ríkisstj. að beita sér fyrir tilteknum ráðstöfunum til að stuðla að almennari votheysverkun en nú er.

Ég ætla ekki hér að fara að tíunda kosti votheysverkunar. Það er gert ítarlega í grg. með þáltill. þessari. Ég geri ráð fyrir að þm. þekki almennt kosti votheysverkunar. Með votheysverkun fá bændur öryggi svo sem frekast er unnt gegn duttlungum tíðarfarsins. Votheysverkun tryggir fóðuröflun í þurrkatíð. Votheysverkun firrir bændur áföllum og fjárhagstjóni, sem þeir verða fyrir á óþurrkasumrum sem ekki hagnýta þessa aðferð. En votheysverkun er ekkert neyðarurræði til að mæta óþurrkum, þvert á móti. Auk öryggisins, sem þessi heyverkun veitir um fóðuröflunina, fylgja aðrir hinir mikilhæfustu kostir.

Votheysverkun tryggir fóðurgildi heyfengsins hvað sem líður tíðarfarinu. Þá krefst votheysverkun miklu minni vélakosts en þurrheysverkunin. Þurrheysverkun fylgir miklu meiri umferð um túnin auk þess sem galtar sitja tímunum saman á túnunum og valda skemmdum. Votheysverkun krefst minni vinnu en þurrheysverkun. Votheysverkun tryggir ekki einungis búpeningi hollt fóður, heldur eru og þeir menn, sem vinna við fóðrunina, firrtir óhollustu þeirri sem fylgir þurrheysfóðrun.

Með tilliti til þessa er það ámælisvert, hversu treglega hefur gengið að útbreiða votheysverkunina í landinu. Ekki eiga þó allir bændur landsins sammerkt í þessu efni. Um langt árabil hafa sumir bændur verið svo óháðir veðurfari um heyfeng sem verða má. Öll eða nær öll heyverkun þeirra hefur verið í vothey. Þess eru dæmi, að allir bændur í heilum byggðarlögum verki hey sín í vothey, svo sem í Strandasýslu og á Ingjaldssandi í Vestur-Ísafjarðarsýslu, en árið 1980 verkuðu Strandamenn 77.7% af heyfeng sínum í vothey. Samt sem áður er ástand þessara mála með öllu óviðunandi þegar litið er á landið í heild. En votheysverkun er ekki skilyrðislaust öruggasta og ódýrasta og fyrirhafnarminnsta heyverkunaraðferðin. Til þess að svo megi verða þurfa bændur að sérhæfa sig og aðstöðu sína í vélakosti og byggingum til votheysverkunar. Það þarf nægar haganlegar votheysgeymslur, réttan tækjabúnað og rétta meðhöndlun. Til þess að stuðla að þessu bar ég fram þáltill. árið 1976 svipaðs eðlis og þessi er. Þessari till. var þá vel tekið og samþykkt sem ályktun Alþingis. Stéttarsamband bænda lýsti þá yfir ákveðnum stuðningi við ályktun þessa og það kom fram jákvæð afstaða frá Búnaðarfélagi Íslands. Ég gerði mér vonir um að þegar svo væri í pottinn búið mundi verða áþreifanlegur árangur af þessari ályktun Alþingis. En ég verð að segja, að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum í þeim efnum.

Þrátt fyrir þessa samþykki Alþingis hefur lítið sem ekkert, alls ekkert, áunnist. Árið 1975 var vothey 8.4% af heildarheyfeng landsmanna, en árið 1980 8.6%: 8.4% 1975 og 8.6% 1980. Tregðulögmálið um að taka upp bætta búskaparhætti hefur hér reynst sterkt. Það er fróðlegt að athuga nokkru nánar stöðu þessara mála á tímabilinu 1975–1980. Er þá rétt að líta á hina einstöku landshluta.

Á Reykjanessvæðinu var hlutur votheys 6.6% árið 1975, en er kominn niður í 5.4% árið 1980. Á Vesturlandi var hlutur votheys 1975 11.4% en 11.9% árið 1980. Vestfirðir voru 1975 með 33% í vothey, en höfðu náð árið 1980 42.2%. Norðurland vestra var 1975 með 72%, en 1980 með 7.5% í vothey. Norðurland eystra var 1975 með 3.7%, en 1980 4.4% í vothey. Austurland var 1975 með 4.2%, en 1980 með 5.2% í vothey. Suðurland var 1975 með 8.2% í vothey, en er með aðeins 6.3% árið 1980.

Þetta er ömurleg upptalning. Það er naumast ljós glæta í þessum efnum nema auðvitað á Vestfjörðum. Vestfirðingar bera af í þessum efnum eins og í mörgum öðrum. Þó eiga ekki allir Vestfirðingar sammerkt í þessu máli. Í raun og veru er það svo, að það er Strandasýsla fyrst og fremst sem gerir hlut þeirra betri en annarra landsmanna. Strandamenn höfðu sótt langt fram í þessu efni þegar árið 1975 og verkuðu þá 54.6% af heyfeng sínum í vothey. En síðan hafa Strandamenn enn sótt fram svo mjög að árið 1980 var vothey þeirra 77.3% af heildarheyfengnum. Ég skýt því hér inn, að það er álíka hlutfall og er í nágrannalöndum okkar Noregi og Svíþjóð.

Með hliðsjón af þeim staðreyndum, sem ég hef hér vikið að, þótti okkur flm. þessarar till. til þál., sem við nú ræðum, einsætt að flytja þyrfti á ný till. á Alþingi um ráðstafanir til að stuðla að almennari votheysverkun en nú er. Þessi till. til þál., sem við nú ræðum, kveður ekki á um nefndarskipun til þess að athuga málið. Nei, alls ekki. Tillagan byggir á þeirri forsendu, að málið liggi nógu ljóst fyrir til stefnumörkunar á þann veg sem lagt er til. Með þessu er ekki verið að gera lítið úr rannsóknum. Almennar rannsóknir á heyverkunaraðferðum eru sjálfsagðar og raunar stöðugt verkefni Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. En slík starfsemi má ekki koma í veg fyrir eða tefja eðlileg viðbrögð við reynslu sem þegar liggur fyrir. Flm. vilja aðgerðir eða framkvæmdir til að efla votheysverkun og benda á leiðir til þess.

Í fyrsta lagi er lagt til að bændum verði kynnt reynsla þeirra sem um árabil hafa byggt heyöflun sína að öllu eða að mestu leyti á votheysverkun. Hér kemur bæði til reynsla, sem fengist hefur hér á landi, og reynsla, sem er að fá erlendis frá. Aðferðir til kynningar á þessari reynslu geta að sjálfsögðu verið með margs konar hætti. Má þar nefna útgáfu upplýsingarita eða bæklinga og kynnisferðir bænda. En að sjálfsögðu er mikilvægast aðstoð og ráðgjöf sérfræðinga og ráðunauta bændasamtakanna. Bændur, sem ekki hafa horfið að votheysverkun, þurfa ekki að þreifa sig áfram eða renna blint í sjóinn. Þeir geta fræðst um þessi efni hjá þeim bændum sem hafa kunnáttu og reynslu.

Í öðru lagi er lagt til að bændum séu kynntar nýjungar og tækniframfarir í votheysverkun og votheysfóðrun. Í þessum efnum sem öðrum hljóta alltaf að koma fram nýjungar og tæknilegar framfarir sem hagnýta verður. Dæmi eru til um þetta bæði hér heima og erlendis. Hér á landi hafa bændur á síðari árum tileinkað sér nýjungar og tækniframfarir við sjálfan heysláttinn og fóðurgjöf svo og gerð votheyshlaðanna, sbr. flatgryfjurnar.

Athyglisverðar eru tilraunir þær sem Einar Guðjónsson í Bjargi hefur gert með votheysverkun. Frá árinu 1968 hefur hann unnið að tilraunum til að gera gras geymsluhæft í lofttæmdum grasgeymslum. Þessi grasverkunaraðferð er ekki ný. Hún hefur verið framkvæmd bæði í Nýja-Sjálandi og á Englandi og raunar víðar. Verkunaraðferð þessi er því viðurkennd og hefur gefist mjög vel þar sem heppilegri tækni hefur verið komið við um heygeymslur og aðferðir við lofttæmingu. Einar hefur unnið að því að samlaga þessa aðferð íslenskum aðstæðum. Nú hefur landbrn. viðurkennt þetta verk með því að veita Einari nokkurn styrk til tilraunar hans.

Í þriðja lagi gerir þáltill. þessi ráð fyrir að hærri stofnlán og framlög verði veitt til byggingar votheyshlaða en þurrheyshlaða. Ég sagði áðan að lítill árangur hefði orðið af samþykkt þáltill. þeirrar sem ég bar fram um votheysverkun árið 1976. Frá árinu 1976 hafa lánveitingar úr Stofnlánadeild landbúnaðarins numið 55% af kostnaðarverði þurrheyshlaðna, en 40% af kostnaðarverði votheyshlaða. Áður var lánshlutfallið 55% út á þurrheyshlöður, en 50% út á votheyshlöður, en styrkir hækkuðu verulega út á votheyshlöður á þessum árum.

Það er mjög fróðlegt að líta á lánveitingar út Stofnlánadeild landbúnaðarins út á heyhlöður, annars vegar votheyshlöður og hins vegar þurrheyshlöður, hvað lánað hefur verið út á margar hlöður af hvorri tegund um sig, hvað lánveitingar hafa numið hárri upphæð og hvaða hlutfall hvor tegundin um sig hefur haft af heildarlánveitingum til heyhlaðna. Þegar þetta er athugað kemur í ljós að árið 1975 var lánað út á 33 votheyshlöður, samtals 33 millj. 196 þús. kr. eða 20.8% af heildarlánveitingum til heyhlaðna. Lánað var út á 126 þurrheyshlöður samtals 149 millj. 7 þús. kr., sem nam 79.2% af heildarútlánum. Árið 1976 voru samsvarandi tölur: 27 votheyshlöður, 40 millj. 866 þús. kr. eða 25.2% til votheyshlaða, en 80 þurrheyshlöður 154 millj. 441 þús. kr. og hlutfallið 74.8%. Árið 1977 er um að ræða 58 votheyshlöður samtals 135 millj. 290 þús. kr. að hlutfalli 33.7% til votheyshlaða, en 114 þurrheyshlöður samtals 261 millj. 980 þús. kr. að hlutfalli 66.3%. Árið 1978 er um að ræða 56 votheyshlöður með samtals 123 millj. 907 þús. kr., er nemur 39.4% til votheyshlaðanna, en 86 þurrheyshlöður með samtals 263 millj. og 17 þús. kr., er nam 60.6% af heildarlánveitingum. Fyrir árið 1979 eru samsvarandi tölur 24 votheyshlöður samtals 88 millj. 872 þús. eða til votheyshlaðanna 29.6% af heildarlánveitingum, en 57 þurrheyshlöður og 238 millj. 938 þús. kr. eða 70.4% af heildarlánveitingum. Loks er á árinu 1980 um að ræða 18 votheyshlöður með samtals 88 millj. 270 þús. kr. lánum, sem nemur 34.6% til votheyshlaðanna, en 34 þurrheyshlöður með samtals 217 millj. 692 þús. kr., eða sem svarar 65.4% af heildarlánveitingunni.

Af þessu má draga þá ályktun, að þróunin hafi verið hagstæð fyrir votheyshlöður á þessu umrædda tímabili að því er varðar sjálfar lánveitingar Stofnlánadeildarinnar. Þar hefur heldur miðað í rétta átt. Þó er þess að geta, að hlutur votheyshlaða kom best út árið 1978, en hefur síðan hrakað borið saman við þurrheyshlöður.

Auk lána Stofnlánadeildarinnar koma til ríkisframlög til heyhlaðna. A. m. k. síðan 1969 hafa ríkisframlögin til votheyshlaða verið hærri en til þurrheyshlaðanna. Styrkir til þurrheyshlaðna námu árið 1980 12.31 nýkr., en til votheyshlaða 41.04 nýkr. á hvern rúmmetra. Samtals námu framlög til þurrheyshlaðna árið 1979 626 þús. 134 nýkr., en til votheyshlaða 836 826 nýkr. Samsvarandi tölur fyrir árið 1980 voru 898 765 nýkr. til þurrheyshlaðna, en 1 083 990 nýkr. til votheyshlaða. Árið 1980 námu þessir styrkir að því er varðar þurrheyshlöður 3.8% af heildarstyrk samkv. jarðræktarlögum, en að því er varðar votheyshlöður 4.6%.

Ég hef hér gert nokkurn samanburð á lánveitingum og styrkveitingum til bygginga á þurrheyshlöðum og votheyshlöðum. En sá samanburður segir ekki söguna alla, og bið ég nú hv. þm. að taka vel eftir. Hér þarf að taka með í reikninginn súgþurrkun og aðstoð við bændur til að koma upp súgþurrkunarkerfi. Ríkisframlag til súgþurrkunarkerfis nam árið 1980 112.86 nýkr. á hvern fermetra hlöðu. Styrkir geta verið veittir í þrennu lagi: á súgþurrkunarkerfi, á blásara og á aflvél, þ. e. þegar viðkomandi eining er sett upp. Opinberar aðgerðir hafa síðustu árin beinst mest að þeim þætti að koma upp súgþurrkun með föstum blásara. Fé, sem sparast hefur vegna samdráttar í jarðræktarframkvæmdum, hefur m. a. verið notað til aukaframlags út á súgþurrkunina sem nemur 20% og 65% af kostnaði við jarðstreng. Heildarframlög til súgþurrkunarkerfis námu á árinu 1979 1 683 867 nýkr. og árið 1980 1 454 938 nýkr. eða sem svarar 6.1% af heildarstyrk samkv. jarðræktarlögum.

Af því, sem ég hef nú sagt, er ljóst að hafa verður súgþurrkun í huga þegar metið er hvort af opinberri hálfur hefur verið stuðlað að aukinni votheysverkun í landinu. Ég hef fengið samanburð frá Búnaðarfélagi Íslands á kostnaði og fjármögnun annars vegar á þurrheyshlöðum og hins vegar á votheyshlöðum eins og málin standa nú. Þar er um að ræða þurrheyshlöðu annars vegar 1000 rúmmetra að stærð, 170 fermetra að flatarmáli með 800 rúmmetra stabba. Þar er gert ráð fyrir súgþurrkunarkerfi með vélum. Hins vegar er votheyshlaða sem er líka 1000 m3 að stærð. Þar er gert ráð fyrir 400 m3 stabba af votheyi. Hér er um sambærilegar stærðir að ræða. Tilgreindur er í þessum samanburði byggingarkostnaður í báðum tilfellum og fjármögnun, bæði lán og framlag svo og eigið fjármagn. Ég ætla ekki að fara að lesa upp þessar tölur, en læt mér nægja að skýra frá niðurstöðum þessa samanburðar Búnaðarfélagsins, en hann er jafnframt aðalatriði varðandi það sem ég hef hér verið að ræða um.

Samkv. þessum samanburði nema lán Stofnlánadeildar landbúnaðarins og ríkisframlög samtals 66.7% af kostnaði þurrheyshlaðna, en einungis 54% af votheyshlöðum. Hér er reiknað með flatgryfju. Turnar munu koma eitthvað betur út fjárhagslega en flatgryfjur. En það eru flatgryfjurnar sem máli skipta eins og mönnum mun vera kunnugt. Þetta kemur í ljós þegar málin eru athuguð niður í kjölinn. Bæði ég og ýmsir aðrir, sem ég veit um, hafa haldið að af opinberri hálfu væri gert eitthvað raunhæft til að auka votheysverkunina. Þegar öll kurl koma til grafar kemur í ljós að það er þveröfugt. Það verður ekki um það deilt, að opinberar ráðstafanir hafa ekki stuðlað að því að hvetja bændur til votheysverkunar, nema síður sé. Það er því ekki að ófyrirsynju að þáltill. þessi, sem hér er lögð fram, leggi til opinberar aðgerðir til að gera bændum hægara um vik að byggja votheyshlöður en þurrheyshlöður.

Að lokum og í fjórða lagi gerir till. þessi til þál. ráð fyrir að veitt verði sérstök stofnlán og framlög til að breyta þurrheyshlöðum í votheyshlöður. Slíkt hefur mikla þýðingu. Í mörgum tilfellum er hægt að breyta hlöðum, sem upphaflega voru gerðar fyrir þurrheysverkun, svo að í þeim megi verka vothey. En slíkar breytingar kosta fjármagn og því er gert ráð fyrir sérstökum stofnlánum og framlögum til að gera bændum slíkar breytingar auðveldari.

Herra forseti. Þáltill. þessi, sem við nú ræðum, fjallar um mál sem er aðkallandi og þolir ekki bið. Hér er of mikið í húfi til þess að aðgerðaleysi og tómlæti megi ríkja. Hér eiga ekki hlut að máli bændur einir, heldur og neytendur almennt. Hagkvæm fóðuröflun er ekki einungis höfuðmál landbúnaðarins, heldur kemur minni framleiðslukostnaður neytendum í hag í lægra verði landbúnaðarafurða. Þjóðarbúið hefur ekki efni á öðru en tekið sé til hendi í því máli sem till. þessi til þál. fjallar um.

Herra forseti. Ég legg til að að loknum þessum fyrri hluta umr. verði till. þessari vísað til hv. atvmn.