30.11.1981
Sameinað þing: 29. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (922)

21. mál, votheysverkun

Landbrh. (Pálmi lónsson):

Herra forseti. Með till. þeirri, sem hér er á dagskrá, er hreyft mikilvægu máli. Á sama hátt og ræktun er undirstaða nútíma landbúnaðar hér á landi er fóðuröflun og fóðurverkun það sem hefur mikla þýðingu fyrir afkomu landbúnaðarins og hvers einasta bónda í landinu.

Það er ekkert vafamál, eins og fram hefur komið í framsögu 1. flm. till., að votheysverkun er öruggasta leiðin til að tryggja góða fóðurverkun. Sú staðreynd blasir hins vegar við, að votheysverkun er miklu minni hér á landi en ætla mætti, miðað við misjafnt tíðarfar og misjöfn skilyrði til þurrheysverkunar. Hvað hér veldur skal ég ekki fullyrða, og þrátt fyrir þessa staðreynd er engin ástæða til annars en að reyna að ýta undir að votheysverkun verði meira ráðandi í heyverkun og heyöflun landsmanna en raun ber vitni.

Í þessari till. er gert ráð fyrir að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að beita sér fyrir ráðstöfun til að stuðla að almennari votheysverkun en nú er. Þetta á að gera með tilteknum ráðum sem till. greinir. Það á í fyrsta lagi að kynna bændum reynslu þeirra sem um árabil hafa byggt heyöflun sína að öllu eða mestu leyti á votheysverkun.

Stofnanir landbúnaðarins hafa með höndum hvort tveggja í senn: rannsóknarstarfsemi og leiðbeiningarstarfsemi. Þær afla nýrrar þekkingar og staðreyna vísindi, sem kunna að vera þekkt erlendis, við hérlendar aðstæður. Þessi starfsemi lýtur yfirstjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins. Rannsóknastofnun landbúnaðarins fékk það verkefni fyrir fáum árum að gera sérstakt átak til að rannsaka heyverkunaraðferðir. Búnaðarfélag Íslands hefur aftur á móti yfirumsjón þeirra þátta í landbúnaðarmálum sem lúta að því að miðla þeirri þekkingu sem til staðar er og aflað hefur verið með tilraunum, með vísindastarfsemi eða á annan hátt. Ég tel að þessar stofnanir hafi ýmislegt unnið að því að kynna bændum kosti votheysverkunar, en ég get tekið undir það með frsm. og 1. flm. till., að að þessu má vinna meira en gert hefur verið. Ég get gjarnan sagt það hér, að ég tel eðlilegt að reynt sé að hafa áhrif á að þessi þekking, sem til er varðandi votheysverkun, verði kynnt bændum betur en gert hefur verið, enda þótt ég sé ekki að kasta rýrð á það starf sem hér hefur verið unnið.

Í öðru lagi er gert ráð fyrir því samkv. tillgr. að kynna bændum nýjungar og tækniframfarir í votheysverkun og votheysfóðrun. Það er ljóst að það hafa orðið nokkrar breytingar varðandi verkkunnáttu og aðferðir við votheysverkun á síðustu árum og áratugum, svo sem í öðrum framleiðslugreinum landbúnaðarins. Ég tel ekki ástæðu til að rekja þær breytingar hér. Það var sumpart gert í máli frsm. till., en það blasir við að þau mannvirki, sem nú eru víðast notuð fyrir votheysverkun, eru sum hver ákaflega dýr. Það hafa verið settar mjög harðar kröfur um öryggi þeirra bygginga sem notaðar eru til votheysverkunar. Ef til vill á þetta einhvern þátt í að halda aftur af bændum að nota þessa aðferð við heyverkun, þó um það verði ekki fullyrt. Ég vil taka undir það sem hér kom fram, að þær tilraunir, sem hafa verið í gangi á vegum einstaklings sem hér var nefndur, hafa án efa það í för með sér, að mannvirki þyrftu ekki að vera eins kostnaðarsöm og t. a. m. við venjulegar flatgryfjur. Þessa tæknilegu hlið málsins þarf einnig, eins og hér hefur verið sagt, að kynna ítarlega. Ástæða er til að stuðla að því að svo verði.

Í þriðja lagi er talað um að veita hærri stofnlán og framlög til byggingar votheyshlaða en þurrheyshlaðna og í fjórða lagi að veita sérstök stofnlán til að breyta þurrheyshlöðum í votheyshlöður.

Nú er það svo, að samkvæmt jarðræktarlögum eru veitt hærri framlög til votheyshlaða en til þurrheyshlaðna og munar þar verulega. Stofnlán eru á hinn bóginn ívið lægri til votheysgeymslna en þurrheyshlaða, enda þótt mér hafi komið nokkuð á óvart þær tölur sem hv. flm. till. greindi frá áðan, að stofnlán og styrkir vegna þurrheyshlaða gætu farið upp í 66.6% af byggingarkostnaði meðan sambærileg fjármagnsaðstoð gæti farið upp í 54% vegna votheyshlaða. samkvæmt gildandi lánareglum Stofnlánadeildar landbúnaðarins er lánað við byggingu þurrheyshlaðna allt að 55% af matsverði. Lán vegna kaupa á blásara er allt að 30% kostnaðar. Til viðbótar við þetta hafa verið veitt sérstök framlög af afgangsfé jarðræktarlaga nú í 2 ár vegna súgþurrkunar þar sem sérstaklega stendur á, þar sem verður um mjög mikinn kostnað að ræða við rafstreng vegna fjarlægðar frá spennistöð. Enn fremur er samkv. jarðræktarlögum nokkur styrkur á þurrheyshlöður. Lánareglur Stofnlánadeildar landbúnaðarins fela yfirleitt það í sér, að lán verða eigi hærri en 60% af byggingarkostnaði eða matsverði á útihúsum til sveita. Að reglurnar greina 55% af matsverði þurrheyshlöðu stafar af því, að þá er metið að framlagið samkv. jarðræktarlögum sé um 5%. Við votheyshlöður er lánað allt að um 40% af matsverði. Það stafar af því, að styrkurinn er talinn þeim mun hærri að styrkur og lán verði samtals allt að 60%. Með tilliti til þessara grundvallarforsendna sem eru ráðandi varðandi lánareglur Stofnlánadeildar landbúnaðarins, koma mér þær upplýsingar frsm. á óvart sem gáfu annað til kynna. Það er þó rétt, að í lánareglum varðandi votheyshlöður er sleginn sá varnagli, að lán verði þó aldrei hærri en sem nemi 30% umfram hámark samsvarandi þurrheyshlöðu, og gæti það í einstökum tilvikum aðeins takmarkað lánsupphæð. Lánstími er sá sami við framkvæmdirnar eða allt að 20 ár.

Ég tel að það þurfi að athuga gaumgæfilega hvort nauðsynlegt sé að haga lánareglum og framlögum þannig að þær verði samanlagt ívið hærri til votheysgeymslna en til þurrheyshlaðna. Til þess að það verði gert þarf annað tveggja til að koma: að breyta jarðræktarlögum eða breyta lánareglum Stofnlánadeildarinnar, og er eðlilegra að líta fyrst á þann þátt málsins. Ég tel að það hafi a. m. k. ekki verið ætlun ríkisvaldsins, þó að ég hafi í stuttan tíma verið í forsvari fyrir landbrn., né stofnana landbúnaðarins, að opinber aðstoð stuðlaði fremur að þurrheysverkun en votheysverkun. Þetta hef ég hvergi orðið var við og ég dreg í efa að sú sé niðurstaðan.

Hins vegar er greinilegt að það er meiri tregða hjá hinum almenna bónda að hverfa að votheysverkun en æskilegt væri og í rauninni hyggilegt væri í mörgum tilvikum. Það kann að vera að aukinn áróður gæti haft þarna nokkra þýðingu. Skal ekki slegið neinu föstu um að svo megi ekki til takast, við skulum segja í framhaldi af samþykkt till. af þessari gerð. Hvað sem því líður er að minni hyggju rétt að votheysverkun sitji a. m. k. við sama borð hvað fyrirgreiðslu snertir og þurrheysverkun og að unnið sé að því að kynna fyrir bændum ítrekað þá kosti sem votheysverkun fylgir. En að þessu slepptu verður bændum að sjálfsögðu aldrei fyrirskipað að þeir skuli taka upp votheysverkun umfram það sem þeir sjálfir kjósa.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla um þetta efni miklu frekar. Ég vil aðeins ítreka það, að fóðuröflun og fóðurverkun er það sem ræður framar öllu öðru afkomu hvers einasta bónda í landinu og þar með landbúnaðarins. Þess vegna er góðra gjalda vert og í raun þakkarvert að finna áhuga þeirra hv. alþm. sem vilja stuðla að því að efla þá grein fóðurverkunar sem telja má að öruggust sé á landi hér.

Það má aðeins bæta við, að þrátt fyrir að þetta liggi fyrir er í mörgum tilvikum svo að það kostar mikið fé að breyta mannvirkjum, sem fyrir eru, þannig að horfið verði frá þurrheysverkun til votheysverkunar. Gömlum byggingum er oft óhentugt að breyta í þessa átt. Fjárfestingarkostnaður landbúnaðarins er mikill og þess vegna ráðast bændur kannske ekki eins ört í framkvæmdir og vera þyrfti til að fullnægja þessu markmiði. Í mörgum tilvikum er auðvitað hyggilegt að nota þau mannvirki, sem fyrir eru, meðan þau þjóna sínu hlutverki. En það er sannarlega athugandi að taka upp lánveitingar í þessu skyni til að greiða fyrir því, að þetta geti verið fært.

Með þessum orðum tel ég mig hafa lýst því, að sú till., sem hér er á ferðinni fjalli um þýðingarmikið mál og sé allrar athygli verð.