30.11.1981
Sameinað þing: 29. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1169 í B-deild Alþingistíðinda. (928)

21. mál, votheysverkun

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef ástæðu til að þakka öllum ræðumönnum fyrir undirtektir við till. þá sem hér er til umr. Það var að sjálfsögðu ekki við öðru að búast af hv. 11. landsk. þm. sem er meðflm. minn og flutti gagnlega ræðu, eins og hans var von og vísa, til stuðnings þessari till. Hann kom inn á ýmis atriði og lagði áherslu á sum atriði sem ég kom ekki sérstaklega inn á. En einkennandi við þessar umr. eru góðar undirtektir. Þó er ég ekki að öllu leyti ánægður með allt sem hér hefur verið sagt eða látið ósagt.

Hæstv. landbrh. tók vel undir þessa till., en mér fannst hans viðhorf vera allt of lítið ákveðið í þessu máli. Ég fann ekki hjá honum þann áhuga og þann baráttuvilja sem ég hefði gjarnan viljað finna hjá hæstv. ráðh. fyrir þessu máli. Hann lét orð falla á þann veg, að það mátti ætla að kannske væri ekki mjög mikill munur á því hvort bændur verkuðu hey sín í þurrhey eða vothey. Hæstv. ráðh. komst að orði eitthvað á þá leið, að votheysverkun ætti að sitja, eins og hann orðaði það, a. m. k. við sama borð og þurrheysverkun. Hann sagði fleira á þá lund, að það var ekki hægt að ætla annað en að hann teldi að það ætti ekki að vera mikill munur á milli þess sem hið opinbera gerði til stuðnings við þurrheysverkun og votheysverkun. Þetta finnst mér ekki nægilega gott. Ég held að það verði að koma forusta frá stjórnvöldum í þessu máli. Við getum ekki verið lengur algjörir eftirbátar annarra þjóða, sem er eðlilegt að gera samanburð við í þessu efni, eins og við erum núna. Það verður að taka það viðfangsefni föstum tökum sem er fólgið í því að breyta þeirri staðreynd, að við verkum núna 8.6% af heyfeng okkar í vothey meðan þjóðir eins og Norðmenn og Svíar verka um 70%. Halda menn að það sé einhver tilviljun?

Hv. 1. þm. Suðurl. ræddi af skilningi um þetta mál, en hann vék sérstaklega að því, að mikil úrkoma gerði votheysverkun erfiða. Ég get fallist á að svo geti verið að einhverju marki. En getum við ekki verið sammála um að mikil úrkoma geri þurrheysverkun erfiðari en votheysverkun? (Gripið fram í.)

Hv. 1. þm. Suðurl. vék aðeins að þeirri spurningu, hvað það væri sem hefði gert það að verkum að það væri misjafn árangur af votheysverkuninni. Ég held að meginástæðan sé sú, eins og ég kom inn á það í minni fyrri ræðu, að það má ekki lita á votheysverkunina sem eitthvert neyðarúrræði sem sé tekið upp þegar ekki er hægt að þurrka, þegar búið er að bíða lengi eftir þurrki og gras er orðið úr sér sprottið og verður aldrei gott fóður, eða að verka hey, sem er orðið hrakið, sem vothey. Ég held að þetta sé höfuðástæðan og það þurfi að leggja áherslu á að votheysverkun sé ekkert neyðarúrræði. Votheysverkun er að áliti þeirra, sem best þekkja, betri heyverkun en þurrheysverkun. Þeir vilja ekki þurrka sitt hey. Ég kom nokkuð inn á það í ræðu minni, hvers vegna þetta er, og skal ekki koma frekar inn á það núna.

Hv. 2. þm. Austurl. ræddi einnig af miklum skilningi um málið. Mér þótti gott að heyra, því að ég gat ekki annað skilið, að hann væri í viðbragðsstöðu til að vinna málinu gagn í stjórn Stofnlánadeildar landbúnaðarins. Það er auðvitað ákaflega þýðingarmikið að sé jákvætt viðhorf hjá mönnum sem eru í slíkum trúnaðarstöðum, eins og hv. 2. þm. Austurl. í þessu tilfelli.

Það er sama um hv. 2. þm. Norðurl. e. Hann ræddi líka af skilningi um málið. En ég vil víkja aðeins að einu atriði sem hann kom inn á. Hann sagði að votheysverkunin væri ekki eina aðferðin sem kæmi til greina við heyverkun og það ætti að lita á aðrar leiðir. Ég kom dálítið inn á þetta atriði. Auðvitað erum við flm. þessarar till. ekkert á móti því, að það sé rannsakað ýmislegt í þessu efni. En ég lagði áherslu á að við erum ekki með till. um að setja einhverja nefnd til að athuga votheysverkunina. Við byggjum á þeirri reynslu, sem við teljum að ótvírætt liggi fyrir, og viljum strax athafnir, en ekki neina athugun. Við teljum að það þurfi ekki.

Hv. 2. þm. Norðurl. e. var að tala um að það þyrfti að gera meira en líta til heyhlaðnanna, að breyta þeim, og það væri misskilningur ef menn héldu það. Her er enginn misskilningur á ferðinni. Till. gerir ráð fyrir að það séu veitt sérstök lán til að breyta hlöðum. En ég lagði einmitt áherslu á það í minni ræðu, og það er líka í grg. með till., að það eru fjöldamörg önnur atriði sem þarf að líta á. Ég vona að það þurfi enginn misskilningur að vera í þessu efni.

Þá kem ég að hv. 5. þm. Vestf. Hann var vinsamlegur í málinu, eins og við mátti búast. En mér urðu það nokkur vonbrigði að hv. þm. taldi að ég hefði ekki getað kynnst votheysverkun, að því er ætla mátti af hans tali, nema af því að ég hefði farið um Strandasýslu. Að vísu hefur það verið ómetanlegt. En það vill nú svo til, að það er sveit í Vestur-Ísafjarðarsýslu sem stendur ekki að baki Strandamönnum í þessu efni. Það er leitt til þess að vita ef hv. 5. þm. Vestf. hefur ekki vitað um þetta.

Hv. 5. þm. Vestf. sagði að það hefði verið betra að þær tölulegu upplýsingar, sem ég gaf í ræðu minni, hefðu verið í grg. með till. Ekki hefði ég neitt haft á móti því. Ég leitaðist við að hafa grg. allítarlega og vona að hv. þm. hafi ekki sérstaklega út á grg. að setja. En það er nú svo, að við segjum oft margt í ræðustól sem ekki er í grg. með till. eða frv.

Ég hef hér vikið að nokkrum atriðum hjá öllum ræðumönnum. Má kannske segja að það séu ekki höfuðatriði og hafi ekki verið höfuðatriði í því sem þeir sögðu, en sé þó þess virði að eðlilegt sé að koma að því. En hvað er það sem vakið hefur í þessum umr. mesta athygli og umtal af því sem ég sagði í framsöguræðu fyrir málinu? Það eru þær upplýsingar sem ég gaf um opinberan stuðning við votheyshlöður og þurrheyshlöður og hlutfallið þar á milli. Menn segja að þetta hafi komið þeim á óvart. Það er kannske ekki nema eðlilegt. Mér kom það sjálfum á óvart. Ég hélt að till., sem ég flutti og var samþykkt á Alþingi 1976, hefði haft einhver áhrif þannig að mér kom þetta líka á óvart. En ég tók eftir því, að þegar hv. þm. voru að ræða um þetta töluðu þeir alltaf um samanburð milli þurrheyshlaðna og votheyshlaðna og orðuðu það þannig, að votheyshlöðurnar hefðu í þessum samanburði betur. Þetta er rétt ef samanburðurinn er bara milli votheyshlaðna og þurrheyshlaðna. Þetta kom fram í þeim upplýsingum sem ég gaf. En ég lagði áherslu á það og undirstrikaði, að þegar inn í dæmið kæmi stuðningur við súgþurrkunina og lán og framlög til súgþurrkunar og þurrheyshlaðna lögð saman kæmu út lokatölur, sem ég vitnaði til, að lán og framlög væru 66.7% af kostnaði við þurrheyshlöður og súgþurrkun. (HS: Ekki á rúmmetra?) Nei, ekki á rúmmetra. Ég tók fram að þetta væri útreikningur á ákveðnum hlöðum. Ég nefndi stærð hlaðnanna í minni ræðu. Þetta er í mörgum liðum. Ég ætla ekki að lesa upp allar tölurnar. Það eru gefnar upp tölur um kostnaðinn við að byggja hlöðu af ákveðinni stærð, gera ákveðnar framkvæmdir í sambandi við súgþurrkun og að byggja hliðstæða votheyshlöðu. Þannig er dæmið sett upp. Þá kemur út að bóndi, sem fer þá leið að byggja þurrheyshlöðuna og kemur sér upp súgþurrkun, fær 66.7% af sínum kostnaði frá hinu opinbera, en bóndi, sem fer í votheysgerðina, fær 54% af kostnaðarverði þessara ákveðnu framkvæmda, sem eru sambærilegar að mati sérfræðinga Búnaðarfélagsins. Þannig er dæmið sett upp. Menn verða að hafa í huga að það er súgþurrkunin sem ræður úrslitum í þessum samanburði vegna þess að til súgþurrkunnar er lánað mikið og mikil framlög eru til súgþurrkunar. Bóndi, sem setur upp súgþurrkun, þarf ekki að leggja til nema 25% af kostnaðinum. Hitt fær hann að láni eða í ríkisframlögum. Þessi upphæð lækkar enn þá meira, að því er mér skilst, þegar það fé sem kemur með sparnaði á jarðræktarframlögum er líka komið inn í dæmið, eins og ég vék að í minni frumræðu.

Það er ágætt og ég fagna því, að menn athugi þessar tölur. Ég stend í þeirri meiningu að þær séu réttar, að ég hafi kunnað að lesa rétt þau plögg sem ég fékk frá Búnaðarfélaginu. En þetta undirstrikar það sem ég vil helst af öllu og vil að lokum leggja áherslu á og er grundvöllur fyrir þessum tillöguflutningi, að það verði að gera núna verulegt átak til að rétta hlut votheysverkuninnar til að stuðla að því, að hún verði eins almenn hér á landi og ég vil telja eðlilegt, a. m. k. að það sé hliðstætt því sem er í nágrannalöndum okkar og ég hef hér gefið upplýsingar um.