02.12.1981
Efri deild: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (941)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. 2. minni hl. (Lárus Jónsson):

Herra forseti. Það frv., sem hér er til umr., er til staðfestingar á brbl. frá 28. ágúst s. l. Það er fylgifiskur bráðabirgðaúrræða ríkisstj. í efnahagsmálum, en slíkar smáskammtalækningar hafa einkennt störf og stefnu hæstv. ríkisstj. frá upphafi. Það er dæmigert um þessar smáskammtalækningar, að nú áður en þessi brbl. vegna gengisfellingarinnar 26. ágúst s. l. hafa verið staðfest hefur orðið önnur gengisfelling og þarf að breyta frv. í samræmi við það.

Það er athyglisvert í þessu sambandi, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur staðið fyrir fjórum formlegum gengisbreytingum á ferli sínum, þar af þrem á yfirstandandi ári, en eins og menn muna var í áramótaboðskap hennar gert ráð fyrir stöðugu gengi fyrstu mánuði ársins og verulega aðhaldssamri gengisstefnu upp frá því.

Þessar gengisbreytingar voru 3.85% 29. maí, 4.76% 26. ágúst og 6.5% 10. nóv. Þessu til viðbótar hefur gengið sigið mikið á árinu og um þessar mundir fæst um 50% minna af erlendum gjaldeyri fyrir nýkrónu, en lög um nýkrónu tóku gildi um síðustu áramót sem kunnugt er. Engu að síður hafa kostnaðarhækkanir innanlands verið svo gífurlegar að nánast allir atvinnuvegir þjóðarinnar eru reknir með stórfelldu tapi og skuldasöfnun. Þar kemur til öfugsnúin stefna ríkisstj. í efnahagsmálum í heild, þó þar vegi þyngst stefnan í verðlagsmálum, vaxta- og gengismálum.

Þegar fjallað er um gengisskráninguna og efnahagsstefnu undanfarin ár er það einkar athyglisvert, að á valdatíma Alþb. og Framsóknar í ríkisstj. frá 1978 hafa erlendir gjaldmiðlar hækkað miðað við 1. ágúst 1978 um 190% rúm í krónum ef miðað er við meðalgengi, en 213.9% ef miðað er við dollara. Það kemur því úr hörðustu átt þegar talsmenn þessara flokka ásaka aðra um að þeir séu gengisfellingarflokkar og krefjist gengislækkunar.

Sjútvrh. Steingrímur Hermannsson hefur látið greinilega á sér skilja í fjölmiðlum að fyrir næstu áramót sé þörf enn einnar gengisfellingar, svo að ekki er úr vegi að staðfesta þessi brbl. áður en til fjórðu gengisfellingarinnar kemur á þessu ári og nauðsynlegt verður að breyta þessu frv. enn.

Það frv., sem hér er til umr., og brtt. hæstv. forsrh., sem lagt er til að breyta enn með brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn., felur í sér þrjú meginatriði:

1. Ráðstöfun á hluta gengismunar útfluttra sjávarafurða, framleiddra fyrir 1. sept. s. l., og sjálfdæmi ríkisstj. til handa á því, hvort sá gengismunur sé gerður upptækur eða ekki.

2. Heimild til fjmrh. til að ábyrgjast lán, sem upplýst hefur verið að verði um 42 millj. kr., til handa Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins, sem ekki verður séð sakir skilmála að endurgreiðist úr sjóðnum og lendir því á ríkissjóði sem ábyrgðaraðila. Hér er um að ræða hreint uppbótakerfi, millifærslu á sköttum, sem síðar hlýtur að þurfa að leggja á almenning til þess, að halda uppi fölsku gengi, eins og stjórn Farmanna- og fiskimannasambands Íslands segir í bréfi sínu til nefndarinnar sem fylgir með áliti okkar minnihlutamanna.

3. Fyrirmæli um eignaupptöku. Frv. felur í sér fyrirmæli um eignaupptöku á endurgreiðslum Seðlabanka Íslands af gengisuppfærslu endurkeyptra afurða- og rekstrarlána. Bróðurpartur þessarar endurgreiðslu, sem mun nema rúmlega 34 millj. kr. í heild á ekki að renna til þeirra deilda Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins sem í raun eiga þessar endurgreiðslur, heldur eru fyrirmæli í frv. um að allt að 29 millj. kr. skuli greiddar til freðfisksdeildar sjóðsins án tillits til þess, að endurgreidd gengisuppfærsla útfluttra sjávarafurða ætti að skiptast með allt öðrum hætti ef hún er reiknuð af hverri afurð fyrir sig.

Í frv. sjálfu er að vísu gert ráð fyrir að þessi tala sé lægri, en samkv. nýjustu útreikningum og brtt. meiri hl. n. er hér um að ræða 29 millj. kr. Með þessari brtt. er verið að ganga þvert á þá stefnu sem lá til grundvallar lagasetningu um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins og hefur verið stefna stjórnar sjóðsins og stjórnvalda síðan, þ. e. að hver deild sjóðsins sé sjálfstæð og að algert grundvallaratriði sé að verðmæti verði ekki færð milli deilda sjóðsins með mismunun, eins og stefnt er að með þessari tillögu.

Það hlýtur að vekja verðskuldaða athygli þegar þessar ráðstafanir eru athugaðar, að hvergi er tekið á vanda fiskiskipa sem verða fyrir stórfelldri byrði af gengisfellingunni vegna gengistryggðra lána og aðfangakostnaðar sem sumpart hækkar vegna gengisfellingarinnar. Hagsmunir sjómanna eiga ekki heldur upp á pallborðið í þessu frv. Á árum áður, t. d. 1975, var gengismun að hluta ráðstafað til að lækka skuldir útgerðarinnar vegna þáverandi gengisfellingar og jafnframt komið til móts við sjómenn í þeirra hagsmunabaráttu. Þannig var leitast við að draga úr vanda í framtíðinni og minnka víxlverkun gengisbreytingarinnar. Nú er þessu snúið við. Vandi útgerðarinnar var í raun aukinn með þessari gengisbreytingu, sem varð til þess m. a. að grípa þurfti til nýrrar gengisbreytingar 10. nóv. s. l. eins og kunnugt er. Þannig má segja að með þessum ráðstöfunum hafi hæstv. ríkisstj., sem ætlaði að fylgja aðhaldssamri gengisstefnu á þessu ári, jafnvel föstu gengi í nokkra mánuði, komið sér upp eins konar svikamyllu gengisbreytinga.

Að undanförnu hefur ríkt góðæri í sjávarútvegi. Áætlað er að verðmæti sjávarvöruframleiðslunnar 1981 verði 5.4 milljarðar kr. og hafi aukist um 2.6% að magni til frá því í fyrra. Útlit er fyrir að enn verði eitt metárið í þorskveiðum. Það er athyglisvert að þorskur hefur veiðst sem hér segir undanfarin ár:

1978

320

þús. tonn.

1979

360

þús. tonn.

1980

428

þús. tonn.

Á árinu í ár, 1981, er áætlað að þorskveiðin verði a. m. k. 450 þús. tonn. Verður þá þorskveiðin í ár a. m. k. 130–150 þús. tonnum meiri en hún var 1978. Úr öllum þessum afla höfum við verið að moða á undanförnum árum. Samt sem áður hefur þjóðarframleiðslan sáralítið aukist síðan, kaupmáttur kauptaxta sigið verulega og lífskjör versnað. Segir það sína sögu um stjórnarfarið í landinu.

Verðhækkanir á sjávarafurðum hafa orðið verulegar í ár á erlendum mörkuðum. T. d. eru saltfiskur og skreið í mjög háu verði. Þótt nokkurrar stöðnunar á verði frystra afurða hafi gætt og verðlækkunar á mjöli og lýsi er talið að verðmæti sjávarvöruframleiðslunnar hafi aukist einungis vegna verðhækkana erlendis um 3% frá því í fyrra. Stórfelld hækkun á gengi Bandaríkjadollars á alþjóðlegum gjaldeyrismarkaði ætti einnig að öðru jöfnu að skila sjávarútveginum drjúgum tekjuauka svo og þjóðarbúinu í heild.

Því miður hefur gefið á bátinn engu að síður í íslenskum sjávarútvegi undanfarin ár, þrátt fyrir slíkt góðæri, aflabrögð og ytri skilyrði. Að mati Þjóðhagsstofnunar voru rekstrarskilyrði fiskveiðiflotans eftir síðustu fiskverðshækkun þau, að 12.4% halli var talinn vera á stærri togurum, 4.1% halli á minni togurum og 0.9% á bátum sem ekki stunda loðnu, þ. e. 3.1% meðalhalli af tekjum fiskveiðiflotans, auk loðnubáta sem augljóslega eru verr staddir en önnur útgerð. Þá er talið að tap á því að frysta fisk nemi nú 4% af tekjum. Öllum er ljóst, sem nálægt þessum hlutum og atvinnurekstri koma, að hér er um tölur að ræða sem ekki segja allan sannleikann. Ástandið er því miður orðið þannig í þessum undirstöðuatvinnuvegi þjóðarinnar í miðju góðærinu að ríkisstj. er nú með á prjónunum öflun hallærislána til þess að koma í veg fyrir stöðvun tuga fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu í landinu vegna taprekstrar.

Það er dæmigert fyrir skammsýni og óraunsæi og ranga stefnu stjórnvalda í efnahags- og atvinnumálum, að undanfarin þrjú ár hefur Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins verið gerður nánast gjaldþrota. S. l. þrjú ár hafa verið greiddar inn í sjóðinn 17.3 millj. kr., en út úr honum 239 millj. Þessi þróun hefur átt sér stað þótt ekki hafi verið um verulegt verðfall að ræða á þessu tímabili og oft á tíðum mjög hátt og gott verð á sjávarafurðum, svo sem ég hef áður rakið. Í fyrra var t. d. gott verð á loðnuafurðum, en þá var ekki greitt neitt af því í Verðjöfnunarsjóð. Sama er að segja um saltfisk á þessu ári og í fyrra. Hér er um að ræða dæmi um það, hvernig hátt verð á afurðum okkar hefur ekki verið nýtt til þess að efla Verðjöfnunarsjóðinn og þaðan af síður sú hagstæða þróun sem orðið hefur á gengi dollarans að undanförnu. Þannig hefur algerlega verið látið vaða á súðum að þessu leyti með framangreindum afleiðingum.

Höfuðið er svo bitið af skömminni með þessu frv. Þar er í góðæri farið að fikta með millifærslur og miðstýringu með lagabreytingum sem varða Verðjöfnunarsjóð. Það er því að vonum að hagsmunaaðilar að Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins höfðu margir hverjir þau orð á fundum fjh.- og viðskn., þegar fjallað var um þetta frv., að með því væri verið að leggja í rúst verðákvörðunarkerfi sjávarútvegsins og kasta fyrir róða þeirri grundvallarhugsun sem upphaflega var á bak við stofnun Verðjöfnunarsjóðs.

Herra forseti. Við sjálfstæðismenn, sem skipum 2. minni hl. fjh.- og viðskn., erum mótfallnir þeirri stefnu sem kemur fram í þessu frv. Til að freista þess, að haldið verði áfram á þeirri braut sem upphaflega var mörkuð þegar lögin um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins voru samin og samþykkt á Alþingi, vil ég að lokum geta brtt. sem við hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson flytjum á sérstöku þskj. Þetta er brtt. við brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn., við nýja grein sem komi inn í frv. og verði 2. gr. Við leggjum til að gr. orðist svo:

„Nú ákveður Seðlabanki Íslands að endurgreiða gengisuppfærslu á endurkeyptum afurða- og rekstrarlánum vegna breytinga á gengi íslensku krónunnar hinn 26. ágúst 1981 og skal þá sá gengismunur skiptast hlutfallslega á hlutaðeigandi deildir sjóðsins.“

Með þessari brtt., ef samþykkt yrði, yrði komið í veg fyrir það slys að hverfa algerlega frá upphaflegum tilgangi Verðjöfnunarsjóðs og þeirri grundvallarstefnu að mismuna ekki hinum einstökum deildum sjóðsins.