02.12.1981
Efri deild: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1179 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Steingrímnr Hermannsson):

Herra forseti. Ég skal ekki vera langorður þó að ég vilji koma að fáeinum atriðum sem hv. stjórnarandstæðingar fluttu hér. Þeir tala um það báðir, að hér sé um nánast óguðlega millifærslu á milli greina að ræða, og það má skilja á máli þeirra, að ekki séu fordæmi fyrir því sem hér er verið að gera, þó að það kæmi vissulega fram hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að það hefði verið gert áður, en þá var um mikla gengisfellingu að ræða. Mér skilst að gengisfellingin þurfi að verða mikil til þess að gengishagnaðurinn sé upp tekinn.

Ég vil vekja athygli á því, að í jan. 1978 stóð hv. þm. Matthías Bjarnason, þáv. sjútvrh., að upptöku á gengismun og færði það yfir í deildir Verðjöfnunarsjóðs, frystideild og að mig minnir mjöldeild. Var ekki þá verið að kippa grundvelli undan starfsemi Verðjöfnunarsjóðs? Ég held ekki. Ég get fyrir mitt leyti tjáð mig samþykkan því sem þá var gert. — Eða hv. þm. Kjartan Jóhannsson, þáv. sjútvrh. Í sept. 1978 var eitt af hans fyrstu verkum að setja ásamt mér og fleirum brbl. um að taka gengishagnað til að greiða hugsanlega skuld sem frystideild Verðjöfnunarsjóðs stefndi í. Það kom að vísu ekki til þess, ef ég man rétt, en hugur fylgdi sannarlega því máli.

Hver er munurinn hér? Nú er ekki gengishagnaður tekinn að vísu af atvinnugreimnni. Það er eignaupptaka, eins og segir í 3. lið hjá hv. þm., en eignaupptakan er frá Seðlabankanum. Það er kannske það sem brennur svo á hv. þm., að gengismunurinn skuli vera tekinn af seðlabankanum, en ekki tekin þessi 52% sem atvinnuvegurinn var látinn halda. Hann var látinn halda því, það var ekki tekið. Það var tekið af atvinnuveginum áður, nú af Seðlabankanum. Jú, jú, við berum allir Seðlabankann og hag hans fyrir brjósti. En niðurstaða mín var nú sú, að Seðlabankinn hefði fremur efni á því að skila sínum gengishagnaði en atvinnuvegurinn. Þess vegna var það tekið af Seðlabankanum. Eins og áður hefur verið gert er ekki gert ráð fyrir því að greiða það jafnt á deildir Verðjöfnunarsjóðs. Ég kynnti mér vandlega þau fordæmi sem lágu fyrir, bæði í sept. 1978 og í jan. 1978. Er það ekki líka millifærsla þegar gengismunur er tekinn og greitt í Stofnfjársjóð fiskiskipa? Ég er sammála því sem kom fram hér áðan, að það er oft þörf á slíku við gengisfellingar og kannske sérstaklega þegar þær eru miklar. Ég hygg að það eigi þá alveg sérstaklega við. En gengisfellingar hafa hins vegar ekki verið svo miklar að ég hafi treyst mér til að leggja slíkt til, og alveg sérstaklega af því að lánin eru gengistryggð. Sá er munurinn orðinn á allra síðustu tímum.

Ég verð að segja það fyrir mitt leyti, að mér finnast sumir menn gerast ærið bláeygir þegar þeir eru komnir úr ábyrgð og orðnir stjórnarandstæðingar. Hér er sem sagt farið nákvæmlega í sömu hjólförin og menn hafa verið í áður. Menn tala hér um skammtímalausnir. Hvað hafa verið margar skammtímalausnir í þessu verðbólguþjóðfélagi í gegnum árin, gegnum áratugina? Hafa menn ekki staðið frammi fyrir því aftur og aftur, þegar ný holskefla dynur yfir, að menn hafa orðið að grípa til ráðstafana til þess að tryggja afkomu atvinnuveganna? Ég veit ekki betur. Við gætum líklega þulið upp slíkar ráðstafanir hér í allan dag. Ég verð að segja það, að hvort sem ég hef verið stjórnarsinni eða stjórnarandstæðingur hef ég ætíð skilið að það sé nauðsynlegt. Vitanlega væri gaman að geta með einu pennastríki strikað út verðbólguna og þurfa ekki að gera neinar ráðstafanir til þess að halda atvinnuvegunum gangandi. Ef hv. þm. geta bent mér á ráð til þess vil ég gjarnan heyra það.

Hér er hneykslast á því, að heimild skuli vera veitt, ef stjórn Verðjöfnunarsjóðs ákveður að taka lán. Það er alveg rétt, að það var gert vegna stórfellds vanda sem loðnuveiðar og vinnsla stóðu og standa frammi fyrir. Mig langar til að heyra frá hv. stjórnarandstæðingum hvað þeir hefðu gert í þessu tilfelli. Ég skil það helst svo að þeir hefðu bara fellt gengið. Það er talað um að það sé verið að halda uppí fölsku gengi. Við hefðum líklega átt að fella gengið til að brúa þennan 33% mun eða halla sem var á vinnslunni. Það væri lagleg kollsteypa sem fylgdi þá. En ég spyr: Er það virkilega tillaga hv. stjórnarandstæðinga að gengið hefði átt að fella til að mæta erfiðleikum einstakrar greinar eins og þessarar?

Það er einnig rætt um það hér, og undir það get ég tekið, að of lítið sé í Verðjöfnunarsjóði. Menn eru að furða sig á því. Ég vil einnig taka undir það, að vitanlega hefði þurft að greiða inn í Verðjöfnunarsjóð af saltfiski, eins og staðan er núna, og vonandi verður það mál tekið upp við næstu ákvörðun Verðjöfnunarsjóðs eftir áramótin. En ég vek athygli manna á því, að frystingin hefur staðið þannig undanfarin tvö ár að þar hefur ekki verið um neitt slíkt að ræða. Staðreyndin er sú, að þar til s. l. vor var nánast engin hækkun á frystum afurðum okkar á Bandarikjamarkaði í eitt og hálft ár, og þetta ræður mestu um það að ekki hefur komið fjármagn inn í Verðjöfnunarsjóð.

Enn einu sinni heyrist að forsendur fyrir Verðjöfnunarsjóði séu brostnar ef Verðjöfnunarsjóður tekur lán. Verðjöfnunarsjóðurinn getur að sjálfsögðu eins og aðrir brúað bilið frá mínusi upp í plús. Í raun og veru er þarna um þá eina breytingu að ræða, að mennirnir, sem þar sitja í stjórn, geta ákveðið að reyna að brua þá sveiflu, sem skapast niður fyrir núllið, með lántökum. Áður var gert ráð fyrir að sveiflan væri eingöngu fyrir ofan núllið, ef ég má orða það svo. En ég endurtek: Það er á valdi stjórnar sjóðsins hvort notuð er slík heimild.

Ég vil því segja að lokum að ég er mjög undrandi á sumu sem fram kemur hjá hv. stjórnarandstæðingum og mér sýnist það vera gleymt sem þeir hafa áður staðið að. Ég held að þeir ættu að skoða þær gerðir betur.