02.12.1981
Efri deild: 16. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1185 í B-deild Alþingistíðinda. (948)

130. mál, Aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Um leið og ég mæli fyrir frv. til l. um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins vil ég leyfa mér, ef forseti hefur ekkert við það að athuga, að fjalla einnig um frv. til l. um útflutningsgjald af grásleppuafurðum, því að frv. þessi eru nátengd og verða að fylgjast að í gegnum hv. Alþingi. Reyndar get ég haft framsöguræðu mína í styttra lagi því ég mælti ítarlega fyrir þessum frv. á síðasta Alþingi. Frumvörpin fóru þá til nefndar og voru alllengi í meðferð hjá nefnd, ítarlegri meðferð. Í ljós kom, eftir að umsagnir höfðu fengist frá ýmsum aðilum sem þessum málum eru tengdir, að athugasemdir voru margar við frv. og ósamkomulag um málið eins og það var þá.

Fyrst og fremst komu mjög ákveðnar athugasemdir frá Aflatryggingasjóði sjávarútvegsins vegna þess að gert var ráð fyrir að settur yrði á fót sérstakur slíkur sjóður fyrir grásleppuafurðir, en þær ekki hafðar í hinum almenna Aflatryggingasjóði.

Í öðru lagi gerði Fiskveiðasjóður athugasemdir við ákvæði frumvarpanna, sem skuldbundu Fiskveiðasjóð að vissu leyti umfram það sem almennt er til að veita lán til kaupa á bátum og til annars stofnkostnaðar vegna grásleppuveiða.

Í þriðja lagi var gerð athugasemd við ráðstöfun á hluta af því útflutningsgjaldi sem um er fjallað í því frv. sem er 2. mál á dagskrá, til samtaka grásleppuveiðimanna og einkum til ráðstöfunar í birgðaskemmu sem samtökin hugðust koma sér á fót. Þessi mál urðu því ekki afgreidd. En þau voru tekin til meðferðar í sjútvrn. í sumar og hefur verið mjög ítarlega farið í gegnum allar athugasemdir. Fundir hafa verið haldnir með þeim, sem athugasemdir gerðu, og frv. síðan unnin upp að nýju með fulltrúum samtaka grásleppuveiðimanna og eru nú lögð fram hér í allmjög breyttu formi.

Helstu breytingarnar snúa reyndar að þeim atriðum sem ég nefndi áðan í því frv. um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins sem hér liggur fyrir. Er nú gert ráð fyrir að grásleppuhrognaframleiðendur verði sérstök deild í þessum sjóði. Þeir eru ekki sjálfstæð deild og hygg ég að um það sé orðin samstaða. Að vísu skal þess getið, að fulltrúar samtaka grásleppuhrognaframleiðenda hefðu heldur kosið fyrri háttinn en sætta sig við það sem hér er gert ráð fyrir.

Í öðru lagi er felld burt öll tilvísun til Fiskveiðasjóðs og hann á engan máta skuldbundinn. Hins vegar renna eins og frá öðrum útflutningsafurðum í sjávarútvegi 22% til Fiskveiðasjóðs, og fer síðan eftir reglum sjóðsins hvað hann lánar til báta vegna grásleppuveiða. Gert er ráð fyrir að útflutningsgjald verði 3.5% af þessum afurðum, en það er 5.5% af öðrum. Hins vegar er, eins og fram kemur í ákvæði til bráðabirgða í frv. um útflutningsgjald sem ég leyfi mér að fjalla hér um einnig, gert ráð fyrir að 2.5% verði lögð á og renni til þess að koma upp geymsluskemmu fyrir grásleppuhrogn, en þetta gjald fari síðan smáminnkandi og hverfi á 10 árum.

Þetta eru, herra forseti, meginbreytingarnar á þessu frv. Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að hafa um það lengra mái. Ég vil þó segja að lokum að þau vandræði, sem grásleppuveiðimenn hafa orðið fyrir af markaðsástæðum, eru mjög mikil. Því miður hefur aðeins tekist að selja um það bil helminginn af framleiðslu þessa árs. Hinn helmingurinn liggur jafnvel undir skemmdum. Því er á vegum sjútvrn. og grásleppuhrognaframleiðenda nú verið að athuga hvort unnt sé að ná þessum hrognum saman og koma þeim í örugga geymslu. Slík geymsla mun vera fengin. Ég geri ráð fyrir að fjárhagsleg aðstoð verði veitt til að ná þessari framleiðslu saman og koma henni í betri geymslu en nú er. Engu að síður fer því víðs fjarri að skaði grásleppuveiðimanna og framleiðenda sé ekki mikill og framtíðin af þessum ástæðum óviss. Það er alls óvíst, að það takist að selja þessa framleiðslu í bráð, og alls ekki tryggt, að það takist að geyma hana lengi þannig að ekki verði skaði af. Með þetta í huga held ég að mönnum hafi orðið ljósara en áður að mikil þörf er á því að koma upp slíkri geymslu og styrkja slík samtök. Ég held að á því sé ekki nokkur vafi. Það er þess vegna m. a. sem samtök grásleppuhrognaframleiðenda leggja á það mikla áherslu, að frv. þessi fáist nú afgreidd. Vil ég leyfa mér að styðja þá beiðni þeirra og mælast eindregið til þess, að frv. verði afgreidd og það fyrr en seinna.

Að þessu mæltu, herra forseti, legg ég til, ef ég má í einni ræðu, að báðum frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.