02.12.1981
Efri deild: 17. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (957)

42. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Sjútvrh. (Steingrimur Hermannsson):

Herra forseti. Vegna þeirrar umr., sem var hér áðan við 2. umr. um þetta mál, vil ég upplýsa að 9. febr. 1978 voru samþykkt hér lög um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu. Hér var um að ræða að tekinn yrði í sérstakan reikning í Seðlabankanum gengishagnaður í sjávarutvegi af þessari gengisbreytingu. Í 2. gr. þeirra laga segir, með leyfi forseta, um ráðstöfun á þessum gengishagnaði þegar fjallað hefur verið um greiðslu á flutningskostnaði og öðru slíku eins og venja er: „Enn fremur skal endurgreiða ríkissjóði það sem hann hefur vegna framleiðslu ársins 1976 greitt til Verðjöfnunarsjóðs fiskiðnaðarins til þess að gera honum mögulegt að standa við greiðslu bóta í samræmi við viðmiðunarverð.“

Því miður hef ég ekki einstök atriði hér hjá mér. Ég hef það í rn. hvað þar er um háa upphæð að ræða, en hún er töluverð. Þetta var skuld, sem frystideild Verðjöfnunarsjóðs hafði stofnað til, og vegna ríkisábyrgðar, sem var veitt fyrir þeirri skuld, hafði hún fallið á ríkissjóð, en var endurgreidd að fullu áður en ráðstöfun á því, sem eftir var, kom til umræðu, sem svo er fjallað um í 3. gr. Í 3. gr. er 65% af því, sem eftir er, skipt jafnt á allar greinar. Síðan er reyndar 35% tekið til sérstakra þarfa, þ. e. til hagræðingar í fiskiðnaði, og 57% til að létta stofnfjárkostnað eigenda fiskiskipa. Í því tilfelli, sem nú er um að ræða, gegnir að því leyti öðru máli, að hér er gengishagnaður Seðlabankans gerður upptækur, en í fyrra tilfellinu var gengishagnaður fiskvinnslunnar gerður upptækur. Vitanlega hefði mátt orða þessa grein svo í því frv. sem hér er til umr., að skuldin væri fyrst greidd og síðan hinu skipt jafnt. Það mætti að sjálfsögðu gera. Í þeim lögum sem hér eru til umræðu, er þess meira að segja ekki getið hvað þessi upphæð sé há, en að sjálfsögðu liggur það fyrir.

Í brbl., sem sett voru 5. sept. 1978, er nákvæmlega eins farið að. Þar eru fyrst teknar af óskiptu skuldir sem kann að þurfa að greiða vegna framleiðslu áranna 1977 og 1978 í Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, og það voru skuldir sem stefndi í hjá frystideild, en það kom ekki til þessarar greiðslu þar sem tekjur sköpuðust hjá sjóðnum áður en á þessu þurfti að halda.

Herra forseti. Þetta vildi ég aðeins upplýsa út af þeirri umr. sem hér var áðan.