02.12.1981
Neðri deild: 17. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1189 í B-deild Alþingistíðinda. (961)

80. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Á þskj. 83 hef ég ásamt hv. þm. Geir Hallgrímssyni leyft mér að flytja frv. um flugstöð á Keflavíkurflugvelli. Málefni þessarar væntanlegu flugstöðvar er alkunnugt og varla þörf að gera því ítarleg skil.

Það er skemmst frá að segja, að þetta mál hefur verið ofarlega á baugi í meira en átatug án þess að í rauninni sé búið að taka nokkrar ákvarðanir um framkvæmdir við byggingu stöðvarinnar eða tilhögun hennar. Ekki þarf að lýsa því fyrir hv. þm., að núverandi flugstöð á Keflavíkurflugvelli er með öllu ófær til að gegna hlutverki sínu. Hún er gömul timburbygging sem meira hefur verið byggt við en reglur leyfa. Í henni er óhjákvæmileg eldhætta, sem gæti leitt til stórslyss ef slys kæmi fyrir þegar farþegafjöldi er mestur í stöðinni. Aðstaða er mjög léleg til allra starfa. Má segja að þessi gamla stöð hafi flesta eða alla þá galla sem hugsanlegir eru við eina alþjóðlega flugstöð.

Þó á þessi stöð að heita anddyri Íslands. Þangað koma hundruð þúsunda af farþegum, sem ýmist hafa þar skamma viðdvöl eða koma til landsins og fara frá því. Hér sem annars staðar er því nauðsynlegt að þetta sé myndarlegt og menningarlegt mannvirki svo og allt umhverfi og afgreiðsla sé sem þægilegust miðað við þær aðstæður sem hér eru, m. a. veðurfar. Það verður því ekki deilt um þörfina á byggingu nýrrar flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Þar til koma kröfur um öryggi, starfsáðstöðu og siðast en ekki síst sómi okkar Íslendinga varðandi það, hvernig anddyri þjóðarinnar lítur úr.

Meira en áratugur er liðinn síðan utanrrh. tók mál þetta upp og lét hefja rannsóknir á lausn þess. Fyrst í stað var leitað til alþjóðlegra aðila í Frakklandi og Danmörku og teiknuð mikil og stór fluggtöð sem reisa mætti á Keflavíkurflugvelli, jafnframt því sem ákveðinn var nýr staður fyrir stöðina. Hefur sá staður þann kost að aðskilja stöðina algerlega frá athafnasvæði varnarliðsins. Það er enn ein hlið á þessu máli sem ég hygg að Íslendingar leggi allir mjög mikla áherslu á. Núverandi sambland á athafnasvæðum varnarliðsins og flugstöðvarinnar er með öllu óviðunandi og verður að skilja þar á milli eins fljótt og kostur er.

Nú þegar munu einar fimm ríkisstjórnir hafa fjallað um þetta mál, en snemma komust menn að þeirri niðurstöðu, að hér væri um svo dýrt mannvirki að ræða að Íslendingar hefðu ekki bolmagn til að ráðast í það einir. Skipti ekki máli þó að upprunalegar teikningar væru endurskoðaðar og stöðin minnkuð til mikilla muna frá því sem í fyrstu var gert ráð fyrir. Enn stóð það að mannvirkið er of dýrt til að við Íslendingar getum reist það á viðunandi tíma. Því var það að ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar komst að þeirri niðurstöðu sem ég nefndi. Var því lögð fram ósk um að varnarliðið tæki þátt í byggingu stöðvarinnar. Var það og er ekki talið óeðlilegt sökum þess að það verður varnarliðinu sýnilega til mikilla hagsbóta ef flugstöðin verður fjarlægð frá varnarsvæðinu og varnarliðið fær til yfirráða og afnota núverandi flugstöð sem það getur notað á margvíslegan hátt.

Lengi var um þetta mál fjallað og fyrst í stað tekið illa í það af amerískum yfirvöldum, að varnarliðið tæki nokkurn þátt í byggingu stöðvarinnar. Svo kom þó að ákveðið var af þeirra hálfu að varnarliðið skyldi leggja fram í fyrsta lagi þann kostnað, sem er við sjálfar flugbrautirnar að stöðinni, og í öðru lagi rúmlega hálfan áætlaðan kostnað við byggingu hússins eða um 160 millj. kr. Þetta boð stendur nú sem svar við óskum íslenskra ríkisstjórna, en það er takmarkað hvað tíma snertir og mun vera nauðsynlegt að láta hendur standa fram úr ermum, taka ákvarðanir og byrja framkvæmdir innan næstu 11 mánaða ef þetta framlag á ekki að glatast.

Miklar deilur hafa risið, ekki um að reisa alþjóðlega flugstöð á Keflavíkurflugvelli, heldur hvernig fjármagna eigi stöðina. Alþb. hefur beitt sér gegn því, að nokkrir peningar frá varnarliðinu verði notaðir til að koma þessum mannvirkjum upp, en svo er að sjá að allir hinir flokkarnir hafi, a. m. k. á einhverjum tíma, verið þeirrar skoðunar, að í þessu tilviki væri eðlilegt að varnarliðið tæki þátt í fjármögnun mannvirkisins, bæði með því að leggja flughlað á sinn kostnað og leggja fram eitthvert fé til byggingarinnar.

Í tíð núv. ríkisstj. hefur hins vegar farið svo, að Alþb. hefur komsit yfir neitunarvald í þessu máh. Það var sett í stjórnarsamning að ekkert skyldi aðhafst í þessu máli nema stjórnarflokkarnir væru allir um það sammála. Ég tel að þetta atriði í núgildandi stjórnarsamningi sé í raun og veru andstætt stjórnarskránni og andstætt eðlilegu lýðræði, þar sem minnihlutaflokkur, sem hefur rúmlega 1/5 af kjósendafylgi í landinu, getur komið fram skoðunum sínum og þær verða ráðandi og eru teknar fram yfir skoðanir, er aðrir flokkar sem hafa um 80% kjósenda á bak við sig, hafa haft. Neitunarvald þetta er þó staðreynd og bæði Framsfl. og þeir sjálfstæðismenn, sem standa að ríkisstj., virðast ætla að standa við ákvæði stjórnarsáttmálans og láta Alþb. ráða því að ekki verði tekið á móti neinum framlögum til þessarar stöðvar frá varnarliðinu. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessari málsmeðferð og ítreka að hún er algerlega ólýðræðisleg. Með stjórnarþátttöku er minnihlutaflokki gert kleift að ráða gegn augljósum vilja meiri hluta.

Ég skal ekki ræða hvort rétt sé að varnarliðið taki þátt í byggingu stöðvarinnar eða ekki. Teljum við flm. eðlilegt að varnarliðið leggi fram nokkurt fjármagn í þessum tilgangi, bæði vegna þess að það hefur sjálft hag af því að stöðin verði reist og það er eðlilegt að þeir, sem varnarlið hafa á Keflavíkurflugvelli, taki þátt í að leysa þann vanda sem hér er á ferðinni. Ég tel það vera mikinn misskilning að áhrif Bandaríkjamanna hér á Íslandi í sambandi við varnarmálin aukist að nokkru leyti þó að þeir leggi þetta fé fram. Þvert á móti tel ég að færa megi rök að því, að áhrif þeirra minnki og aðstaða okkar verði sterkari þegar við höfum sjálfstæða flugstöð sem er algerlega aðskilin frá athafnasvæði varnarliðsins. Báðir aðilar hafa hag af því, að þetta mannvirki komist sem fljótast upp. Við Íslendingar getum ekki fjármagnað það á viðunandi tíma. Því er eðlilegt að nota það boð, sem fyrir liggur, um að varnarliðið fjármagni flughlaðið og leggi 20 millj. dollara til sjálfrar byggingarinnar eða rúman helming áætlaðs byggingarkostnaðar eftir síðustu áætlunum sem mér eru kunnar.

Flm. hafa því ákveðið að leggja mál þetta fyrir Alþingi í frv.-formi og verður þá að ráðast hvort þingið er svo skaplítið að láta minni hluta ráða málinu, en gefa frá sér hið eðlilega vald meiri hlutans, sem er að taka ákvörðun um mál sem þetta og hrinda því í framkvæmd.

Ég sé ekki ástæðu til að fara ítarlega í gegnum frv. því það er stutt.

Í 1. gr. er gert ráð fyrir að reisa skuli og starfrækja flugstöð fyrir farþega- og vöruafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli. Stöðin skal vera algerlega aðskilin frá mannvirkjum varnarliðsins og tryggja skal henni landrými svo að þar geti síðar risið aðrar byggingar til sömu eða skyldra þarfa svo og til samgönguæða að og frá stöðinni.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir að utanrrh. hafi stjórn á byggingu og rekstri stöðvarinnar. Hann á að tryggja fé til framkvæmdanna, og felst auðvitað í því að gert er ráð fyrir að til komi framtag frá varnarliðinu þó að það sé ekki sagt berum orðum. Veitt er heimild til að taka lán fyrir hluta Íslendinga, sem mun vera áætlaður eitthvað nálægt 160 millj. kr. miðað við síðustu teikningar af stöðinni, en hún hefur verið minnkuð til mikilla muna frá því sem var á fyrri stigum. Þá er gert ráð fyrir að utanrrh. skipi byggingarnefnd, er hefur umsjón með undirbúningi og framkvæmd verksins, og hann taki allar endanlegar ákvarðanir um gerð flugstöðvarinnar.

Í 3. gr. er gert ráð fyrir að flugstöðin verði undanþegin öllum sköttum og opinberum gjöldum, allt efni til smíði hennar skuli undanþegið aðflutningsgjöldum.

Að lokum er í 4. gr. gert ráð fyrir að utanrrh. setji reglur um rekstur stöðvarinnar, reikningshald og fjárreiður, daglega stjórn og annað sem þörf krefur.

Þrátt fyrir nokkurt fjárhagslegt framlag varnarliðsins mundi þessi flugstöð verða alíslenskt mannvirki, rekið eingöngu af Íslendingum og mun bera þann svip sem Íslendingar sjálfir setja á hana.

Herra forseti. Að lokinni þessari umr. legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og samgn.