02.12.1981
Neðri deild: 17. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1192 í B-deild Alþingistíðinda. (962)

80. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Jóhann Einvarðsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur frammi til umr., er allrar athygli vert, þó trúlega sé nokkuð sérstakt að flytja frv. um einstakar byggingar. En staða málefnisins, þ. e. flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli, er slík að það eitt gæti réttlætt slíka málsmeðferð. Skoðun mín á flugstöðvarmálinu er ljós. Ég vil láta reisa nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli, — flugstöð sem getur annað hlutverki sínu bæði fyrir starfsmenn sem farþega, flugstöð sem fullnægir þeim öryggiskröfum sem gera verður til slíkrar byggingar auk þess, sem ekki er minnsta atriðið, að aðskilja her og þjóð, eins og sumir hafa viljað kalla það. Þetta er einnig skoðun flm.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um forsögu flugstöðvarmálsins. Hún er öllum kunn. Einnig er öllum ljós staða þess samkv. núverandi stjórnarsáttmála, þ. e. að ekki verði ráðist í byggingu flugstöðvarinnar án samkomulags innan ríkisstj. Í sumar var unnið að þessu máli innan ríkisstj. til að reyna að finna lausn á því. Árangur þess starfs er 10 millj. kr. lántökuheimild í frv. til fjárlaga fyrir árið 1982 vegna flugstöðvarinnar í Keflavík. Í samræmi við það, sem sagt er um málið í athugasemdum við fjárlagafrv., hefur hæstv. utanrrh. skipað þriggja manna nefnd til að taka flugstöðvarmálið til athugunar, eða eins og segir í skipunarbréfi nefndarinnar: „Í 6. gr. frv. til fjárlaga fyrir árið 1982 er gert ráð fyrir allt að 10 millj. kr. lántöku vegna flugstöðvarinnar í Keflavík. Jafnframt því að taka ákvörðun um þessa lánsfjárheimild ákvað ríkisstj. að fela nefnd þriggja manna að taka flugstöðvarmálið til athugunar, m. a. hönnun byggingarinnar og hugsanlega áfangaskiptingu. Gert er ráð fyrir því, að nefndin geri tillögur um það, hvernig fyrrgreind lántaka verði nýtt.“

Í þessa nefnd var ég skipaður ásamt Ólafi Ragnari Grímssyni alþm. og Edgar Guðmundssyni verkfræðingi. Nefndin hefur þegar komið saman og er að safna að sér þeim gögnum sem fyrir liggja. Nefndin hefur þegar haldið nokkra fundi, m. a. með þeim aðilum sem mest hafa unnið að undirbúningi þessa máls, þ. e. hönnuði byggingarinnar, Garðari Halldórssyni húsameistara ríkisins, og formanni byggingarnefndarinnar, Helga Ágústssyni deildarstjóra. Á þessum fundum hefur mest verið rætt um hvernig staða málsins er. Hafa þeir tekið að sér að afla ýmissa upplýsinga fyrir nefndina til að reyna að finna lausn á þessu máli. Við skulum gera okkur fulla grein fyrir því, að sú lausn, sem þarf að finna, er pólítísk lausn á málinu. Um það er, held ég, einhugur að vinna að því í nefndinni. Ég fullvissa hv. alþm. um að ég hef tekið sæti í þessari nefnd vegna þess að ég met það sem raunhæfa leið til að koma flugstöðinni á framkvæmdastig. Ég hef ástæðu til að ætla að svo sé einnig um meðnefndarmenn mína.

Ég get tekið undir öll þau rök, sem hv. 1. flm. frv. rakti áðan, rök þess að reisa nýja flugstöð á Keflavíkurflugvelli. En ég bendi á, og tek undir orð hans varðandi fjárframlag til byggingarinnar, að það er mikið fjármagn sem til þarf og það er vafasamt að menn séu reiðubúnir að taka í einum áfanga þó ekki væri nema þann hluta sem er rætt um sem íslenskt framlag 160 millj. ísl. kr., eins og fram kemur í frv. þeirra, samkvæmt því samkomulagi sem liggur fyrir við Bandaríkjamenn um bygginguna. Mér er til efs að menn séu reiðubúnir að taka það í einum áfanga. Ég held því að menn verði að reyna að finna einhver áfangaskipti að þessari byggingu.

Í framhaldi af því, sem ég hef hér sagt um bygginguna, sé ég ekki ástæðu til að lengja þetta mikið. Ég tel ekki tímabært að meta þörf slíkrar lagasetningar sem hér er gerð tillaga um. þar sem þegar er unnið að málinu innan ríkisstj. af fullum krafti, að ég tel.