02.12.1981
Neðri deild: 17. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

80. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Um alllangt skeið hefur mönnum verið ljóst að flugstöðin á Keflavíkurflugvelli er orðin alls ófær um að gegna því hlutverki sem henni er þar ætlað. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða hlutverk flugstöðvar vegna utanlandsflugs okkar Íslendinga eða það þýðingarmikla hlutverk sem þessi flugstöð gegnir í öryggis- og varnarmálum okkar svo og það samstarf sem við erum í með vestrænum þjóðum. Það er því fullkomin ástæða til að Alþingi fjalli um þetta mál og taki um það ákvörðun og ákveði að hrinda af stað þeirri framkvæmd sem er lögð til í því frv. sem hér er til umr.

Það voru vissulega vonbrigði fyrir okkur, sem erum fylgjandi þessu máli og teljum nauðsynlegt að það nái fram að ganga, hvernig einum þingflokka tókst á síðasta þingi að koma í veg fyrir að málið næði fram að ganga. Hæstv. utanrrh. sagði réttilega áðan að hér væri um að ræða mikilvægt málefni og hér væri um að ræða málefni þjóðarinnar allrar, en skömmu síðar í sinni ræðu kom hann þar máli, að menn mættu ekki gleyma því, hvað stæði í stjórnarsáttmálanum, og þess vegna væri erfitt að koma þessu máli fram á Alþingi. Hv. 1. flm., Benedikt Gröndal, benti réttilega á hvernig farið hefur verið með þetta mál, hvernig fulltrúar mikils minni hluta þjóðarinnar hafa verið látnir ráða ferðinni og sýnast enn vera látnir ráða ferðinni í máli sem er mál þjóðarinnar allrar, eins og hæstv. utanrrh. sagði. Ég held að hæstv. ráðh. hafi orðað það svo, að ekki væri rétt að gleyma því sem í stjórnarsáttmálanum stæði. Ég er sannfærður um að það væri gott fyrir íslenska þjóð ef menn gleymdu því, sem í stjórnarsáttmálanum stæði í þessum efnum, og greiddu atkv. í samræmi við skoðanir sínar á þessu máli. Þá efast ég ekkert um að þetta frv. yrði samþykkt.

Það er búið að kanna þetta mál í alllangan tíma og hv. 2. flm., 1. þm. Reykv., Geir Hallgrímsson, gerði grein fyrir því, hver þróunin hefði verið í þeim efnum. Hann vék jafnframt að þeim mótrökum, sem fram hafa komið í sambandi við þessa framkvæmd, og sýndi fram á hve haldlítil þau eru.

Hæstv. utanrrh. segir að það sé ekkert í stjórnarsáttmálanum um, að ekki megi afla heimildar til lántöku, og það megi sjá á fjárlagafrv. að menn hafi breytt um skoðun frá því á síðasta þingi. Ég held að það sé viðtekin venja, að ef Alþingi veitir heimild til lántöku er Alþingi þar með að samþykkja að framkvæmdir skuli hefjast. Við könnumst mjög vel við að það eru settar inn í fjárlagafrv. örlitlar upphæðir til undirbúnings framkvæmdum, eins og það er orðað. En þegar aflað er heimildar til lántöku hefur það verið skilið svo og framkvæmt að Alþingi hafi ákvéðið að framkvæmdir skuli hefjast.

Það mátti heyra á ræðu hæstv. utanrrh. að málið, eins og það liggur fyrir hjá ríkisstj., eigi ekki greiða leið til samþykktar. Ég efast ekki um skoðanir hans og vilja í málinu. Það kom fram á síðasta þingi í atkvgr. hver afstaða hans þá var. Ég hefði viljað að hans áhrifa hefði þá gætt meira í flokki hans en raun bar vitni. Við skulum vona að þegar þetta mál fær afgreiðslu nú á þingi verði fleiri hendur á lofti með málinu í hópi þeirra framsóknarmanna en reyndust vera á síðasta þingi.

Sú nefndarskipun, sem nú hefur átt sér stað með fulltrúum þeirra sem aðild eiga að ríkisstj., sýnir að vísu ekki að hér sé mál þjóðarinnar allrar, það er ljóst. En ég trúi að a. m. k. hluti nefndarmanna hafi vilja til að fá þetta mál fram og sú vinna, sem þessari nefnd er ætlað að leggja í athugun enn á ný, verði ekki til að tefja þetta mál.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um frv. Ég vildi láta þetta koma fram hér sem skoðun okkar sjálfstæðismanna í Reykjaneskjördæmi.

Ég held að þegar skoðað er, hvað er hér um að ræða, sé eðlilegast að þetta frv. fari til fjh.- og viðskn. Hér er um að ræða fjárfestingu á vegum ríkissjóðs, lántöku á vegum ríkissjóðs. Svo geta menn deilt um það eftir á, þegar byggingin er komin upp, undir hvaða ráðh. hún á að heyra. En samkv. þeim lögum, sem um þessi mál gilda, hlýtur flugstöðin að heyra undir utanrrh. að mínum dómi.