02.12.1981
Neðri deild: 17. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

80. mál, flugstöð á Keflavíkurflugvelli

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Þetta mál, bygging flugstöðvar á Keflavíkurflugvelli, hefur svo oft komið til umr. hér á Alþingi og umr. orðið það langar að í rauninni liggja öll rök með og á móti þeirri framkvæmd ljós fyrir. Það er því alveg þarflaust að bæta frekar í þann bauk.

Ég vil hins vegar taka fram, að það er rétt hjá hæstv. utanrrh., að þrátt fyrir framlagt fjárlagafrv. eru Alþingi og þjóðin raunar engu nær. Engu hefur verið breytt, þrátt fyrir framlagningu fjárlagafrv. með heimildinni til lántöku til byggingar flugstöðvarinnar, vegna þess að í grg. með frv. er ítrekuð sú afstaða sem tilkynnt var við stofnun ríkisstj., að sú heimild og aðrar heimildir verði ekki notaðar nema fullt samkomulag takist um það í ríkisstj. Vitað er að einn flokkurinn í ríkisstj. hefur í stjórnarsáttmálanum tryggt sér neitunarvald í þeirri stofnun. Það er því rétt hjá hæstv. utanrrh., að það hefur raunar ekkert breyst í málinu af hálfu hæstv. ríkisstj. Menn eru engu nær nú en þeir voru í fyrra, og nú eru aðeins eftir 11 mánuðir sem menn hafa til stefnu til þess að geta hafið framkvæmdir eigi samþykkt Bandaríkjaþings á fjárframlagi ekki að falla úr gildi.

Hæstv. utanrrh. orðaði það einhvern veginn svo áðan, að þennan tíma yrði að nota til að reyna að stíga yfir fyrirstöðuna í áföngum — eða svo skildist mér hann orða það. Við skulum gera okkur fyllilega ljóst í þessu sambandi, að einn þingflokkurinn, sem aðeins hefur innan við 20% kjósenda á bak við sig, hefur í þessu tiltekna máli stigið yfir meiri hl. Alþingis í einu skrefi. Það eina skref var tekið þegar til myndunar núverandi ríkisstjórnar var gengið. Þá steig Alþb. í einu fótmáli yfir allan meiri hl. þingheims. Og spurningin er sú, eins og hæstv. utanrrh. orðaði það, hvort líklegt sé að menn geti stigið það eina skref til baka í áföngum. Auðvitað verður reynslan ein að skera úr um hvort það er hægt, en ég held að það sé varla hægt að víkja svo af þessu þingi að Alþingi verði ekki sjálft að taka ákvörðun um hvort það vill láta það á sig sannast, að einn þingflokkurinn með 11 þm. innanborðs geti í þessu tiltekna máli stigið yfir alla aðra þingflokka í einu skrefi.

Vakin hefur verið athygli á því, að þeir aðilar, sem telja sig mestu ráða um þetta mál, hafa nú verið fjarverandi frá þingfundi þegar málið hefur verið tekið til umr. Ráðh. Alþb. hafa ekki verið í salnum. Enginn Alþb. maður hefur tekið til máls. Þeir hafa flestir verið á göngu utan salar. Þeir hafa m. ö. o. hagað sér svipað og þeir haga sér þegar formaður þingflokks þeirra ræðir utanríkismál hér í þinginu. Þá velja þeir sér gjarnan þá afstöðu að vera ekki við. Þessi fjarvera þeirra Alþb. manna er annaðhvort til marks um að þeir hafi afráðið að taka þátt í lausn vandans, og ber þá auðvitað að fagna því, ellegar hún er til marks um að þeir telji þarflaust að hafa nokkur frekari afskipti af málinu þar sem úrslit þess séu þegar ráðin. Auðvitað getur enginn skorið úr um það annar en reynslan ein. En e. t. v. er það til marks um „Finnlandiseringu“ þeirra sjálfstæðismanna, sem í ríkisstj. sitja, og framsóknarmanna líka að sterkasta aflið, sem setur þessum aðilum stólinn fyrir dyrnar í núverandi hæstv. ríkisstj., þarf ekki einu sinni að vera viðstatt þar sem ákvarðanirnar eru teknar og umr. fara fram.

Herra forseti. Ég tók eftir því, að hv. þm. Jóhann Einvarðsson mæltist áðan til þess, að ekki yrði gengið til afgreiðslu þessa frv. nú þegar. Ég skil orð hans svo, að hann telji vænlegt og geri að tillögu sinni að beðið sé með afgreiðslu frv. á Alþingi fram eftir vetrinum, þangað til séð verður hvort samkomulag tekst í ríkisstj. um framkvæmdina, en Alþingi fari ekki svo brott frá fundum nú í vetur að málið sé ekki tekið upp og afgreitt og þá væntanlega með samþykkt Alþingis og þingmeirihlutinn fái vilja sinn fram, ef ekki tekst það samkomulag í hæstv. ríkisstj. sem hæstv. utanrrh. orðaði eitthvað í þá veru að taka eigi til baka í áföngum það eina skref sem stigið var yfir meiri hluta Alþingis við stofnun núv. hæstv. ríkisstj.