02.12.1981
Neðri deild: 17. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (969)

99. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Í framhaldi af umr., sem urðu um þetta frv. þegar það var tekið til 1. umr. á síðasta þingfundi deildarinnar, vil ég aðeins bæta litlu við.

Ég vil þakka þær góðu undirtektir sem frv. fékk hjá hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. Hér er ekki um stórt mál að ræða, en samt mjög þýðingarmikið fyrir rekstraraðila félagsheimila í landinu. Frv. er flutt til að taka af öll tvímæli að því er varðar álagningu á félagsheimili, og hafa skattstjórar beinlínis óskað eftir að hér væru tekin af öll tvímæli um framkvæmd laganna.

Ég vil taka undir ummæli hv. 10. þm. Reykv. um nauðsyn þess að efla Félagsheimilasjóð. Ég er reiðubúinn að vinna að því máli, m. a. með því að endurskoða álagningu skemmtanaskatts.

Vegna tilmæla, sem ég beindi til hæstv. fjmrh. um að innheimtumenn ríkissjóðs fengju fyrirmæli um að fresta innheimtu álagðra gjalda á þau félagsheimili sem ég nefndi í framsöguræðu minni, vil ég taka það fram, að hér er ekki um að ræða að fresta almennri innheimtu á gjöldum, heldur er hér um að ræða frestun á innheimtuaðgerðum sem þegar hafa verið boðaðar af skattyfirvöldum eða innheimtumönnum ríkisins á umrædd félagsheimili, þ. e. lögtaksaðgerðum og því sem þeim fylgir. Ég vil ítreka það hér, að ég tel réttlætismál og raunar sjálfsagt að frestað sé innheimtuaðgerðum á þessa aðila meðan beðið er eftir afgreiðslu þessa frv. hér á Alþingi.

Ég vil að lokum skora á hv. alþm. að sameinast um að afgreiða þetta mál, helst fyrir þinghlé, og vísa svo til framsöguræðu minnar að öðru leyti.