03.12.1981
Sameinað þing: 30. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1207 í B-deild Alþingistíðinda. (979)

115. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um landgrunnið milli Íslands og Jan Mayen

Utanrrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér er til umr., mun heimila ríkisstj. að staðfesta fyrir Íslands hönd samkomulag við Norðmenn um landgrunnið á svæðinu milli Íslands og Jan Mayen. Samkomulagið var undirritað í Osló 22. okt. s. l. Undirritunin var meðal fyrstu embættisverka utanrrh. hinnar nýju norsku ríkisstj. Með samkomulagi þessu og samkomulaginu frá 28. maí 1980 um fiskveiði- og landgrunnsmál er fundin lausn á þeim deilum sem staðið hafa milli Íslands og Noregs síðustu ár um lögsögu á hafsvæðinu við Jan Mayen.

Með lögum nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, var gert ráð fyrir að efnahagslögsaga á landgrunni Íslands næði 200 sjómílur í áttina að Jan Mayen, en fjarlægðin milli Íslands og Jan Mayen er um 290 sjómílur. Norðmenn töldu hins vegar að skipta ætti svæðinu eftir miðlínu. Samkv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 41/1979 skal afmörkun efnahagslögsögu og landgrunns milli Íslands og annarra landa ákveðin með samningum og skulu þeir háðir samþykki Alþingis. Árangur samningaviðræðna við Norðmenn var fyrrgreint samkomulag frá 28. maí 1980 um fiskveiði- og landgrunnsmál.

Í því samkomulagi var sú leið farin að gera fyrst um sinn aðallega ráðstafanir um fiskveiðimál á svæðinu. Það samkomulag hefur Alþingi samþykki og það hefur hlotið staðfestingu. Skal ég ekki ræða um það hér frekar, nema hvað ég vil segja að það er mín skoðun, að miðað við allar aðstæður sé það samkomulag hagkvæmt fyrir okkur Íslendinga.

Í þessu samkomulagi, sem ég nefndi, voru settar nokkrar meginreglur um landgrunnið, um ráðstafanir til að koma í veg fyrir mengun og vegna rannsókna og vinnslu auðlinda á landgrunninu. Ég mun síðar aðeins víkja að þeim áfanga. Um sjálfa afmörkun landgrunnsins var ákveðið að fjalla í framhaldsviðræðum. Í því skyni var samþykki að skipa sáttanefnd þriggja manna til að gera tillögur til ríkisstjórnanna um skiptingu landgrunnssvæðisins. Tillögur þessar áttu ekki að vera skuldbindandi, en ríkisstjórnirnar hétu því að taka sanngjarnt tillit til þeirra í frekari málsmeðferð.

Fljótlega eftir gildistöku samkomulagsins frá árinu 1980 gengu ríkisstjórnir Íslands og Noregs frá skipun sáttanefndar. Hans G. Andersen sendiherra var skipaður í nefndina af Íslands hálfu. Jens Evensen sendiherra af Noregs hálfu og Elliot L. Richardson, þáv. formaður sendinefndar Bandaríkjanna á Hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, var skipaður formaður sáttanefndarinnar.

Nefndin tók til starfa í ágúst 1980 og skilaði tillögum sínum í maímánuði s. l. Eftir ítarlega athugun samþykktu ríkisstjórnir Íslands og Noregs að ganga að tillögum nefndarinnar og er meginefni þeirra tekið upp í því samkomulagi sem hér er til umr.

Nefndin byggði álitsgerð sína að miklu leyti á niðurstöðum vísindamannafundar sem hún boðaði til. Meðal þáttakenda voru dr. Guðmundur pálmason forstöðumaður jarðhitadeildar Orkustofnunar og Karl Guðmundsson jarðeðlisfræðingur hjá Orkustofnun.

Þegar athugað er, hvernig skipta ber landgrunnssvæði milli tveggja landa, skiptir miklu hvort líta má á einstaka hluta landgrunnsins sem „náttúrulegt framhald“ annars hvors ríkisins. Vísindamennirnir athuguðu þetta sérstaklega, bæði sem landmótunarlegt atriði og sem jarðfræðilega byggingu. Þeir töldu norðurhluta Jan Mayenhryggjarins landmótunarlegt framhald af Jan Mayenlandgrunninu, en ekki Íslandi. Hins vegar töldu þeir hrygginn hvorki náttúrulegt framhald Jan Mayen né Íslands hvað snertir jarðfræðilega byggingu. Vísindamennirnir voru beðnir að gera grein fyrir því, hvar á svæðinu væru líkur fyrir að olíuefni fyndust. Almennt töldu þeir líkur ekki miklar, en mestar þó á norðurhluta Jan Mayen-hryggjarins.

Á grundvelli niðurstaðna vísindamannanna og að lokinni ítarlegri athugun á öðrum hliðum málsins lagði sáttanefndin til að mörk landgrunnsins yrðu þau sömu og mörk efnahagslögsögunnar. Gert yrði ráð fyrir sameiginlegri nýtingu Íslands og Noregs á 45 þús. km2 svæði á Jan Mayen-hryggnum, þar sem líkur voru taldar mestar að olíuefni fyndust. Íslendingar fengju 25% hlutdeild í auðlindum á norska hluta svæðisins og Norðmenn 25% í íslenska hlutanum. Fyrsta stig rannsókna á öllu svæðinu yrði kostað af Norðmönnum. Um aðra þætti tillagna nefndarinnar leyfi ég mér að vísa til athugasemda með þáltill. þar sem niðurstöður sáttanefndarinnar eru birtar í heild, og vegna þess, hve grg. með till. er ítarleg, mun ég leyfa mér að fara fljótar yfir en ella mundi gert.

Eins og fyrr er sagt ákváðu íslensk og norsk stjórnvöld að fara eftir tillögum sáttanefndarinnar við gerð samnings um landgrunnið, auk þess sem þeir samþykktu að fjalla sérstaklega um mengunarvarnir. Samkomulagið, eins og það nú liggur fyrir, gerir ráð fyrir eftirfarandi höfuðatriðum:

Í fyrsta lagi: Mörk landgrunnsins verða þau sömu og ytri mörk efnahagslögsögu Íslands, sbr. 1. gr. samkomulagsins.

Í öðru lagi: Ákveðið sameiginlegt nýtingarsvæði, sbr. 2. gr. samkomulagsins. Tæpir 33 þús kr2 liggja innan norskrar lögsögu og um 13 þús. innan íslenskrar lögsögu. Ísland á rétt á 25% þátttöku í nýtingu auðlinda á norska hlutanum og Norðmenn 25% þátttöku í íslenska hlutanum, sbr. 5. og 6. gr. samkomulagsins. Tekið er sérstaklega fram að Íslendingar geti gengið að sínum hluta jafnvel eftir að komið hefur í ljós að um arðbært svæði sé að ræða.

Meginreglur um rannsóknir og nýtingu auðlinda á svæðinu eru í 3.–8. gr. samkomulagsins og eins og ég sagði áðan er þar m. a. gert ráð fyrir að Norðmenn kosti fyrsta þátt rannsókna, sbr. 3. gr. samkomulagsins.

Um mengunarvarnir er fjallað í 9. gr. samkomulagsins. Eins og ég nefndi í upphafi voru einnig ákvæði þar um í samkomulaginu frá 1980. Þar er gert ráð fyrir nánu samstarfi um nauðsynlegar öryggisreglur til að koma í veg fyrir mengun. Samkv. því samkomulagi verður hvor aðili um sig að leggja fyrir hinn fastmótaðar áætlanir um framkvæmdir varðandi rannsóknir eða vinnslu auðlinda með hæfilegum fyrirvara. Þetta ákvæði gildir auðvitað áfram. En í því samkomulagi, sem hér um ræðir, er nánar kveðið á um þessi mál hvað varðar rannsóknir og vinnslu á sameiginlega nýtingarsvæðinu. Telji annar aðilinn, að reglur hins um öryggisráðstafanir og umhverfisvernd veiti ekki nægllega vernd, má að undangengnum viðr ræðum vísa málinu til sáttanefndar. Ekki skal hefja eða halda áfram rannsóknum eða vinnslu á svæðinu fyrr;en tillögur sáttanefndarinnar liggja fyrir, nema brýn þörf krefji, þ. e. ekki nema óhjákvæmilegra aðgerða sé þörf, t. d. til að fyrirbyggja alvarlega mengunarhættu, ef einhver bilun kæmi fram í sambandi við borun eða því um líkt.

Tillögur sáttanefndarinnar eru ekki skuldbindandi, en aðilar skulu taka sanngjarnt tillit til þeirra og frekari rannsókna.

Herra forseti. Ég hef hér á undan reynt að gera í stuttu máli grein fyrir þeim meginatriðum sem er að finna í þessu samkomulagi. Að öðru leyti leyfi ég mér að vísa til athugasemda við það og skýrslu sem þar er að finna frá sáttanefndinni.

Samkv. 10. gr. þessa samkomulags öðlast það ekki gildi fyrr en það hefur hlotið staðfestingu hjá báðum löggjafaraðilum. Tillaga um staðfestingu af Noregs hálfu verður lögð fyrir norska Stórþingið á næstunni. Með þáltill. þeirri, sem hér liggur fyrir, er leitað samþykkis Alþingis á staðfestingu af Íslands hálfu.

Ég leyfi mér svo að leggja til að að loknum umræðum nú verði umr. frestað og till. vísað til utanrmn.