03.12.1981
Sameinað þing: 30. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1216 í B-deild Alþingistíðinda. (984)

115. mál, samkomulag milli Íslands og Noregs um landgrunnið milli Íslands og Jan Mayen

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. utanrrh. fyrir svar hans. Það gleður mig að heyra að unnið hefur verið að málinu meira en ég vissi, og ég efast ekki um að hæstv. ráðh. muni upplýsa það á utanrmn.-fundi. Enn fremur get ég lýst því yfir, að ég treysti honum til að taka málið enn fastari tökum, ef þörf er á. Það kemur í ljós n. k. mánudag þegar fundur utanrmn. verður haldinn. En hitt er alveg ljóst, að við getum ekki látið málið kyrrt liggja. Úr því að breska ríkisstj. hefur samþykkt formlegar viðræður og þegar mætt til eins fundar hljótum við að halda þeim fundum áfram. Það getur verið að réttindi, sem við nú höfum, og tækifæri til að ná samkomulagi við nágrannaþjóðir okkar verði ekki fyrir hendi síðar. Þess vegna má engan tíma missa.

Ég vil enn fremur láta í ljós ánægju mína yfir því, að hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson túlkar ákvæði þessa nýja samkomulags eins og ég, á þann veg að það styrki rétt okkar til 50% réttinda yfir öllum auðæfum Jan Mayensvæðisins og það styrki þau ákvæði í fyrra samkomulagi, sem í þá átt benda. Auðvitað hljótum við Íslendingar að halda fram þeim skilningi og hvika hvergi frá honum, að við eigum í emu og öllu jafnan rétt og Norðmenn á þessu svæði og meiri rétt að því er varðar ákvörðun um meiri rétt að því er varðar ákvörðun um heildarmagn loðnu, enda er það berum orðum fram tekið. Ef við stöndum sameinaðir um þennan skilning er sigurinn eins og hann átti að vera og eins og að var stefnt, fullnaðarsigur í vináttu við frændþjóð.