07.12.1981
Efri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1221 í B-deild Alþingistíðinda. (986)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Iðnrh. (Hjörleifur Gnttormsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyt. á lögum nr. 83/1974, um verðjöfnunargjald af raforku, sbr. lög nr. 99/1979 og lög nr. 105/1980. Í gildandi lögum um verðjöfnunargjald af raforku er ákveðið að lögin gildi til ársloka 1981. Með frv. þessu er lagt til að lögin verði framlengd um eitt ár og gildi til ársloka 1982.

Verðjöfnunargjald af raforku er innheimt af allri raforkusölu í smásölu annarri en til húshitunar og nemur gjaldið 19% og er lagt á sama stofn og söluskattur er lagður á. Gjaldinu er sem kunnugt er varið til að styrkja fjárhag Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða og gera þessum orkuveitum kleift að halda niðri verðlagningu sinni umfram það sem ella væri. Rafmagnsveiturnar fá 80% gjaldsins, en Orkubúið 20%. Lagt er til að upphæð gjaldsins verði áfram 19%, en hins vegar er sú breyting lögð til frá gildandi lögum, að verja skuli allt að þrem prósentustigum af gjaldinu til þess að greiða eftirstöðvar af kostnaði Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða sem þessi fyrirtæki voru neydd til að taka á sig vegna framleiðslu á raforku með dísilvélum á s. l. vetri.

Mönnum er væntanlega enn í fersku minni sá raforkuskortur sem varð í landskerfinu á næstliðnum vetri. Vatnsaflsstöðvar landsins önnuðu þá engan veginn raforkuþörfinni. Var afhendingu á allri afgangsorku hætt og forgangsorka skert, bæði til stóriðju og almenningsrafveitna. Skerðingin til rafveitnanna var m. a. bætt með framleiðslu á raforku í olíukyntum stöðvum og var þannig komist hjá beinni rafmagnsskömmtun til almennings. Fyrir þessum málum er nánari grein gerð í grg., en ég vil þó fara nokkrum orðum frekar um þennan kostnað.

Heildarkostnaður við þessar aðgerðir var talinn nema rúmum 24 millj. kr. aukþess sem Landsvirkjun varð fyrir verulegu tekjutapi með minnkandi sölu. Hluti þessa kostnaðar var greiddur með almennri verðhækkun á rafmagni í þrjá mánuði. Það, sem upp á vantaði, var tekið að láni af Rafmagnsveitunum og Orkubúinu, en góð staða Laxárvirkjunar gerði henni kleift að komast hjá lántöku. Aðrar rafveitur fengu útgjöld sín að fullu bætt með verðhækkunum, þ. á m. Rafmagnsveita Reykjavíkur og Rafmagnsveita Hafnarfjarðar.

Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúinu var gefið fyrirheit um að lánin yrðu endurgreidd af verðjöfnunargjaldi næsta árs. Því er lagt til að varið verði allt að 3% af verðjöfnunargjaldinu á árinu 1982 til að greiða niður lán þau sem tekin voru vegna orkuskortsins, en þau námu 6.1 millj. kr. hjá Rafmagnsveitum ríkisins og 4.7 millj. kr. hjá Orkubúi Vestfjarða. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1982 er gert ráð fyrir að verðjöfnunargjald af raforku nemi 90.2 millj. kr. 3% þar af nema 14.2 millj. kr., en það ætti að nægja til greiðslu á áðurnefndum lánum auk vaxtakostnaðar.

Vegna raforkuskortsins á liðnum vetri og hins mikla kostnaðar, sem af honum leiddi, reyndist ekki fært að nýta heimild, sem þá var í gildandi lögum, um að lækka verðjöfnunargjaldið úr 19% í 16% á miðju ári eða frá 1. júní, eins og það mun hafa verið orðað í lögum. Fjárhagsstaða Rafmagnsveitnanna og Orkubúsins reyndist það slæm, þegar metið var hvort nýta ætti áðurnefnda heimild, að ekki þótti fært að skerða þennan tekjustofn. Verður fyrir lok næsta árs endurmetið hvort fært þykir að lækka verðjöfnunargjaldið og þá í tengslum við úttekt á fjárhagsstöðu Rafmagnsveitnanna og Orkubúsins og stefnumörkun um verðlagningu á raforku í landinu í heild. Slík athugun á verðlagningarstefnu orku fer nú fram og ég vænti þess, að unnt verði að taka ákvarðanir í því máli til breytinga frá núverandi horfi.

Önnur breyting frá gildandi lögum, sem lögð er til nú, er sú, að iðnrh. verði á árinu 1982 heimilt að fela Orkusjóði að endurgreiða Rafveitu Siglufjarðar verðjöfnunargjald af raforku sem nemi allt að þeirri upphæð sem innheimt verður af raforkusölu veitunnar. Í umr. um framlengingu á verðjöfnunargjaldi fyrir ári kom fram að Rafveita Siglufjarðar átti í miklum fjárhagserfiðleikum. Fór rafveitan þá fram á að fá hluta af verðjöfnunargjaldinu greiddan til sín. Þótti ekki fært þá að verða við þeirri ósk, þar sem m. a. lá ekki fyrir greining á fjárhagsvanda fyrirtækisins. Sú athugun fór fram fyrr á þessu ári og kom þá m. a. fram að lánstími á lánum þeim, sem tekin höfðu verið, var of stuttur og lánakjör óhagstæð. Við þessu var brugðist með útvegun láns til langs tíma, en á lánsfjáráætlun hafði verið gert ráð fyrir slíkri lántöku. Síðar hefur komið í ljós að aðgerðir þessar nægðu ekki til að rétta af greiðslustöðu fyrirtækisins, og er viðbúið að til frekari aðgerða þurfi að koma. Nú er unnið að uppgjöri á stöðu Rafveitu Siglufjarðar það sem af er árinu og verður þörfin á að nýta greiðsluheimild þá, sem hér er lagt til að veitt verði, metin í ljósi niðurstöðu þeirrar athugunar.

Fjárhagsstaða Rafveitu Siglufjarðar er m. a. háð atvinnulífi á staðnum og hversu miklar tekjur koma inn til veitunnar frá atvinnurekstri. Minnkandi loðnuafli og stöðvun loðnuveiða nú að verulegu leyti mun m. a. leiða til allverulegs tekjutaps hjá veitunni. Með endurgreiðslu verðjöfnunargjaldsins ætti að vera hægt að bæta fjárhagsstöðu fyrirtækisins allverulega. Það skilyrði verður þó sett fyrir endurgreiðslunni, að gjaldskrá Rafveitunnar verði a. m. k. ekki lægri en gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins, Orkubús Vestfjarða og annarra þeirra rafveitna er halda verða uppi tiltölulega háu raforkuverði.

Þriðja breytingin, sem lagt er til að gerð verði frá því sem var í gildandi lögum, er að dráttarvextir af því, sem ógreitt er frá gjalddaga af verðjöfnunargjaldi, verði þeir sömu og hjá innlánsstofnunum samkv. ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Í gildandi lögum, 5. gr. laga nr. 83/1974, eru dráttarvextir ákveðnir 1.5% fyrir hvern byrjaðan mánuð talið frá gjalddaga. Eins og kunnugt er hafa vextir stórhækkað frá 1974 og munu dráttarvextir nú vera 4.5% á mánuði. Undanfarið hefur innheimta gjaldsins dregist úr hófi og mun ástæðan m. a. vera lágir dráttarvextir. Í þeim tilgangi að flýta innheimtu gjaldsins er þessi breyting lögð til.

Um fjárhagsstöðu Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða, en þessi fyrirtæki njóta nú verðjöfnunargjaldsins, má m. a. greina frá eftirfarandi:

Allar rafveitur landsins fengju 10% gjaldskrárhækkun um síðustu áramót. Eftir þá hækkun hafa gjaldskrár Rafmagnsveitnanna og Orkubúsins hækkað um 41.3% og Rafmagnsveitu Reykjavíkur um 42.6%. Aðrar rafveitur hafa hækkað sínar gjaldskrár frá 57.5% til 68.6%. Hefur verið dregið úr gjaldskrárhækkunum Rafmagnsveitnanna og Orkubúsins í samanburði við það sem orðið hefur hjá nokkrum öðrum rafveitum auk þess að draga enn frekar úr þeim mun sem verið hefur á gjaldskrám þessara veitna og annarra og þá fyrst og fremst Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Nú er svo komið að tæpast verður gengið lengra í þessu efni miðað við fjárhagsstöðu Rafmagnsveitnanna og Orkubús Vestfjarða, þó að sá munur, sem þarna er á rafmagnsverði, sé enn þá of mikill og stefna þurfi að því að draga enn frekar úr honum. Á gjaldskrá fyrir heimilisnotkun er munurinn milli Rafmagnsveitu Reykjavíkur og Rafmagnsveitna ríkisins nú um 20% eða á bilinu 20–25% eftir því við hvaða nýtingartíma er miðað. Þessar aðgerðir, að draga úr þessum mun, hafa hins vegar eðlilega rýrt fjárhagsstöðu fyrirtækjanna umfram það sem ella hefði verið. Þannig er m. a. gert ráð fyrir að allverulegur rekstrarhalli verði hjá Rafmagnsveitunum á yfirstandandi ári, eða allt að 20 millj. kr., og nálægt 8 millj. kr. hjá Orkubúi Vestfjarða. Hin bága afkoma þessara fyrirtækja, sem sjá verða fyrir margháttuðum þörfum dreifbýlisins, bæði stofnframkvæmdum og erfiðum rekstri, rennir stoðum undir það mat, að halda beri verðjöfnunargjaldinu í því horfi sem nú er. Af þeim sökum var ekki talið fært að nýta heimild til lækkunar þess á miðju yfirstandandi ári.

Herra forseti. Það mætti margt segja um verðlagningarmálin og þann verulega mun sem ríkt hefur og enn ríkir milli einstakra landshluta. Það hefur hins vegar tekist á undanförnum árum að minnka þennan mun verulega í sambandi við taxta fyrir almenna heimilisnotkun raforku. Enn ríkir hins vegar mjög mikill munur sem kunnugt er í sambandi við verðlagningu á orku til húshitunar, og það er fátt sem hefur meiri áhrif á mismunandi aðstöðu manna í landinu en einmitt sá munur. En ég ætla ekki að fara að fjölyrða um það efni hér og nú því að það er utan við ramma þess frv. sem hér er til umr. Hins vegar snertir það verðjöfnunarmál á orku almennt. Þau mál eru nú til sérstakar athugunar í nefnd skipaðri fulltrúum allra þingflokka, að ég best veit, og tillagna frá henni mun að vænta innan ekki mjög langs tíma. Á þeim málum þarf vissulega að taka og ná fram leiðréttingu umfram það sem nú er og henni helst aliverulegri.

Þetta frv. fjallar um efni sem hefur verið árviss llður hér, þar sem lögin eru framlengd frá ári til árs, og vænti ég þess, að það fái góðar viðtökur hér í hv. þd. Að lokinni þessari umr. legg ég til, herra forseti, að því verði vísað til hv. iðnn.