07.12.1981
Efri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (988)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég tek undir það með hv. síðasta ræðumanni, að þetta mál hefur að því leyti til batnað, að ekki er mismunað eins og áður þeim aðilum sem eiga að njóta þessa skatts sem er innheimtur. En ég vil á það benda, að verðjöfnunargjaldið, eins og það er hugsað, hefur frá öndverðu verið dálítið undarlegt að því leyti til, að þeir, sem borga hæsta raforkuverðið, borga hæsta verðjöfnunargjatdið. Að þessu leyti hefur þessi skattur verið ýmsum mönnum þyrnir í augum og oft hefur verið um það rætt að finna aðra leið til að jafna verð á raforku í landinu, að ég tel fyrst og fremst á þeim forsendum að á þessu gjaldi er verulegur galli.

Það var þó ekki fyrst og fremst það sem ég ætlaði að ræða nú, heldur almennt um gjaldtöku, skattlagningu til raforkumála og á raforku og þá kannske nokkur orð um verðlagningu á raforku, sem hæstv. ráðh. gat um að væri verið að athuga í heild sinni. Þá vildi ég spyrja hann hvort það sé rétt skilið hjá mér t. d., að þannig sé ástatt nú með verðlagningu á raforku að gert sé ráð fyrir að Rafmagnsveita Reykjavíkur þurfi að taka verulegt erlent lán til að standa undir rekstri á þessu ári.

Hæstv. ráðh. gat þess í sinni frumræðu, að það væri verulegur halli á Rafmagnsveitum ríkisins og Orkubúi Vestfjarða og jafnframt að þessi veitufyrirtæki veittu mikla þjónustu fyrir dreifðar byggðir landsins. Að því leyti til getur maður kannske skilið að þegar ekki árar vel skuli vera þarna nokkur halli á. En þeim rafmagnsveitum, sem þjóna þéttbýlinu, ætti að vera í lófa lagið að reka sitt fyrirtæki og það skýtur skökku við þegar þær eru reknar með verulegum halla. Þess vegna spyr ég hvort það sé rétt, að gert sé ráð fyrir að Rafmagnsveita Reykjavíkur þurfi að taka allverulegt erlent lán til þess að reka starfsemi sína í ár.

Svo er annað atriði sem mér er forvitni á að vita um. Í grg. með fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir árið 1982 segir svo, með leyfi forseta:

„Þá er þess að geta, að fyrirhugað er að leggja sérstakt gjald á raforkusölu eftir stofnlínum, alls 40 millj. kr. Er það gert til þess að draga úr lántökum vegna fjármagnskostnaðar við þær framkvæmdir.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðh. — ég hef reynt að fá upplýsingar um það áður — hvort ætlunin sé að leggja þetta gjald á, hvernig ætlunin sé þá að þessi nýi skattur að upphæð 40 millj. nýkr. leggist á og hvort það verði þá ekki gert ráð fyrir honum í tekjuáætlun fjárlaga fyrir árið 1982. Þar á hann að sjálfsögðu heima þar sem um er að ræða skatt, gjaldtöku eða skatt, og þá tekjur fyrir ríkissjóð. Þessi skattur á að sjálfsögðu heima í fjárlögum en ekki utan fjárlaga í lánsfjáráætlun. Ég spyr sérstaklega vegna þess að í ár er gert ráð fyrir að skera verulega niður olíustyrki frá gildandi fjárlögum. Þeir eru skornir niður, samkv. bréfi sem viðskrn. sendi fjvn., um allt að 20 millj. nýkr. og á yfirstandandi ári rennur í ríkissjóð verulegur afgangur af orkujöfnunargjaldi þegar frá eru dregnar beinar fjárveitingar til olíustyrkja og til orkumála. En í frv. fyrir næsta ár er gert ráð fyrir að hvorki meira né minna en um 100 millj. nýkr. verði afgangs af orkujöfnunargjaldi ef frá er dreginn olíustyrkur og fjárveitingar til orkumála. Í ár er þessi afgangur óverulegur þegar þessar fjárveitingar eru bornar saman, vegna þess að þá var gert ráð fyrir verulegum beinum fjárveitingum til greiðslu á fjármagnskostnaði vegna Kröflu og fleiri slíkra atriða. En samkv. fjárlagafrv. á næsta ári fæ ég ekki betur séð en þessi afgangur verði þegar búið er að draga frá fyrirhugaðan olíustyrk, beinar fjárveitingar til Orkusjóðs og ýmissa orkuframkvæmda, t. d. fjárhagsbyrði ríkissjóðs af því að greiða afborganir og vexti af lánum Rafmagnsveitna ríkisins. Ég hef dregið þessa liði alla samviskusamlega frá þessari tölu, en beinar fjárveitingar til orkumála eru ekki það háar og af 190 millj. kr. orkujöfnunargjaldi, sem ætlunin er að leggja á samkv. frv., verða eftir um 100 millj. til almennra þarfa ríkissjóðs. Þá er spurningin hvort ekki sé heiðarlegra að breyta þessu orkujöfnunargjaldi, ef það á að vera í þessum mæli, í almenna fjáröflun fyrir ríkissjóð.

Ég vildi aðeins í þessu sambandi óska eftir að fá þessar upplýsingar frá hæstv. ráðh. þar sem öll þessi atriði, sem ég kom hér inn á, varða skattlagningu á orku og til orkumála. Ég skal aðeins geta þess, að mér sýnist að beint framlag, bein fjárveiting ríkissjóðs til Orkusjóðs lækki að raungildi meira en um helming frá árinu í ár miðað við fjárlagafrv. Það er sjálfsagt ein meginskýringin á því, hvað mikið verður eftir af orkujöfnunargjaldinu til handa ríkissjóði á næsta ári. — Mér þætti vænt um ef hæstv. ráðh. gæti svarað þessu.