07.12.1981
Efri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1227 í B-deild Alþingistíðinda. (990)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það frv. sem hér er til umr., en vegna þess að af eðlilegum ástæðum hafa spunnist nokkrar umr. um jöfnnun hitunarkostnaðar vil ég leyfa mér að segja örfá orð.

Það kom fram í framsöguræðu hæstv. iðnrh. að nefnd væri að störfum til að endurskoða einmitt þau mál. Sem formaður þeirrar nefndar, sem fjallar um endurskoðun á lögum um jöfnun og lækkun hitunarkostnaðar, vil ég stuttlega gera grein fyrir því, á hvaða stigi sú endurskoðun er.

Því miður hafa störf þessarar nefndar tafist allnokkuð og meira en góðu hófi gegnir. Ég á svo sem engar sérstakar skýringar á því, en ýmissa hluta vegna hafa störf nefndarinnar tafist meira en góðu hófi gegnir. En nefndin er nú að sförfum af nokkru kappi. Við höfum hugað að ýmsum leiðum sem til greina geta komið til að jafna hitunarkostnað, en eins og allir vita er um mikið misrétti að ræða eftir því, hvort menn kynda hús sín með olíu eða með orku frá ódýrustu hitaveitunum. Reyndar virðist okkur að hitunarkostnaður með raforku sé að verða nokkuð hár líka, og vandamálið, eins og það hefur legið fyrir hjá nefndinni að undanförnu, er einmitt að veruleg niðurgreiðsla á olíu þýðir að niðurgreidd olía rekur sig fljótt á hitunartaxta með raforkunni.

Við höfum m. a. rætt við forstjóra Rafmagnsveitna ríkisins, Kristján Jónsson, um þessi mál og erum, eins og ég segi, að velta fyrir okkur ýmsum leiðum í þessu sambandi. Það hafa vissulega komið til umræðu leiðir eins og orkuskattur á alla orku, sem hæstv. iðnrh. nefndi hér áðan. Ég tel að það þurfi að skoða það mál vel, en eins og er munum við beita okkur sérstaklega að því að fjalla um olíuna sem slíka og þau áhrif sem hún hefur á hitunarkostnaðinn. Olíustyrkirnir hafa í raun lækkað nokkuð frá því að við samþykktum lög um lækkun og jöfnun hitunarkostnaðar, sem einkum tóku til olíustyrkja, og felst það í því, að þeir hafa ekki hækkað í krónutölu; það er sama upphæð greidd, hver styrkur er jafnhár og ákveðið var í upphafi. Nefndin er nú eingöngu að fjalla um hvernig haga megi niðurgreiðslu olíu án þess að rekist verulega á aðra hitunarkosti, að við förum ekki að greiða olíu svo niður að hún verði ódýrari en aðrir hitunarkostir og þá að sjálfsögðu inniendir, raforka eða dýrari hitaveitur.

Hér er um verulegan mun að ræða, eins og allir vita, á olíukyndingu og ódýrustu hitaveitunum, og því verður misréttið eða mismunurinn svo gríðarlega mikill. Þess vegna verður að taka þessi mál föstum tökum. Ég vonast til að nefndinni auðnist innan ekki allt og langs tíma að skila frá sér áliti þar sem einhver lína verði mörkuð í því að jafna hitunarkostnað, en eins og ég segi, erum við nú eingöngu að athuga olíustyrkina sem slíka og hvernig leysa megi þann brýna vanda.

Þetta vildi ég aðeins að kæmi fram í þessum umr.