07.12.1981
Efri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1229 í B-deild Alþingistíðinda. (992)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er einvörðungu út af því, að orkujöfnunargjaldið hefur blandast inn í þessa umr, að ég kveð mér hér hljóðs. Og þá vek ég fyrst og fremst athygli á því, hvernig umr. — ekki einungis hér, heldur í margan annan tíma — hefur breyst í sambandi við orkujöfnunargjaldið. Þegar um það var fjallað hér á Alþingi og reyndar víðar var sérstaklega lagður til grundvallar sá mismunur sem er á milli fólksins í hinum einstöku byggðum, lífskjaramismunur, á því að hita upp híbýli sín með heitu vatni og hins vegar að hita þau upp með olíu. Þetta var í rauninni grundvallaratriði í sambandi við lagasetningu, sem hér fór fram, og tillögugerð þar að lútandi.

Nú er hins vegar farið að blanda öðrum atriðum inn í þetta, eins og raforkutöxtum. Og menn eru þá gjarnan farnir að gleyma þeim ákaflega mikla mismun sem enn er á milli byggðarlaga og um leið lífskjara fólksins í landinu, þeim mikla mismun sem er á upphitun með hitaveitu annars vegar og olíu hins vegar. Þetta keyrir svo úr hófi fram, að þótt nálega allir sjóðir, sem vitað er um, séu orðnir galtómir, þá safnast nú fyrir fjármagn í húshitunarsjóði, ef ég má kalla hann því nafni, í viðskrn., þannig að það eru horfur á að af því fjármagni, sem þangað berst samkv. síðustu fjárlagaafgreiðslu, verði ekki nema helmingnum dreift. Þessi niðurstaða skýrist af því, að raforkuverðið, raforkutaxtarnir séu það háir, að það sé ekki hægt að greiða niður hina rándýru olíuupphitun af þessari ástæðu. Það er ekki hægt annað en mótmæla þessu hvar sem það kemur fram. Mismunur á milli byggðarlaga, mismunur á lífskjörum fólksins af þessari ástæðu er fyrir hendi og framkvæmdin, eins og hún er, er bókstaflega uppgjöf frá því marki að taka tillit til þessa og leitast við að jafna það út.

Þegar fjallað var um þessi mál hér á Alþingi bar ég fram brtt. sem fólu aðeins í sér útvíkkun á heimildum til niðurgreiðslu á olíukostnaði. Þetta átti þá sérstaklega við varðandi heilsugæslustöðvar og spítala á þeim svæðum þar sem þarf að kynda með olíu. Jafnvel tillögur um þessar heimildir voru felldar hér á Alþingi. Og nú standa menn andspænis því, að vegna þessarar skattheimtu, sem var 1.5% hækkun á söluskatti; aukast tekjur ríkissjóðs að verulegum hluta. Menn standa líka gagnvart þeirri staðreynd, að það, sem ætlað er til þessara mála á fjárlögum, er ekki notað nema að hálfu. Það er af þessari ástæðu sem að sjálfsögðu er ekki hægt annað en vekja athygli á þessu og mótmæla því hvar sem þessi mál koma til umr.