07.12.1981
Efri deild: 18. fundur, 104. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

136. mál, verðjöfnunargjald af raforku

Egill Jónsson:

Herra forseti. Það er út af fyrir sig nokkuð fróðlegt að heyra hér tvo ráðh., báða kjörna á þing með atkv. Austfirðinga, tala um orkumál og húshitunarmál. Það vekur kannske á vissan hátt upp gamlar og ánægjulegar minningar frá því að haldnir voru framboðsfundir í Austurlandskjördæmi, en þetta mál var þar nokkuð títt til umræðu. Ég verð að segja það eins og er, að miðað við ræður þessara tveggja hæstv. ráðh finnst mér að viðskrh. muni öllu betur eftir sínum málflutningi fyrir siðustu alþingiskosningar einmitt í sambandi við þetta mál.

Það er engin furða þótt alþm. af Austurlandi, bæði á framboðsfundum og í annan tíma, muni eftir þessu sérstaka máli því að ég hygg að það séu tvö kjördæmi sem skera sig úr varðandi orkukostnað til húshitunar. Það eru þá væntanlega Vestfirðir og Austurlandskjördæmi. Það er ekkert að undra þótt úr þeim kjördæmum heyrist raddir um þessi mál og það sé kannske eftir því hlustað á Alþingi hvað menn hafa sagt fyrir alþingiskosningar. Ég verð að segja það alveg eins og er, að sá úrtölutónn, sem kom hér fram hjá hæstv. iðnrh., veldur mér vonbrigðum, ekki síst vegna þess að þessi hæstv. ráðh. er að öðru leyti jákvæður að eðlisfari.

Það verður væntanlega stutt í að í ljós kemur hversu boðskapur hæstv. viðskrh. hér stenst. En það er ákaflega mikilvægt hvað hér fengust fram ótvíræðar yfirlýsingar um að úr þessum málum verði betur greitt nú fyrir árslok. Það er satt að segja ekki lítill árangur sem þessi umr. skilar, a. m. k. að því er varðar skýringar á þessu máli, þar sem komnar eru fram alveg ótvíræðar yfirlýsingar af hendi viðskrh. um að olíustyrkurinn verði hækkaður. Ég gat ekki skilið mál hans öðruvísi en að það yrðu greiddar uppbætur á olíustyrkinn á þessu ári, enda sannast sagna að allt annað væri óforsvaranlegt miðað við stöðu þessa máls.

Það er svo kannske rétt að víkja örfáum orðum að röksemdum hæstv. iðnrh. Hann talar m. a. um samanburð á raforkuverði og kostnaði við olíukyndingu og þá er að sjálfsögðu að ýmsu að hyggja í þeim efnum. Í fyrsta lagi er það, að ég hygg, óumdeilanlegt að nýting á raforku sem orkugjafa sé að öðru jöfnu betri en á olíu. Það gerir einfaldlega það, að eftirlit með tækjabúnaði varðandi kyndingu með olíu er margbrotnara en þegar um raforku er að ræða. Ég hef fyrir mér mörg dæmi um að fólk hefur bætt sinn hag, sem betur fer, með því að breyta úr olíukyndingu yfir í raforku og það umfram það sem taxtar segja til um. En svo er líka á það að líta, sem skiptir ákaflega miklu máli í þessu sambandi, að hæstv. ráðh. segir að raforka til húshitunar sé seld á undirverði. Þá er spurningin: Við hvað er miðað í þessum efnum? Þetta stenst því aðeins að raforka seljist á hærra verði. Nú vitum við að í sumum tilvikum hefur þurft að reka sum raforkuver með olíu og þá vita allir hvað það kostar. Í öðru lagi hefur ekki verið fyrir hendi nægileg raforka til að selja með betri kjörum. Allir vita að undir þeim kringumstæðum er ekki hagnaður af því að selja raforku til húshitunar. En eins og ástæðurnar eru væntanlega í raforkumálum eftir að Hrauneyjafossvirkjun hefur komist í gagnið er fyrir hendi raforka sem ekki nýtist með öðrum hætti en þeim að selja hana til húshitunar. Þá er alveg öruggt að það er betra að selja hana við lægra verði til þess að hægt sé að færa húshitunina yfir í raforku sem allra víðast. Hér er sannarlega ekki um neitt einfalt dæmi að ræða.

Það er óþarft að taka það frekar fram en hér hefur komið í ljós í sambandi við umr., að þegar lögin voru sett og styrkur til húshitunar ákveðinn var raforkuverð nokkuð sambærilegt og niðurgreitt olíuverð. Hlutur olíuupphitunar hefur því versnað verulega frá því að lögin voru sett.

Það væri að sjálfsögðu hægt að fara um þetta fleiri orðum. Ég á von á að þessi mál verði rædd meira á Alþingi. Þessi umr. hefur skilað að því leyti jákvæðum árangri, eins og ég hef áður minnst á, að fengist hafa fram yfirlýsingar af hendi hæstv. viðskrh., mjög mikilvægar yfirlýsingar, um hækkun á olíustyrk. En það er til viðbótar við það, sem ég hef sagt, vert að undirstrika það alveg sérstaklega, sem kom reyndar fram í ræðu hv. 4. þm. Vestf., að það er ekki alveg sama fyrir hvað menn eru að borga. Hér hafa verið taldar upp hitaveitur, m. a. ein slík í Austurlandskjördæmi, sem selja orku sína jafnvel hærra verði en nemur kostnaði við kyndingu með olíu. En þá mega menn ekki gleyma því, að þarna er líka verið að borga niður fjármagn. Þarna er verið að stórbæta aðstöðu þessara byggðarlaga og fólkið, sem greiðir þetta, veit vel að innan fárra ára, þegar búið er að greiða niður lán og stofnkostnað, bíðá þess í þessum efnum betri tímar. Þegar menn meta þessi mál út frá byggðasjónarmiðum finna þeir að þetta eykur gífurlega mikið á styrk þessara byggðarlaga. Það hafa menn m. a. séð í sambandi við uppbyggingu á Egilsstöðum. Merki um það var t. d., að því er mér hefur verið tjáð, hversu mikið jókst eftirspurn eftir íbúðarlóðum þegar hitaveitan þar var í undirbúningi.

Það má sem sagt alls ekki blanda því tvennu saman, hvort menn eru að byggja upp verðmæt fyrirtæki, sem stórauka hag byggðarlaganna, eða hvort menn eru að kynda hús sín á stöðum þar sem ekki er hægt að eignast slík fyrirtæki og njóta þeirra lífsþæginda sem af þeim leiðir. Það er alveg nauðsynlegt að menn geri sér ljóst að það er sama þörf nú og var fyrir tveimur árum að jafna aðstöðu fólksins í þessu landi að því er varðar upphitun híbýla sinna. Það er sama þörf og ekki síðri en þá var, og menn mega ekki vanmeta það, þótt þeim fækki sem betur fer sem í þeirri þörf eru.