17.12.1982
Neðri deild: 21. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1254 í B-deild Alþingistíðinda. (1016)

103. mál, meðferð opinberra mála

Frsm. minni hl. (Ólafur Þ. Þórðarson):

Herra forseti. Fyrir deildinni hefur legið frv. til l. um breytingu á lögum nr. 74 frá 21. ágúst 1974, um meðferð opinberra mála. Samkv. aths. við lagafrv. þetta er markmið þess ekki að breyta á nokkurn hátt sektarheimildum frá því sem nú er á annan veg en þann að aðlaga þær verðlagshækkunum sem orðið hafa. Ég leyfi mér til áréttingar máli mínu að lesa þá aths. sem fylgir frv. og er mjög stutt, svo að ekki fari á milli mála að þessi tilgangur einn hefur vakað fyrir þeim sem fluttu málið hingað inn á Alþingi. Þar segir svo með leyfi forseta:

„Samkvæmt gildandi lögum er sektaheimild lögreglustjóra bundin við 3000 kr. og sektaheimild lögreglumanna bundin við 300 kr. Með sama hætti er heimild lögreglustjóra til að ákveða eignaupptöku vegna brota, sem sektaheimild lögreglustjóra nær til, bundin við 1000 kr. og heimild dómara til að ákveða eignaupptöku, ef brot er skýlaust sannað en sökunautur finnst ekki eða er ókunnugur, takmörkuð við 5000 kr.“ Þarna er reyndar búið að breyta gömlu krónunum í nýkrónur í þessum lagatexta.

„Fjárhæðir þessar hafa staðið óbreyttar frá árinu 1980. Er lagt til að fjárhæðir þessar verði hækkaðar vegna verðlagsbreytinga. Sektaheimildir þessar hafa gefið góða raun og létt verulega álagi af dómstólum. Er því nauðsynlegt að heimildirnar fylgi verðlagsþróun.“

Ég óskaði eftir því, þegar þetta mál var til meðferðar hjá allshn., að tími gæfist til að athuga hvort þær tölur sem eru í frv. væru í samræmi við þá verðlagsþróun sem orðið hefur. Einnig óskaði ég eftir að fá upplýsingar um skiptingu á þessum sektum þegar þær hafa verið innheimtar. Ekki fékkst ráðrúm til þeirra athugana. Ég hef þess vegna eftir þann nefndarfund aflað mér þeirra gagna sem hér um ræðir að nokkru. M.a. hafði ég samband við Hagstofu Íslands til að fá hennar mat á því hvaða breytingar hefðu orðið til hækkunar frá því í maí 1980.

Ef miðað er við breytingar á vísitölu vöru og þjónustu má segja að raunhæft sé að margfalda með 2.92 til að fá út þá verðlagsbreytingu sem orðið hefur. Ég vil taka það fram að það eina sem ég hef lagt til er að leiðrétta upphæðirnar í lagafrv., eins og það hefur verið lagt fyrir þingið, til samræmis við þær upplýsingar sem komið hafa frá Hagstofunni um þetta mál. Tel ég mig með því móti hafa gert þær breytingar sem geri aths. við lagafrv. rökréttar miðað við eðli málsins. Rétt er að það komi fram, að árið 1980 voru framkvæmdar mjög ríflegar breytingar á þessum sektaheimildum, miðað við það sem áður hafði verið, þannig að óhætt er að fullyrða að þær hafa fylgt verðlagsþróun og vel það.