26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í B-deild Alþingistíðinda. (103)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Það sem hér liggur fyrir til umr. er till. til þál. um athugun á möguleikum íslenskra fiskiskipa til veiði í erlendri fiskveiðilandhelgi. Þetta mál hefur verið flutt áður. Ég ætla ekki að bæta mörgum orðum við grg. og rökstuðning flm. Samt vil ég víkja að einu atriði.

Á borðum þm. liggur nú fyrir skjal nr. 45 í Sþ., þjóðhagsáætlun fyrir 1983. Þar segir á bls. 10 í kaflanum um atvinnumál:

„Forsenda nægrar og öruggrar atvinnu fyrir vaxandi fjölda fólks eru traustir atvinnuvegir. Staða þeirra verður best styrkt til lengdar með því að auka framleiðni og hagræðingu og með því að draga úr kostnaði við framleiðslustarfsemina. Í yfirlýsingu ríkisstj. frá 21. ágúst vegna aðgerða í efnahagsmálum kom fram, að ríkisstj. hefur ákveðið að standa að margháttuðum aðgerðum til að treysta atvinnuvegina. Sumt af því er unnt að framkvæma strax, en annað mun ekki skila árangri fyrr en að nokkrum tíma liðnum.“

Síðan segir, herra forseti, undir fyrirsögninni „Sjávarútvegur“:

„Það eykur á vanda sjávarútvegs, þegar afli dregst saman, að mörg ný skip hafa bæst í flotann á síðustu árum með mun meiri fjármagnskostnað en eldri skipin. Rekstrarstaða þessa hluta flotans er því mun verri en hinna skipanna, og gerir það stöðu greinarinnar í heild lakari en ella. Af þessum sökum er nú nauðsynlegt að stöðva innflutning fiskiskipa algerlega næstu tvö árin og gera verulegar kröfur til eiginfjárframlags með nýsmíði innanlands. Reynslan sýnir, að mjög erfitt er að draga úr ásókn í ný skip eftir þeirri leið að herða fjármagnskjörin. Það er því nauðsynlegt að grípa tímabundið til þess ráðs að banna a!gerlega innflutning á skipum.“

Hvernig tengjast þessi tvö mál? Jú, annars vegar er því haldið fram í þjóðhagsáætlun ríkisstj. sjálfrar að einn helsti vandinn, sem við er að fást í sjávarútvegsmálum, sé beinlínis afleiðing af stefnu sjútvrh. og hæstv. ríkisstj. að fjölga í sífellu skipum á sama tíma og afrakstursgeta fiskistofna er takmörkuð og veiðimagn er takmarkað með sérstökum aðgerðum. Þannig veit hægri höndin ekki hvað sú vinstri gerir í stjórnarathöfnum. Fyrir liggur að ríkisstj. hefur gripið til bráðabirgðaúrræða. Þau eru að fella gengið, að hækka skatta og að krefja launþega um það 1. des. að opna launaumslögin sín til að borga bakreikninga þeirrar rányrkjustefnu sem hér hefur verið rekin. Þessar almennu ráðstafanir dugðu ekki og hæstv. sjútvrh. þurfti að tvítaka þessar aðgerðir. Að lokum náðist samkomulag milli ríkisstj. og hagsmunaaðila um að grípa til frekara gengissigs, taka erlend lán og ávísa síðan á tóma sjóði til þess að fleyta sjávarútveginum fram til næstu áramóta. En áramótin eru skammt undan og þá þarf að reikna dæmið upp á nýtt. Horfurnar fram undan að því er varðar gengisþróun eru uggvænlegar, horfur fram undan í efnahagsmálum uggvænlegar. Það dæmi verður ekki einfalt úrlausnar.

Því hefur verið haldið fram af gagnkunnugum aðila í útgerð, Ólafi Björnssyni útgerðarmanni í Keflavík, að þrátt fyrir að menn gæfu sér þær forsendur að aflamagn á hvern hinna nýju Steingrímstogara verði tvöfaldað frá því sem nú er, og margir afla þeir vel, þá dygði það ekki til til þess að endar næðu saman í rekstri þeirra. Hvað á þá til bragðs að taka? Á að reikna rekstrargrundvöll sjávarútvegsins frá næstu áramótum miðað við allan flotann, líka þann hluta hans sem fyrirsjáanlega er enginn rekstrargrundvöllur fyrir? Á að miða gengisskráningu íslensku krónunnar við það eða ætti að horfast í augu við vandann, t.d. með þeim hætti að taka þessa margfrægu Steingrímstogara út úr dæminu og finna þeim önnur verkefni? Um það m.a. er þessi tillaga.

Nú er það alkunna, eins og segir í grg. með þessari till. að samningar hafa verið gerðir milli ríkja, eins og t.d. milli Austur-Evrópuríkja og Bandaríkjanna og Kanada. um veiðiheimildir í þeirra fiskveiðilandhelgi Einnig liggja fyrir upplýsingar um að mörg hinna vanþróuðu ríkja, sem við þróun hafréttar á undanförnum árum hafa náð einkarétti á fiskveiðilögsögu sinni, þurfa mjög á aðstoð að halda til að geta nýtt þessar auðlindir sinar. Við Íslendingar erum öðrum þjóðum fremur sérfróðir um sjávarútvegsmál, þó að því megi kannske halda fram að við séum ekki endilega sérfróðir um rekstur. Íslenskir sjómenn eru afkastamestu sjómenn í heimi. Aflamagn á hvern mann er hið mesta í heimi. Reynsla okkar og kunnátta í þessum efnum, í þessari sérgrein okkar, er mikils virði. Það er mikilvægt mál hvort við getum ekki á sama tíma og við búum við of stóran flota einfaldlega boðið fram bæði tæki og sérþekkingu, kunnáttu okkar einvalaliðs, sjómannastéttar okkar, í því skyni að aðstoða vanþróaðar þjóðir til að nýta sinar auðlindir.

Það er mikið rætt um alþjóðlega samhjálp og það er líka mikið gert að því að benda á að hún vill oft víkja fyrir eiginhagsmunum og sérgæðingshætti hverrar þjóðar. Kannske er hægt að leysa málin þegar saman fer nokkur eigin hagur og vilji til aðstoðar við aðra. Þess vegna er þetta alvörumál og þess vegna ber að kanna það í alvöru.

Hvernig á að leysa mál íslenskra byggðarlaga, ef um það væri að ræða að fækkað væri. í togaraflotanum? Um það liggja fyrir ýmsar ábendingar, m.a. í þeim óskalista sem fylgdi brbl. ríkisstj., þ.e. ábendingar frá stjórnarliðum sjálfum um nauðsyn þess að við ákvörðun á verðlagningu hinna ýmsu fisktegunda verði reynt að draga úr því að eini mælikvarðinn á afkomu sé aflamagnið sjálft og stuðla með verðlagningunni frekar að bættri meðferð afla strax við veiðar og um borð og í vinnslu. Í annan stað hafa verið fluttar á hv. Alþingi tillögur sem miða að því að miðla afla, að samræma afla og vinnslu eftir afkastagetu. M.ö.o. að gera sérstakar ráðstafanir ef of mikill afli berst á land á einum stað, til þess að gera það hagkvæmt og framkvæmanlegt að hann verði unninn þar sem hörgull er á hráefni. Þetta er auðvitað ein leið. Um þetta hafa verið fluttar tillögur. Ég minnist t.d. till. hv. þm. Kjartans Jóhannssonar þess efnis að gera mönnum þetta auðveldara í framkvæmd með því að stofnaður verði sérstakur sjóður er ábyrgðist greiðslur fyrir landaðan afla til þeirra staða sem fengju hann til vinnslu.

Það er ekki nóg að segja: Vandinn er óviðráðanlegur. Það er ekki nóg að leggja fram opinbert gagn sem heitir þjóðhagsáætlun og benda á að vandinn í sjávarútvegi hefur stóraukist fyrir tilverknað ráðh. Hann er fyrst og fremst í því fólginn að togurum hefur verið fjölgað á sama tíma og afrakstursgeta fiskistofna er takmörkuð og veiðiheimildir takmarkaðar. Það er ekki nóg að tala almennum orðum um að það sé stefnt að því að auka framleiðni og hagræðingu og draga úr kostnaði við framleiðslustarfsemi á sama tíma og afleiðingar stjórnarstefnunnar eru þær að auka tilkostnað á fjármagnseiningu, auka tilkostnað á hvert mannár, draga m.ö.o. úr framleiðni og hagræðingu og auka tilkostnað við veiðar og vinnslu. Vandamálið þarf að leysa. Þetta er mjög athyglisverð tillaga og ég vil endurtaka að það ber að taka hana alvarlega.