26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í B-deild Alþingistíðinda. (105)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til að fagna því að þessi till. er fram komin. Hér er einungis um að ræða könnun á þessu efni.

Þess er að gæta, að hafréttarsáttmálinn gerir ekki einungis ráð fyrir að fiskur sé ekki ofveiddur, hann gerir líka ráð fyrir því að stuðlað sé að því að fiskur sé ekki vannýttur og að veiðum sé hagað þannig að skynsamleg nýting fari fram á auðæfum hafsins. Það er vitað, að sums staðar eru vannýttir fiskistofnar og það er ekkert við það að athuga að við Íslendingar rannsóknum hvort við getum tekið þátt í því að nýta þessi auðæfi, bæði okkur sjálfum til hags og eins þeim sem hugsanlega mundu selja okkur veiðileyfi, eða við tækjum að okkur að kenna fiskveiðar, sem till. fjallar ekki um þótt einn ræðumanna hafi sérstaklega vikið að því.

Við Íslendingar viljum auðvitað ekki að aðrir ásælist okkar fiskimið og höfum haldið mjög vel á málum í því efni og höfum tryggt okkur sérstöðu, þar sem er 71 gr. hafréttarsáttmálans, þar sem við erum alveg undanþegnir því að þurfa að þola það að nokkrir aðrir veiði í okkar fiskveiðilandhelgi. Við ætlum okkur ekki að seilast til veiða innan fiskveiðilandhelgi annarra ríkja þar sem þau geta sjálf hagnýtt sín auðæfi. Það mundum við aldrei gera. En þar sem um vannýtta fiskistofna er að ræða er ekkert óeðlilegt að við athugum hvort við getum tekið þátt í veiðum.

Mér finnst ekki viðkunnanlegt að vera að draga hér inn í spurningar eins og þá sem hv. síðasti ræðumaður dró fram, hvort hér mundi skapast atvinnuleysi ef skip af einhverjum ákveðnum landssvæðum færu til veiða. Auðvitað mundu þá fyrst og fremst fara skip sem væru ekki notuð eða litt notuð hér innanlands. Þar að auki er auðvitað hægt að fá skip með mjög góðum kjörum erlendis keypt. Ef þau væru alls ekki notuð til fiskveiða í okkar fiskveiðilandhelgi, mætti auðvitað beita þeim annars staðar.

En mér finnst aðalatriðið að fara ekki að hnotabítast um þetta, heldur hitt að láta þessa könnun fram fara. Það getur engan skaðað og þess vegna er ég ánægður með að á þetta skuli hafa verið bent hér og till. þessi flutt.