18.12.1982
Efri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

55. mál, orlof

Frsm. minni hl. (Þorv. Garðar Kristjánsson):

Herra forseti. Félmn. Ed. var ekki sammála um þetta frv. eins og þegar hefur komið fram. Við fulltrúar Sjálfstfl. í n. höfum lagt fram minnihlutaálit á þskj. 226. Við getum ekki fallist á þetta frv., sem við ræðum nú, og það er ýmislegt sem til þess ber.

Við skulum hafa í huga að frv. þetta er flutt í sambandi við efnahagsaðgerðir ríkisstj. samkv. brbl. frá 21. ágúst s.l. Með þessum lögum voru verðbætur á laun lækkaðar og skorinn niður launakostnaður fyrirtækja. Hins vegar er með þessu frv. farið í gagnstæða átt og aukinn launakostnaður fyrirtækja.

Við sjálfstæðismenn teljum ekki hægt að bera ábyrgð á slíkum látbragðaleik ríkisstj., sem fram kemur í þessum málum, og leggjum því til að menn sitji hjá við afgreiðslu þessa frv.