26.10.1982
Sameinað þing: 8. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

12. mál, veiðar í erlendri fiskveiðilandhelgi

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vestf. spyr í tilefni af þessum umr. um hættu á atvinnuleysi og vill fá að vita á hvaða svæðum hún yrði mest. Honum stæði nú kannske nær að svara því sjálfum. Væntanlega er þm. svo kunnugur staðháttum í sínu eigin kjördæmi að hann viti að í fjölmörgum verstöðvum á Vestfjörðum hefur orðið að leita eftir erlendu vinnuafli svo skiptir tugum og hundruðum manna. Og þessi erlendi vinnukraftur er sóttur jafnvel alla leið til andfætlinga okkar á hnettinum, þ.e. til Ástralíu og Nýja-Sjálands. Sjálfur er ég persónulega kunnugur því, að við fiskiðnað á Vestfjörðum hafa ekki aðeins starfað menn hinum megin frá á hnettinum heldur af flestum þjóðernum hefðbundinna farandverkamanna í Evrópu og víðar. Þar eru starfandi Tyrkir, Arabar, Júgóslavar, Portúgalar, Spánverjar o.s.frv.

En spurningin er að sjálfsögðu út í hött ef það er staðreynd, sem raunverulega er verið að segja hér í þjóðhagsáætlun og greinargerð Þjóðhagsstofnunar um efnahagsmál, að Steingrímstogararnir séu gjaldþrota, nema því aðeins að það kraftaverk gerist að þeir allt að því tvöfölduðu aflamagn sitt, því þá er atvinna fjölda fólks í hættu. Margir þessara togara afla vel. Við erum ekki að gera því skóna að það hafi verið ráð fyrir því gert þegar rekstrargrundvöllur þeirra var reiknaður út að þeir legðu upp 7, 8, 9 eða 10 þús. tonna ársafla, en hvað gerist ef þessir togarar verða raunverulega gjaldþrota? Hvað verður um atvinnu þeirra sjómanna og atvinnu þess fólks sem vinnur við úrvinnslu aflans? Hverra kosta er þá völ? Annars vegar er hér till. sem miðar að því að það verði kannað hvort hægt er að finna hluta af hinum of stóra fiskveiðiflota verkefni sem í sjálfu sér má gera ráð fyrir að séu arðgefandi. Það er ekki verið að tala um að gera þessi skip út fyrir ekkert. Það er verið að biðja um að kannað verði hvort hægt sé að finna þeim verkefni sem greitt verði fyrir.

Ég vil vekja athygli á því, að meðal stjórnarliða er að finna ýmsa þá menn sem hvað ákafast hafa haldið því fram að gera þyrfti sérstakar ráðstafanir til að miðla afla í samræmi við vinnslugetu. Ég minnist þess t.d. að dagblaðið Þjóðviljinn birti sérstakan óskalista þeirra Alþb.manna, sem að vísu er ekki að finna í óskalista ríkisstj., þar sem eru fjölmörg atriði sem að því lúta að gera þurfi sérstakar ráðstafanir til að miðla afla og samræma vinnslu og gera sérstakar ráðstafanir, m.a. fræðsluherferð, sem væntanlega á að verja til einhverjum fjármunum, til þess að bæta meðferð afla og auka aflaverðmætið.

En spurningu hv. þm. er reyndar svarað fyrir hönd ríkisstj. í þjóðhagsáætlun, sem ég vitnaði til áðan. Þar segir:

„Forsenda nægrar og öruggrar atvinnu fyrir vaxandi fjölda fólks eru traustir atvinnuvegir. Staða þeirra verður best styrki til lengdar með því að auka framleiðni og hagræðingu og með því að draga úr kostnaði við framleiðslustarfsemina.“

Það er allt og sumt. Þarna er svarið, herra þingmaður. Það sem hefur verið að gerast er það, að í stað þess að auka framleiðni og hagræðingu og draga úr kostnaði hefur allur tilkostnaður við veiðar takmarkaðs afla verið stóraukinn með mjög alvarlegum þjóðhagslegum afleiðingum, nefnilega þeim að þetta hefur þýtt þörf fyrir hærra fiskverð en ella hefði verið, þörf fyrir meiri gengislækkun en ella hefði verið og ein afleiðingin þar af leiðandi meiri verðbólga en ella hefði verið og lakari rekstrarstaða fyrirtækja. Þeim mun meiri verðbólga, þeim mun minni framleiðni og þeim mun ótraustari atvinnuvegir. Hafi hv. 5. þm. Vestf. einhverjar aths. við þetta að gera bið ég hann vinsamlegast um að beina þeim spurningum sínum til réttra aðila, þ.e. til hæstv. ríkisstj. og ráðgjafa hennar, sem þessa áætlun gefa út.