18.12.1982
Efri deild: 26. fundur, 105. löggjafarþing.
Sjá dálk 1266 í B-deild Alþingistíðinda. (1079)

136. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Sú brtt. sem hér er verið að greiða atkv. um er efnislega sammála kjarnagrein þess ríkisstjórnarfrv. sem hér er verið að fjalla um. Mér er kunnugt um það, að innan ríkisstj. voru ráðherrar Framsfl. og ráðherrar sjálfstæðismanna eindregnir talsmenn þess að þetta frv. yrði flutt. Ég verð því að segja eins og er að það kemur mér mjög á óvart að það skuli síðan gerast hér í atkvgr. að þeir hinir sömu ráðherrar skuli nú greiða atkv. gegn brtt. sem efnislega felur það í sér að breyta þessu frv. í það sama horf sem þeir samþykktu innan ríkisstj. að ætti að vera frv. ríkisstj.

Hæstv. forsrh. var ekki í salnum þegar hans nafn var kallað. Vona ég að hann taki þátt í þessari atkvgr., þar eð hann er nú genginn í salinn, svo að skýrt komi fram hvort það eru fleiri ráðherrar í þessari hv. deild sem ætla að hlaupast undan merkjum þess ríkisstjórnarfrv. sem hér er verið að greiða atkv. um.

Ég flutti þessa brtt. til þess að standa við það efnisákvæði sem ríkisstjórnarfrv. miðaðist upphaflega við. En þar að auki vil ég taka undir þau sjónarmið sem hér komu fram bæði hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni og hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni. Hér er verið að setja tryggingu af hálfu löggjafans í þágu íbúa sveitarfélaganna til að koma í veg fyrir að skattahækkun sveitarfélaganna verði meiri en önnur almenn skattahækkun í landinu. Ég segi þess vegna já.